Reglugerð fyrir vinnudeilusjóð rafiðnaðarmanna

1. gr.

Sjóðurinn heitir: Vinnudeilusjóður rafiðnaðarmanna. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja sjóðfélaga í vinnudeilum við atvinnurekendur, hvort sem um verkföll eða verkbönn er að ræða.

3. gr.

Sjóðnum skal afla tekna með iðgjöldum sjóðfélaga, eftir nánari ákvörðun þings RSÍ, svo og á annan hátt eftir því sem hagkvæmt þykir á hverjum tíma.

4. gr.

Miðstjórn RSÍ hefur á hendi stjórn sjóðsins, úthlutar styrkjum úr honum, og ber sameiginlega ábyrgð á eignum hans gagnvart sambandinu.

Í vinnudeilu skal miðstjórn skipa sjóðnum framkvæmdastjórn, sem starfa skal samkvæmt 8. grein.

5. gr.

Höfuðstóll sjóðsins er myndaður með framlagi aðildarfélaga RSÍ þann 1. janúar 1988, sem vera skal kr. 3.000,- fyrir hvern fullgildan félagsmann.

6. gr.

Rétt til styrks úr sjóðnum hafa þeir félagsmenn RSÍ.

sem verið hafa skráðir félagsmenn í a.m.k. 6 mánuði og greitt hafa tilskilið iðgjald til sjóðsins jafn lengi.
Heimilt er þó sjóðsstjórn að veita styrk til félagsmanns sem verið hefur skemur í aðildarfélagi, ef sérstaklega stendur á að dómi sjóðsstjórnar.

sem eru atvinnulausir af völdum verkfalls eða verkbanns.

7. gr.

Styrkir greiðast ekki þeim sjóðfélögum:

sem ekki hafa greitt félagsgjald í þrjá mánuði eða lengur, nema um veikindi eða atvinnuleysi sé að ræða, og öðlast þeir ekki rétt sinn á ný, fyrr en þeir hafa greitt skuld sína að fullu og greitt iðgjald í þrjá mánuði.

sem ekki greiða iðgjald til sjóðsins.

sem halda óskertu kaupi eða hefja störf annarstaðar í verkfalli eða verkbanni.

sem sannanlega fremja verkfallsbrot.

8. gr.

Miðstjórn setur sjóðnum úthlutunar og starfsreglur, þar sem geta skal meginatriða í starfi framkvæmdastjórnar sjóðsins.

Framkvæmdastórn sjóðsins skal meta hverju sinni, hversu háa styrki skuli veita, hvenær styrkgreiðsla skuli hefjast, greiðslutímabil og önnur skilyrði. Ákvörðun um upphæð styrks er heimilt að breyta síðar, ef ástæður og nauðsyn bera til.

9. gr.

Sjóðinn skal ávaxta á öruggan hátt. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið, og skulu reikningar hans endurskoðaðir af endurskoðendum RSÍ, birtir með öðrum reikningum sambandsins og lagðir fyrir þing RSÍ til staðfestingar.

10. gr.

Stjórn sjóðsins skal halda gerðabók yfir styrkbeiðnir og styrkveitingar. Styrkbeiðnir skulu ritaðar á þar til gerð eyðublöð sem skriftstofa RSÍ lætur í té.

11. gr.

Reglugerð þessari verður aðeins breytt á reglulegum þingum eða sambandsstjórnarfundum RSÍ og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða. Skal breytingartillagna getið í fundarboði.

12. gr.

Verði sjóðurinn af einhverjum ástæðum að hætta störfum, renna eignir hans til Menningarsjóðs rafiðnaðarmanna.

 

Þannig samþykkt af 18. þingi Rafiðnaðarsambands Íslands 7.-9. maí 2015.