Fulltrúar VR, Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandsins og Félags atvinnurekenda áttu í morgun fund með Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að ræða tillögur félaganna um lækkun og niðurfellingu tolla í þágu neytenda. Fyrir fáeinum dögum átti hópurinn fund með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.
Gerðar voru bókanir við kjarasamninga FA og stéttarfélaganna, sem kveða á um að samtökin muni í sameiningu beita sér gagnvart stjórnvöldum til að knýja á um lækkun tolla, sem sé ein skilvirkasta leiðin til að bæta hag launþega.
Samtökin bentu á að verðbólga hefði aukist á ný. Leita þyrfti allra leiða til að stemma stigu við henni og varðveita þannig þær kjarabætur sem um samdist í kjarasamningunum í desember. Fyrir ráðherra voru kynntar þrjár tillögur, sem allar eru byggðar á eldri tillögum Samkeppniseftirlitsins og Samráðsvettvangs um aukna hagsæld:
- Tollar verði felldir niður af alifugla- og svínakjöti og frönskum kartöflum. Tollar falli niður af blómum sem ekki eru ræktuð á Íslandi. Tollar á t.d. túlipönum og rósum falli niður á tímabilum þegar innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn.
- Innlendum afurðastöðvum búvöru og vinnslustöðvum í þeirra eigu verði óheimilt að bjóða í eða sækjast eftir tollkvóta fyrir innfluttar landbúnaðarafurðir, sbr. tillögur Samkeppniseftirlitsins frá 2012. Skoðaðar verði leiðir til að úthluta tollkvótum án endurgjalds, sbr. sömu tillögur.
- Tollar á mjólkur- og undanrennudufti og smjöri falli niður, sbr. tillögur Samkeppniseftirlitsins frá 2015.
Tillögurnar beinast fyrst og fremst að tollum sem vernda ekkj hefðbundna sauðfjár- og nautgriparækt. Í tilviki alifugla- og svínakjötsræktar er um að ræða verksmiðjubúskap, sem að stórum hluta er í þröngu eignarhaldi. Framleiðsla á frönskum kartöflum hefur lagst af á Íslandi. Háir tollar eru lagðir á alls konar blóm sem ekki eru ræktuð á Íslandi og eins þarf að greiða háa tolla af innflutningi blóma, þar sem innlend framleiðsla annar engan veginn eftirspurn. Háir tollar á hráefnum eins og mjólkurdufti og smjöri bitna á innlendri matvælaframleiðslu, sem er í raun þvinguð til að kaupa aðföng sín af einu fyrirtæki, Mjólkursamsölunni, á háu verði. Afleiðingin er hækkun verðs til neytenda. Þá hafa innlendir framleiðendur búvöru, einkum svína- og ailfuglakjöts, náð til sín meirihluta tollkvóta fyrir viðkomandi afurðir með því að bjóða hátt í hann, stuðla þannig að hærra verði og hindra samkeppni við eigin afurðir.