Hver eru skilyrði fyrir greiðslum vegna launataps launafólks í sóttkví?
Heimilt er að greiða launafólki launatap ef það hefur ekki fengið greidd laun vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda.
Skilyrði fyrir greiðslum skv. lögunum eru að:
- launamaður eða barn í hans forsjá hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda,
- launamaður hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví
- önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað.
Vinnumálastofnun hefur heimild til að óska eftir staðfestingu frá atvinnurekanda um að laun hafi ekki verið greidd og upplýsingum um ástæður þess.
Hver eru skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga í sóttkví?
Skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga eru að:
- Hinn sjálfstætt starfandi einstaklingur eða barn í hans forsjá hafi sætt sóttkví.
- Hann hafi ekki getað sinnt vinnu sinni að öllu leyti eða að hluta þaðan sem hann sætti sóttkví eða önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að hinn sjálfstætt starfandi hafi getað unnið störf sín.Önnur skilyrði fyrir greiðslum eru:
- Að hinn sjálfstætt starfandi hafi verið með opinn rekstur.
- Hann hafi staðið skil á greiðslum tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi skv. ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag eða með öðrum reglulegum hætti skv. fyrirmælum ríkisskattstjóra.
Hver eru skilyrði fyrir greiðslum til fyrirtækja vegna sóttkví starfsmanna?
Skilyrði fyrir greiðslum eru að:
- Starfsmaður eða barn í hans forsjá hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
- Atvinnurekandi hafi sannanlega greitt launamanni laun á meðan hann eða barn í hans forsjá sætti sóttkví.
- Starfsmaður hafi ekki getað sinnt vinnu að hluta eða öllu leyti þaðan sem hann sætti sóttkví eða að önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að launamaður hafi getað mætt til vinnu á vinnustað.
Einnig má finna efni á um sóttkví á vef Vinnumálastofnunar