Í gær, fimmtudaginn 1. júní, slitnaði upp úr samningaviðræðum Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) viðræðum við Landsnet um gerð nýs kjarasamnings. Sambandið hefur þegar hafið undirbúning verkfalla.

Félagsfólk RSÍ, sem starfar hjá Landsneti, heldur uppi raforkukerfi landsins og hefur sýnt mikla fórnfýsi við störf síðustu ár og áratugi. Í allskonar veðrum og á öllum tímum sólarhringsins hefur þessi hópur það hlutverk að gæta að mikilvægum innviðum samfélagsins. Hann gengur úr skugga um að rafmagn berist öllum stundum til heimila, fyrirtækja og stórnotenda.

Samkvæmt þeim gögnum sem RSÍ býr yfir eru grunnlaun hópsins mun lægri hjá Landsneti en í öðrum orkufyrirtækjum. Launum er haldið uppi með miklum yfirvinnutörnum árið um kring, með tilheyrandi raski á venjulegu lífi starfsmannana. Þessar tarnir krefjast oft langrar fjarveru starfsmanna frá fjölskyldum sínum.

Útköllin spyrja hvorki um stað né stund. Um getur verið að ræða óveður á Dalvík, bilun í streng til Vestmannaeyja, í Fljótsdal eða á Fitjum. Þessi mikilvægi hópur vinnur stundum sleitulaust sólarhringum saman, við aðstæður sem fæstir þurfa að glíma við, með það að markmiði að halda raforkukerfi landsins gangandi.

Félagsfólk RSÍ setur nú niður fótinn og lætur ekki lengur að láta bjóða sér lægri grunnlaun en samanburðarhópar í orkugeiranum. Atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir mun því hefjast í næstu viku.

Virðingarfyllst, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ.