Spurt og svarað um samstarf 2F – Hús fagfélaganna2022-02-25T14:59:13+00:00

Í febrúar 2022 opnaði ný sameiginleg móttaka í Húsi fagfélaganna á Stórhöfða 29-31. Í húsunum starfa nú Rafiðnaðarsamband Íslands, MATVÍS, Grafía, Samiðn, FIT, VM og Byggiðn. Samstarf um sameiginlegan rekstur skrifstofuhúsnæðis og sameiginlegrar mótttöku má rekja til ársins 2000 þegar RSÍ og MATVÍS fluttu í nýbyggðan Stórhöfðann. Félag bókargerðarmanna (Grafía) flutti inn árið 2012 og í kjölfarið var fyrsti sameiginlegi starfskrafturinn ráðinn fyrir félögin í húsinu í móttöku. Samiðn, FIT og Byggiðn fluttu á Stórhöfðann 2018 og VM 2021. Flugfreyjufélag Íslands og Leiðsögn stéttarfélag leiðsögumanna eru staðsett á Stórhöfða 29 en standa utan 2F – Hús fagfélaganna.

Ýmsar spurningar hafa komið fram um samstarf iðnaðarmannafélaganna í Húsi Fagfélaganna á Stórhöfða. Hér er leitast við að svara helstu spurningum um samstarfið.

Vígsla sameiginlegrar mótttöku á Stórhöfða 29-31
Til hvers er samstarfið?2022-02-25T09:33:26+00:00

Samstarfið er til þess að auka og bæta þjónustu sem félagsfólk fagfélaganna fær. Samstarfið er til þess að auka styrk allra félaganna sem að því standa. Samstarfið er til þess nýta þá miklu þekkingu og reynslu sem býr í mannauð skrifstofa allra félaganna.

Samstarfið stuðlar að því að samfélagið hafi sterka sameiginlega rödd í þeim málum sem snertir heildina og auka áhrif iðnaðarmanna með meiri virkni sem hagsmunaverðir fyrir iðngreinar á Íslandi, til dæmi þegar kemur að iðnaðarlöggjöf og eflingu iðn- og tæknigreinanna. Afar brýnt er að rödd fagfélaganna sé sterk í þeirri hagsmunabaráttu sem við erum í á hverjum tíma. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt fyrir hagsmuni iðn- og tæknigreinar að talsfólki okkar „sé boðið í samtalið!“ Samstaða og samræmd sýn á málin skipta þar öllu máli.

Samstarfið er til þess að fjölga möguleikum félagsfólks til þess að sækja námskeið þvert á RAFMENNT og IÐUNA.

Samstarfið er til þess að draga úr rekstrarkostnaði við ýmsa þætti í rekstri félaganna og auka samlegð með aukinni stærð.

Samstarfið snýr að innra starfi svo sem ýmissi bakvinnslu t.d. við bókhald og almennan rekstur skrifstofunnar/húsnæðis. Nú þegar hefur samstarfið skilað lækkun á innheimtukostnaði allra félaganna svo dæmi séu nefnd.

Samstarfið snýr að beinni þjónustu við félagsfólk vegna þeirra fjölmörgu þátta sem félögin sinna dags daglega. Má þar nefna:

  • umsóknir í hina ýmsu sjóði, móttaka umsókna um styrki, umsjón með bókunum á orlofshúsum og svo framvegis
  • þjónustu og ráðgjöf vegna kjaramála
  • lögfræðiþjónusta vegna kjaramála er sameiginleg
  • gerður hefur verið samningur við Magna lögmenn á Höfðabakka þar sem allt félagsfólk innan félaganna getur fengið persónulega ráðgjöf í hinum ýmsu málefnum o.s.frv.

Allir sjóðir RSÍ, eins og sjúkrasjóður, orlofssjóður, verkfallssjóður og eftirmenntunarsjóður, eru í eigu RSÍ og verða áfram sjálfstæðir sjóðir og notaðir fyrir félagsfólk í þeim aðildarfélögum sem eiga aðild að RSÍ. Engin breyting verður þar á með samstarfi um rekstur skrifstofunnar.

Var efnið hjálplegt?

Síðustu kjarasamningar mættu ekki kröfum allra félaganna, eru líkur á breytingu þar?2022-02-25T09:38:34+00:00

Síðasti almenni kjarasamningur mætti mikilli andstöðu og mjög mikilli óánægju innan aðildarfélaga RSÍ. Ljóst var strax við kynningu á samningnum að upptaka yfirvinnu 1 og 2 olli mjög mikilli óánægju. Yfirvinnu þarf svo sannarlega að breyta í næstu kjarasamningum og þar eru öll iðnaðarmannafélögin fullkomlega sammála. Í huga félaganna þá var markmið félaganna skýrt að auka verðmæti yfirvinnu ásamt því að fækka dagvinnustundum.  Þessi breyting var eitt skref í þá átt og megináhersla verður að festa eina yfirvinnuprósentu sem verður hærri en gamla prósentan skilaði. Það mun reyna verulega á samstöðu félaganna til þess að ná þessu markmiði enda mun hærri yfirvinnuprósenta þurfa að ná yfir allan vinnumarkað iðnaðarmanna.

Lágmarkslaun iðnaðarmanna hækkuðu um 31,4% á samningstímanum og þar var markmiðið að færa lágmarkslaun nær greiddum launum til þess að tryggja markaðslaun þegar samdráttur yrði í samfélaginu. Enginn sá fyrir heimsfaraldur kórónuveirunnar en ljóst er að markaðslaun hafa ekki gefið eftir heldur hækkað á undanförnum árum þó það hafi ekki verið jafn mikið og lágmarkslaunin. Mikilvægt verður að tryggja starfsaldurshækkanir í kjarasamningum iðnaðarmanna.

Vinnutímastytting hefur komið til framkvæmda á fjölmörgum vinnustöðum í rafiðnaði, hjá rafverktökum, í stóriðjunni, raforkugeiranum, í ákvæðisvinnunni og hinum ýmsu þjónustustörfum. Næstu mánuðir verða nýttir til þess að auðvelda þeim vinnustöðum sem ekki hafa náð að finna hentuga útfærslu að finna leið sem hentar. Frá 1. janúar síðastliðnum geta allir vinnustaðir náð inn raunverulegri styttingu á vinnutíma ÁN þess að breyta fyrirkomulagi kafftíma.

Vinnutímastytting án lækkunar launa skilar auknum verðmætum. Raunveruleg stytting dagvinnutíma iðnaðarmanna sem hafa gengið hvað lengst í samræmi við kjarasamninginn hefur skilað ígildi 3% hækkunar launa.

Meginþáttur í ávinningi iðnaðarmanna af síðustu kjarasamningum var markmið um lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Stýrivextir lækkuðu og ávinningur hefur skilað sér allt samningstímabilið. Þrátt fyrir síðustu hækkanir Seðlabankans þá eru vaxtakjör enn lægri en þegar skrifað var undir kjarasamninga og við upplifum enn þann mikla ávinning sem þetta hefur skilað.

Samstaða iðnaðarmanna mun skipta sköpum til þess að ná fram veigamiklum breytingum á fyrrnefndum þáttum og þar verður rafiðnaðarfólk einn mikilvægasti þáttur þeirrar baráttu.

Samstarfið í Húsi Fagfélaganna mun veita mikilvæga þjónustu fyrir samningaferlið, með góðri gagnaöflun, sérfræðiþekkingu á sviði hagfræði, lögfræði og með enn öflugri upplýsingagjöf til félagsfólks.

Var efnið hjálplegt?

Hverjir eiga aðild að samstarfinu?2022-02-25T09:33:00+00:00

Þau stéttarfélög iðnaðarmanna sem standa að samstarfinu eru:

Rafiðnaðarsamband Íslands og aðildarfélög þess, www.rafis.is

MATVÍS – félag iðnaðarmanna í matvælagreinum, www.matvis.is

Samiðn, samband iðnfélaga, www.samidn.is

Byggiðn – félag byggingamanna, www.byggidn.is

Félag iðn- og tæknigreina, www.fit.is

VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna, www.vm.is

Var efnið hjálplegt?

Hver er raunveruleg breyting?2022-02-25T09:37:41+00:00

Raunveruleg breyting er sú að skrifstofa 2F – Hús Fagfélaganna sinnir móttöku og þjónustu við félagsfólk sem leitar til skrifstofunnar, ásamt starfsfólki viðkomandi félaga. Allt starfsfólk leggst á eitt við að þjónusta félagsfólk. Öll félögin sem að samstarfinu standa eru hluti af 2F og því er raunveruleg breyting fyrst og fremst sú að fleira starfsfólk sinnir málaflokkunum fyrir hvert og eitt félag þó heildarfjöldi starfsfólks aukist ekki. Markmkiðið er að þetta muni leiða til enn betri þjónustu á þeim tíma sem félagsfólk þarf aðstoðina. Sjálfstæði allra félaganna er óbreytt þrátt fyrir samstarfið. Þetta er samstarf en ekki sameining.

Var efnið hjálplegt?

Hvenær hófst samstarfið?2022-02-25T09:35:50+00:00

Samstarfið hófst formlega 2019. Þá með samstarfi RSÍ, MATVÍS, Grafíu, Samiðn, Byggiðn og FIT.

Þar áður var samstarf RSÍ, MATVÍS og Grafíu á Stórhöfða 31. Samiðn, Byggiðn og FIT stóðu að samstarfi í Borgartúni um langt skeið. Síðarnefndu félögin keyptu hlut húsnæðis af lífeyrissjóði okkar, Birtu lífeyrissjóði í kjölfar sameiningar á Stöfum lífeyrissjóði og Sameinaða lífeyrissjóðnum. Viðræður um aukið samstarf og rekstur á sameiginlegu skrifstofuhúsnæði hófust 2017 og hefur samstarfið verið í þróun síðan þá.

Sameiginlegt skrifstofuhúsnæði var formlega opnað 22. nóvember 2019 en þá voru RSÍ, MATVÍS, Grafía, Samiðn, Byggiðn og FIT aðilar að samstarfi og sameiginlegum rekstri.

Þann 11. febrúar 2022 var ný sameiginleg afgreiðsla opnuð fyrir Stórhöfða 29 og 31. Við þau tímamót bættist VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna við samstarfið með formlegum hætti.

Fastlega má gera ráð fyrir því að samstarfið eigi eftir að þróast áfram inn í framtíðina, ekkert er meitlað í stein hvað það varðar.

Var efnið hjálplegt?

Hvar og hvenær var samningurinn samþykktur?2022-02-25T09:37:13+00:00

Hvað varðar samþykki hjá RSÍ þá var samningurinn samþykktur í miðstjórn RSÍ sem er æðsta vald sambandsins á milli árlegra sambandsstjórnarfunda og þinga sem eru fjórða hvert ár. Samstarfið og þróun þess var kynnt á sambandsstjórnarfundi RSÍ sem haldinn var á Akureyri dagana 27. og 28. ágúst 2021.

Var efnið hjálplegt?

Hvað þýðir þetta í raun og veru?2022-02-25T09:33:54+00:00

Í einföldu máli þá snýst þetta um að veita félagsfólki bestu mögulegu þjónustu í þeim málaflokkum sem snýr að okkar fólki. Þetta þýðir að unnið er að því að auka samlegðaráhrif í daglegum rekstri þar sem lögmálið um rekstrarhagkvæmni með aukinni stærð gildir. Samlegðaráhrif munu sjást þegar fram í sækir.

Þetta þýðir að félögin nýta styrk hvers annars í starfinu. Það er EKKI verið að sameina nein félög með þessu samstarfi. Það er EKKI verið að sameina sjóði, þeir eru áfram sjálfstæðir og EKKI er verið að veita aðgengi í sjóðina á milli félaganna. Er þetta sameining? Nei þetta er ekki sameining á félögum eða sjóðum. Þetta er samstarf á mörgum sviðum þar sem bætt þjónusta við félagsfólk er lykilatriði.

Var efnið hjálplegt?

Hvað með sjálfstæðið?2022-02-25T09:34:53+00:00

Sjálfstæði félaganna er óbreytt, það er ekki verið að sameina félög/sambönd né sjóði. Öll félög hafa sínar stjórnir, trúnaðarráð eða fulltrúaráð eins og áður. Landssamböndin hafa sínar framkvæmdastjórnir, miðstjórnir og sambandsstjórnir, engar breytingar eru þar á.

Þetta er samstarf sem félögin taka þátt í og geta sagt sig frá samstarfinu sé vilji til þess. Félögin geta endurskoðað samstarfið, bætt við þáttum í samstarfi eða fækkað þeim.

Sem sagt: Sjálfstæðið er óbreytt enda snýr samstarfið fyrst og fremst að því að auka þjónustu við félagsfólk.

Var efnið hjálplegt?

Hvað með samningsumboð?2022-02-25T09:35:23+00:00

Samningsumboð breytist ekki með samstarfinu innan 2F – Húss Fagfélaganna.

Var efnið hjálplegt?

Hvað fær félagsfólk út úr þessu?2022-02-25T09:34:25+00:00

Markmiðið er að félagsfólk sjái það í verki að þjónusta sem við veitum verði framúrskarandi. Aukin hagkvæmni í rekstri er markmið allra félaganna. Félagsfólk hefur eflaust séð ýmsar breytingar á styrkjum sem veittir eru, en unnið er að því að samræma sem flesta þætti sem standa til boða.

Nú þegar getur félagsfólk sótt námskeið hjá menntastofnunum okkar, RAFMENNT og IÐUNNI. Námskeið eru á sömu kjörum fyrir alla og því augljóst hagræði og aukinn fjölbreytileiki í boði fyrir félagsfólk.

Var efnið hjálplegt?

Hvað er 2F – Hús fagfélaganna?2022-02-25T09:32:25+00:00

2F – Hús Fagfélaganna er samstarfsvettvangur iðnaðarmannafélaganna. Að samstarfinu standa RSÍ og aðildarfélög, MATVÍS, Samiðn, Byggiðn, FIT og VM.

Samstarfið snýst um að auka og bæta þjónustu sem félagsfólk okkar fær sem leitar til félaganna. Með meiri breidd, öflugu starfsfólki og mikilli þekkingu á öllum sviðum erum við að hámarka gæði þjónustunnar sem veitt er og auka fagmennsku á öllum sviðum.

Eins og orðið „samstarf“ felur í sér þá eru félögin að vinna saman á flestum sviðum til þess að styrkja stöðu iðnaðarmanna á Íslandi.

• Það er ekki verið að sameina félögin sem að samstarfinu standa.

• Það er ekki verið að sameina sjóði þeirra félaga sem að samstarfinu standa.

• Það er verið að auka og bæta þjónustu við félagsfólk okkar

Var efnið hjálplegt?

Af hverju var samstarfssamningur uppfærður í lok nóvember 2021?2022-02-25T09:36:33+00:00

Samningur um rekstur skrifstofu 2F – Húss Fagfélaganna var upphaflega gerður árið 2019. Í lok nóvember var uppfærður samningur undirritaður þar sem breyting var gerð á afgreiðslu í húsinu og aðkomu var breytt. Nýr samningsaðili bættist við í samstarfið, VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna. Framkvæmdastjóri var ráðinn inn í 2F – Hús Fagfélaganna en framkvæmdastjóri er Elmar Hallgríms. Þess ber að geta að samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki stjórna hlutaðeigandi.

Miðstjórn RSÍ ræddi og samþykkti samninginn á fundi sínum 3. desember 2021.

Var efnið hjálplegt?

Go to Top