RSÍ býður félagsfólki sínu nýjan orlofskost á meginlandi Evrópu sumarið 2024 og út september. Um er að ræða rúmgott og sjamerandi hús í næsta nágrenni Móseldalsins í Þýskalandi. Húsið, Bohnsmühle, er gamall búgarður staðsettur í um hálfrar klukkustundar akstursfjarlægð frá Trier, elstu borgar Evrópu. Húsið er með mikla sögu og einstakan stíl, staðsett í friðsælu umhverfi við litla á í Naurathskógi skammt frá hinum margfræga Móseldal, sem er vagga víngerðar í Þýskalandi. Gistipláss er fyrir 10 manns í húsinu!

  • Hægt er að leigja eina viku í senn en verð á sólarhring er 15 þúsund krónur.
  • Þrifagjald kr. 15.000 bætist við leiguna.
  • Skiptidagar eru á fimmtudögum.
  • Opnað verður fyrir bókanir 21. febrúar kl. 09:00. Í gildi er reglan fyrst koma fyrst fá.

Bohnsmühle, Myllusetrið, er dæmigerð þýsk húsbygging þar sem íbúðarhús, smiðja, fjós og hlaða er sambyggt og mynda port þar sem aðkoman að húsinu liggur. Myllusetrið er gamall þýskur bóndabær frá upphafi tuttugustu aldar með þykkum veggjum og smárúðóttum gluggum en áður fyrr rann nærliggjandi áin í gegnum húsið og var nýtt til orkuframleiðslu fyrir bústörfin. Íbúðarhúsið er á tveimur hæðum og er gengið inn í flísalagt andyri sem tengir eldhús, borðstofu, stofu og útipall annarsvegar og inn á svefnherbergisgang og efri hæð hinsvegar. Svefnherbergisgangur er með tveimur herbergjum og í öðru þeirra er svefnsófi og aukabeddi og hinu hjónarúm. Á ganginum er einnig salerni með sturtu og við enda gangsins stórt þvottahús með auka eldavél og ísskáp. Þaðan er gengið í stofurými, kapelluna, og er þar inn af að finna eitt rúmgott svefnherbergi með hjónarúmi.

Á efri hæðinni eru þrjú rúmgóð svefnherbergi öll með fataskápum og sjónvarpi. Á gangi uppi er stórt baðherbergi með baðkari og sturtu.

Herbergin eru þannig 5 með hjónarúmum en sjötta herbergið er með svefnsófa. Sængurfatnaður er fyrir 10 manns. Eldhús er rúmgott og leiðir inn í borðstofu með langborði sem tengist við stofuna sem leiðir út á pall við ána þar sem eru útihúsgögn og grill.

Staðsetning Myllusetursins er einstök, friðsældin og árniðurinn seiðandi og hægt að bregða sér í göngutúr inn í skóginn þar sem finna má merkta stíga. Tvö reiðhjól fylgja húsinu frjáls til afnota fyrir gesti. Ekki þarf að keyra nema um 15 mínútur til að komast í næsta þéttbýli þar sem finna má veitingahús, verslanir og vínbændur. Sagan allt til tíma Rómverja er allt um lykjandi við Móseldalinn og næstu sveitir og má sjá ummerki um þá í elstu borg Evrópu, Trier, sem er í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá myllunni.  Vilji fólk halda enn lengra þá liggja vegir til allra átta og margra landa, 45 mínútna akstur til Lúxemborgar, Belgíu og Frakklands. Afþreying við Móseldalinn er í boði fyrir alla aldurshópa með fjölbreytt áhugasvið. Göngu- og hjólastígar liggja mjög víða, sundlauga- og fjölskyldurgarðar víða að finna, heimsókn til vínbænda við Mósel er ómissandi, „strandlíf“ við Móselá líflegt með veitingahúsum á árbakkanum og margskonar siglingasporti, fjölmörg söfn og sýningar er að finna og golfvöllurinn Bekond skammt frá. Fyrir þau sem lengra vilja fara þá eru ýmsir alþjóðegir skemmti- og afþreyingargarðar í nokkurra klst. Fjarlægð (Europapark, Disneyland, Legoland). Áhugafólk um flugvéla-, tækni- lista- eða söguleg söfn og sýningar hafa um nóg að velja.

Frá Íslandi er flogið til Frankfurt daglega af Icelandair og Play. Þaðan er rúmlega 1 klst akstur í Myllusetrið.

Húsið er leigt út í viku í senn og kemur fljótlega inn í orlofskerfi RSÍ.