Félagar í RSÍ eiga rétt á því að greiða félagsgjald af atvinnuleysisbótum og viðhalda þannig réttindum á sama hátt og greitt væri af viðkomandi vegna launatekna, í alla sjóði. Vinnumálastofnun sér um að greiða áfram til stéttarfélaga í þessu skyni, en ósk um það þarf að koma frá umsækjendum sjálfum.

Vari atvinnuleysi félagsmanns það lengi að réttur til atvinnuleysisbóta hjá Atvinnuleysistryggingasjóði sé fullnýttur í tímalengd, eins og rétturinn er hverju sinni, er heimilt að veita viðkomandi sömu félagsréttindi í allt að tvö ár þrátt fyrir að ekki berist greiðslur félagsgjalda eða iðgjöld í tilheyrandi sjóði. Að þeim tíma liðnum heldur félagsmaður rétti til félagsaðildar án þess að eiga rétt á styrkjum úr sjóðum félagsins/sambandsins að því gefnu að viðkomandi hafi ekki öðlast rétt í öðru stéttarfélagi.

Til að viðhalda ofangreindum rétti ber félagsmanni að leggja fram staðgreiðsluyfirlit frá RSK þegar óskað er eftir.

Atvinnuleysisbætur

Vinnumálastofnun sér um afgreiðslu atvinnuleysisbóta eða bætur vegna skerts starfshlutfalls – á höfuðborgarsvæðinu er skrifstofan að Grensásvegi 9.

(Gildir frá 1.janúar 2022)

  • Atvinnuleysisbætur eru 70% af launum – þó aldrei hærri en kr. 494.585 á mánuði í 6 mánuði, eftir þann tíma taka við grunnatvinnuleysisbætur.
  • Grunnatvinnuleysisbætur eru kr. 313.729 á mánuði.
  • Hlutabætur eru greiddar í samræmi við skert starfshlutfall.
  • Bætur vegna barna undir 18 ára aldri eru kr. 18.824 á mánuði með hverju barni.
  • Frítekjumark er 98.640 krónur á mánuði í 100% atvinnuleysi.

Þeir sem fá atvinnuleysisbætur þurfa að gæta þess að greiða áfram til stéttarfélaga til að halda réttindum sínum – Vinnumálastofnun sér um greiðslu félagsgjalda til RSÍ sé þess óskað á umsókn.

Námskeið og endurmenntun í atvinnuleit

Vinnumálastofnun veitir ýmsa styrki í atvinnuleysi t.d. námsstyrki, sjá nánar á www.vmst.is

Réttindi félaga í RSÍ í atvinnuleit:
Atvinnulausir félagar í RSÍ fá námskeið hjá Rafmennt frítt.
IÐAN býður upp á fjölbreytt námskeið sem standa félögum RSÍ til boða á sérkjörum og starfsfólk Rafmenntar veitir nánari upplýsingar um niðurgreiðslur og afslætti fyrir RSÍ-félaga. Rafmennt, sími 5400160.

Útreikningur atvinnuleysisbóta

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi og atvinnuleysisbætur eru hærri en sem nemur óskertum rétti til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki eru atvinnuleysisbætur skertar um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og fjármagnstekjur.

Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum skv. lögum um atvinnuleysistryggingar.

Athygli er vakin á að umsækjendur um atvinnuleysistryggingar þurfa að gera grein fyrir öllum þeim tekjum sem þeir kunna að hafa á sama tíma og þeir eru á atvinnuleysisbótum, einnig ef tekjur eru lægri en frítekjumark.

Frítekjumark vegna tekna samhliða atvinnuleysisbótum er kr. 98.640. 

Skerðing atvinnuleysisbóta er á eftirfarandi hátt:

  1. Atvinnuleitandi er í hlutastarfi – Atvinnuleysisbætur skerðast um starfshlutfall og um helming samanlagðra tekna (tekjur úr starfi og atvinnuleysisbætur) sem eru umfram óskertan rétt til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki.
  2. Tekjur vegna tilfallandi vinnu – Atvinnuleysisbætur skerðast um helming þeirra samanlagðra tekna (tekjur úr starfi og atvinnuleysisbætur) sem eru umfram óskertan rétt til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki.
  3. Elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur – Atvinnuleysisbætur skerðast um helming þeirra samanlagðra tekna (elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur og atvinnuleysisbætur) sem eru umfram óskertan rétt til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki.
  4. Greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga vegna óvinnufærni að hluta – Atvinnuleysisbætur skerðast um hlutfall óvinnufærni skv. læknisvottorði og helming þeirra samanlagðra tekna (greiðslur úr sjúkrasjóðum og atvinnuleysisbætur) sem eru umfram óskertan rétt til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki.
  5. Fjármagnstekjur (t.d. húsaleigutekjur, vaxtagreiðslur, arður) – Atvinnuleysisbætur skerðast um helming þeirra samanlagðra tekna (fjármagnstekjur og atvinnuleysisbætur) sem eru umfram óskertan rétt til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki.
  6. Aðrar greiðslur sem umsækjandi fær samhliða atvinnuleysisbótum og eru til framfærslu umsækjanda -Atvinnuleysisbætur skerðast um helming þeirra samanlagðra tekna (greiðslur sem eru til framfærslu og atvinnuleysisbætur) sem eru umfram óskertan rétt til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki.

Verktakavinna

  • Atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar þá daga sem þú sinnir verktakavinnu.
  • Ef þú ætlar að taka að þér verkefni sem verktaki þarft þú að tilkynna um þá daga í gengum Mínar síður þá daga sem verkefni stendur yfir.
  • Tilkynningin þarf að eiga sér stað áður en verkefnið hefst.
  • Farir þú í verktakavinnu þarftu að tilkynna það þann dag sem þú sinnir verkefninu jafnvel þó vinnan við það vari minna en 8 klst.
  • Ekki er heimilt að safna upp tímum vegna verktakavinnu.

Sbr. umsækjandi sem kennir 2 x 2 klst. í viku = afskráning í 2 daga.

Eftirfarandi tekjur skerða ekki atvinnuleysisbætur:

  • Umönnunarbætur barna.
  • Styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða sbr. styrkir til líkamsræktar, námskeiða o.s.frv.
  • Styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar.
  • Séreignarsparnaður.
  • Uppgjör síðasta launagreiðanda nema ef um uppgjör á orlofi er að ræða og umsækjandi hefur ekki ráðstafað óteknu orlofi.
  • Aðrar greiðslur sem eru greiddar fyrir tímabil sem umsækjandi þáði ekki atvinnuleysisbætur.
  • Slysa- og sjúkrabætur sem greiddar eru fyrir slys/veikindi á tímabili sem umsækjandi þáði ekki atvinnuleysisbætur.
  • Félagslegir styrkir frá sveitarfélögum.
  • Mæðra- og feðralaun.
  • Barnalífeyrir.

Jafnframt segir í 36. gr. laga nr. 54/2006:

„Þegar um er að ræða aðrar áður ótaldar greiðslur sem ekki eru ætlaðar til framfærslu hins tryggða skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort þær skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.“

Atvinnuleysisbætur eru ekki greiddar samhliða eftirfarandi greiðslum:

  • Endurhæfingarlífeyrir.
  • Foreldragreiðslur vegna langveikra og alvarlega fatlaðra barna.
  • Slysadagpeningar skv. lögum um almannatryggingar (TR).
  • Sjúkradagpeningar skv. lögum um sjúkratryggingar (TR).
  • Sjúkradagpeningar úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga vegna óvinnufærni að fullu.
  • Fæðingarorlofsgreiðslur.
  • Greiðslur vegna orlofs eða starfsloka.
  • Námslán.

Lífeyrissjóður:
Umsækjandi greiðir að lágmarki 4% af atvinnuleysisbótum í lífeyrissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir 11,5% mótframlag.
Auk þess umsækjanda heimilt að greiða í séreignarsjóð en Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir ekki mótframlag vegna þess.

Stéttarfélög:
Sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur getur óskað eftir því að halda áfram að greiða til stéttarfélags síns og sér þá Vinnumálastofnun um að koma greiðslunni til hlutaðeigandi stéttarfélags. Einungis eru greidd félagsgjöld.

Tekjutenging:
Grunnatvinnuleysisbætur eru greiddar samtals í hálfan mánuð frá fyrstu skráningu áður en tekjutenging atvinnuleysisbóta tekur gildi.

Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 494.585 kr. á mánuði.

Útreikningur tekjutengingar miðast við:

Launamenn: Tekjutenging atvinnuleysisbóta nemur 70% af meðaltali heildarlauna og er miðað við sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus.

Sjálfstætt starfandi: Tekjutenging atvinnuleysisbóta nemur 70% af meðaltali heildarlauna og skal þá miða við tekjuárið á undan því ári sem umsækjandi varð atvinnulaus.