Ekki sama skítavinnan og fólk heldur
Vesturbæingurinn Emilía Björt Gísladóttir er tveggja barna móðir um þrítugt. Hún starfaði sem flugfreyja og var í flugnámi þegar hún ákvað að taka u-beygju og hefja nám í pípulögnum, án þess að hafa nokkra þekkingu á faginu.
„Þegar börnin voru orðin tvö fann ég sterka löngun til að vera meira heima og til staðar. Ég vildi geta farið með börnin að morgni í leikskóla og skóla, og borðað kvöldmat með fjölskyldunni, en vinnutíminn í fluginu býður ekki upp á slíkt,“
segir Emilía Björt sem sýtir það ekki að hafa snúið baki við flugmannsdraumnum.
„Nei, því ég eignaðist óvænt nýjan draum í pípulögnunum. Ég á samt örugglega eftir að klára einkaflugmanninn og fljúga mér til gamans seinna meir.“
Emilía hafði líka reynt fyrir sér í viðskiptafræði í háskólanum en fann sig ekki í náminu.
„Ég hef hins vegar alltaf haft gaman af öllu verklegu, og fyrir hvatningu og með hjálp góðrar vinkonu sem er rafvirki fór ég að skoða hvaða verknám mér hugnaðist að læra. Þar hafði líka áhrif að við hjónin keyptum okkur íbúð sem við gerðum upp sjálf og því var mér hugleikið hvað fólk getur gert sjálft þegar kemur að iðnaðarverkum heima. Mér fannst líka ótvíræður kostur að mennta mig í starfi sem væri traustur starfsvettvangur til framtíðar, því fólk mun án efa alltaf þurfa hjálp við þetta tvennt; rafmagn og vatn, og úr varð að ég ákvað að fara í píparann.“
Sérblaði um Stelpur og verknám var dreift með Fréttablaðinu 11. september 2021.