Nýr áfangastaður bætist við í orlofshúsakerfi RSÍ 1. september 2022 en þá verður opnað fyrir bókanir í nýja eign Orlofssjóðs RSÍ á Vitastíg 10 í Bolungarvík á Vestfjörðum. Vestfirðir eru í mikilli sókn um þessar mundir sem áfangastaður og uppbygging mikil í ferðaþjónustu og afþreyingarmöguleikum, jafnt sumar sem vetur. Húsið er stórt og rúmgott á tveimur hæðum með öllum helstu þægindum. Fjögur svefnherbergi eru í húsinu, tvíbreið rúm eru í tveimur herbergjum og kojur í hinum, samtals svefnpláss fyrir 9 manns. Tvö rúm fyrir smábörn eru í húsinu, Þvottahús með bæði þvottavél og þurrkara og tvö baðherbergi.
Bolungarvík stendur við samnefnda vík og er nyrsti þéttbýlisstaður á Vestfjörðum. Bolungarvík er sannkölluð paradís ferðalangsins. Bærinn státar af tveimur frábærum söfnum, annar vegar er það hin endurgerða verbúð Ósvör og hins vegar náttúrugripasafn sem Náttúrustofa Vestfjarða hefur umsjón með. Í bænum er líka glænýr grasagarður þar sem hægt er að skoða fjölda vestfirskra jurta.
Á björtum degi jafnast ekkert á við að aka upp á Bolafjall og njóta þar stórkostlegs útsýnis á glænýjum útsýnispalli, yfir í Jökulfirði og Djúp. Sumir fullyrða raunar að þeir geti séð grilla í Grænland við bestu skilyrði. Fari fólk upp á Bolafjall er tilvalið að halda áfram yfir í Skálavík þar sem ríkir einstök kyrrð og náttúrfegurð. Hraustmenni eiga það til að baða sig í sjónum þar í víkinni, en einnig er vinsælt að hoppa í ískaldan hylinn í Langá, steinsnar frá fjörunni. Skálavík er líka tilvalinn staður fyrir lengri og styttri gönguferðir og óvíða er betra að njóta miðnætursólarinnar á sumrin.
Önnur perla við bæjardyr Bolvikinga er Syðridalur. Þar er góður golfvöllur en einnig stöðuvatn og á þar sem hægt er að fá ódýr veiðileyfi. Innar í dalnum eru flottar gönguleiðir m.a. yfir í Hnífsdal og til Ísafjarðar en einnig er gönguleið upp að gamalli surtarbrandsnámu þar sem brúnkol voru unnin á árunum 1917-18.
Gamli Óshlíðarvegurinn, sem um árabil var einn alræmdasti vegur landsins, er nú aflagður sem akvegur eftir að hin nýju göng á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals voru opnuð. Á góðviðrisdögum er hlíðin nú afar vinsæl til gönguferða og hjólreiða enda er umhverfið stórbrotið.
Að allri þessari útivist lokinni er svo upplagt að láta líða úr sér í sundlauginni í Bolungarvík. Þetta er hugguleg innilaug en við hana er útisvæði með heitum pottum og vatnsrennibraut.
Sjóstangveiði hefur verið vaxandi liður í þjónustu við ferðafólk í Bolungarvík en einnig er boðið upp á bátaleigu með eða án skipstjóra. Þá er haldið uppi reglulegum siglingum frá Bolungarvík inn í Hornstrandafriðlandið á sumrin. (westfjords.is)