Staða kjaraviðræðna 14. nóvember 2022

Nú þegar kjarasamningar eru runnir úr gildi er rétt að fara yfir stöðu viðræðna. Búið er að halda 6. formlega samningafundi, auk nokkurra vinnufunda, þar sem kröfugerð RSÍ og annarra félaga í samfloti iðn- og tæknifólks hefur verið til umfjöllunar. Kröfurnar voru unnar í kjölfar fundarferðar um landið, viðhorfskönnunar á meðal félagsfólks og funda í baklandi RSÍ.

Helstu kröfur sem settar hafa verið fram snúa að:

  • breytingum á vinnutímaákvæðum og þá til einföldunar á þeim,
  • aukinni styttingu vinnuvikunnar sem nái til allra hópa og henti rafiðnaðarfólki,
  • breytingum á yfirvinnu þannig að aðeins verði um eina yfirvinnuprósentu að ræða og þar með til einföldunar á fyrirkomulagi á yfirvinnugreiðslum.
  • Krafa er um að jafna orlofsrétt við opinberan vinnumarkað þannig að almennt gildi 30 daga orlof fyrir allt launafólk.
  • Sett var fram krafa um að tryggja að vinnutímastytting næði til fólks í vaktavinnu.
  • Krafa var sett fram um að færa helgidaga, sem lenda á helgum en eru almennt ekki bundnir við ákveðinn vikudag, til næsta virka dags.

Þetta er aðeins hluti af þeim kröfum sem settar hafa verið fram af hálfu RSÍ og aðildarfélaga sem og samfloti iðn- og tæknifólks. Kröfugerðin í heild!

Að undanförnu hefur mismunandi lengd samningstíma verið metninn af hálfu félaganna, en mikill áhugi viðsemjenda hefur verið að skoða tímalengd sem telst til skammtíma samninga. Ljóst er að ef semja á til skamms tíma, þá þarf að setja mikinn kraft í slíkar viðræður svo kjarasamningsviðræðum verði lokið innan tiltölulega skamms tíma.

Næsti fundur með Samtökum atvinnulífsins verður á morgun, þriðjudaginn 15. nóvember.