Þau sem taka að sér að vinna verk fyrir aðra og vinna á eigin ábyrgð, í ótraustu ráðningarsambandi, eru sjálfstætt starfandi. Árið 2021 er um 9% vinnuafls á íslenskum vinnumarkaði í þesskonar ráðningarsambandi og fer stækkandi líkt og um heim allan.

Fyrir sjálfstætt starfandi þarf að huga vel að tímakaupi og samsetningu þess þegar samið er um verkefni. Ofan á tímakaup er nauðsynlegt að gera ráð fyrir ýmsum liðum:

 • Tryggingjaldi 6,10% sem rennur til ríkisins og fjármagnar m.a. greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. (Þar af er tryggingagjaldið sjálft 4,65%, atvinnutryggingagjald 1,35%, og síðan bætast við gjald í ábyrgðasjóð launa (0,05%) og markaðsgjald (0,05%).
 • Lífeyrissjóðsgreiðslur 15,5% – skylt skv. lögum.
 • Endurhæfingarsjóður 0,1% – skylt skv. lögum.
 • Félagsgjald í Félag innan RSÍ 1% af launum.
 • Orlofssjóður 0,25%
 • Menntasjóður 1,1% í menntasjóð, menntasjóður rekur endurmenntunarkerfi og greiðir styrki fyrir nám/námskeið af ýmsum toga.
 • Sjúkrasjóður 1% og myndast við það réttindi til styrkja eins og gleraugnastyrk, líkamsræktarstyrk ofl. Nánar hér.
 • Orlofslaun 11,59% til að fjármagna fríin.
 • 3,1% til að fjármagna veikindadaga.
 • 4,3% til að fjármagna löghelga frídaga.
 • 4,1% Desember og orlofsuppbót.

Samtals amk. 48,39% sem bætast þarf við tímakaup. Til viðbótar má nefna tryggingar sem þarf að skoða í tengslum við vinnuna, hugsanlegan vinnufatnað, verkfæri og þessháttar.

Lágmarkslaun sjálfstætt starfandi

Landslög segja að ekki megi greiða lægri laun en lágmarkskjör löglega gerðs kjarasamnings segja til um. Þá gildir einu hvort viðkomandi launamaður sé í verkalýðsfélagi eða ekki. Sama gildir um vinnuveitanda það skiptir engu hvort hann sé í samtökum vinnuveitenda eða ekki.

Ef umsamin lágmarkslaun eru td kr. 1.000 í dagvinnulaun skv. kjarasamningi þá mega kjör sjálfstætt starfandi ekki vera lægri en að viðbættum 48,39%, eða kr. 1.483,90 á tímann í dagvinnu, réttindi tapast ef þau eru lægri.

Til viðbótar við þá upphæð vantar álag vegna umsýslu, uppsagnarfrests og dauðs tíma.

 • Umsýsla er hluti álagningar sem vinnuveitandi fær vegna þess tíma sem hann ver í að ganga frá launaseðlum og gera upp launatengd gjöld.
 • Álag vegna uppsagnarfrests er misjafnt. Hann er eftir lengd uppsagnarfrests og vitanlega fer einnig eftir atvinnuástandi í viðkomandi starfsgrein.
 • Dauðan tíma er erfitt að meta til ákveðinnar upphæðar, hér spilar inn atvinnuástand og eðli vinnunnar. Þeir sem eru í þjónustu við tiltekin tæki þurfa oft að bíða einhvern tíma milli verkefna.
 • Verðmæti veikindaréttar og slysaréttar er misjafnt.

Sjálfstætt starfandi þurfa til viðbótar við það sem að ofan er bent á, að greiða virðisaukaskatt af útseldri vinnu.

Var efnið hjálplegt?