Síðasti almenni kjarasamningur mætti mikilli andstöðu og mjög mikilli óánægju innan aðildarfélaga RSÍ. Ljóst var strax við kynningu á samningnum að upptaka yfirvinnu 1 og 2 olli mjög mikilli óánægju. Yfirvinnu þarf svo sannarlega að breyta í næstu kjarasamningum og þar eru öll iðnaðarmannafélögin fullkomlega sammála. Í huga félaganna þá var markmið félaganna skýrt að auka verðmæti yfirvinnu ásamt því að fækka dagvinnustundum.  Þessi breyting var eitt skref í þá átt og megináhersla verður að festa eina yfirvinnuprósentu sem verður hærri en gamla prósentan skilaði. Það mun reyna verulega á samstöðu félaganna til þess að ná þessu markmiði enda mun hærri yfirvinnuprósenta þurfa að ná yfir allan vinnumarkað iðnaðarmanna.

Lágmarkslaun iðnaðarmanna hækkuðu um 31,4% á samningstímanum og þar var markmiðið að færa lágmarkslaun nær greiddum launum til þess að tryggja markaðslaun þegar samdráttur yrði í samfélaginu. Enginn sá fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar en ljóst er að markaðslaun hafa ekki gefið eftir heldur hækkað á undanförnum árum þó það hafi ekki verið jafn mikið og lágmarkslaunin. Mikilvægt verður að tryggja starfsaldurshækkanir í kjarasamningum iðnaðarmanna.

Vinnutímastytting hefur komið til framkvæmda á fjölmörgum vinnustöðum í rafiðnaði, hjá rafverktökum, í stóriðjunni, raforkugeiranum, í ákvæðisvinnunni og hinum ýmsu þjónustustörfum. Næstu mánuðir verða nýttir til þess að auðvelda þeim vinnustöðum sem ekki hafa náð að finna hentuga útfærslu að finna leið sem hentar. Frá 1. janúar síðastliðnum geta allir vinnustaðir náð inn raunverulegri styttingu á vinnutíma ÁN þess að breyta fyrirkomulagi kafftíma.

Vinnutímastytting án lækkunar launa skilar auknum verðmætum. Raunveruleg stytting dagvinnutíma iðnaðarmanna sem hafa gengið hvað lengst í samræmi við kjarasamninginn hefur skilað ígildi 3% hækkunar launa.

Meginþáttur í ávinningi iðnaðarmanna af síðustu kjarasamningum var markmið um lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Stýrivextir lækkuðu og ávinningur hefur skilað sér allt samningstímabilið. Þrátt fyrir síðustu hækkanir Seðlabankans þá eru vaxtakjör enn lægri en þegar skrifað var undir kjarasamninga og við upplifum enn þann mikla ávinning sem þetta hefur skilað.

Samstaða iðnaðarmanna mun skipta sköpum til þess að ná fram veigamiklum breytingum á fyrrnefndum þáttum og þar verður rafiðnaðarfólk einn mikilvægasti þáttur þeirrar baráttu.

Samstarfið í Húsi Fagfélaganna mun veita mikilvæga þjónustu fyrir samningaferlið, með góðri gagnaöflun, sérfræðiþekkingu á sviði hagfræði, lögfræði og með enn öflugri upplýsingagjöf til félagsfólks.

Var efnið hjálplegt?