Reglugerð um störf og skipan samninganefnda

1. grein

Við upphaf kjarasamninga skal miðstjórn leita heimilda fyrir því hjá viðkomandi aðildarfélögum RSÍ, að sambandið sjái um að kosið sé í samninganefndir og að þær starfi samkvæmt þessum reglum.

2. grein

Heimildir aðildarfélags um samninganefndir og gerð viðræðuáætlana skulu gilda
til lokadags gildistíma kjarasamnings. Hafi samningar þá ekki tekist, skulu stjórnir og trúnaðarráð aðildarfélaga meta hvort heimildir verði endurnýjaðar.

3. grein

Samninganefndir skal ætíð kjósa áður en viðræðuáætlanir eru gerðar.

4. grein

Formaður samninganefndar skal skipaður af RSÍ.
Hann hefur orð fyrir nefndinni og kallar hana saman.

5. grein

Að öllu jöfnu skal boða bæði aðal- og varamenn á samningafundi.

6. grein

Samninganefnd kjósi sér ritara sem sér um að taka saman fundargerðir af öllum fundum nefndarinnar.
Hann skal ásamt formanni bera ábyrgð á að halda saman öllum gögnum sem nefndinni berast.

7. grein

Samninganefndir skulu reglulega gera stjórnum og trúnaðarráðum viðkomandi
aðildarfélaga RSÍ grein fyrir störfum sínum.

8. grein.

Samninganefndir bera ábyrgð á að kröfugerðir séu teknar saman og frágengnar
a.m.k. 2 mánuðum áður en viðkomandi kjarasamningur rennur út.
Við þá vinnu skal hafa samráð við þá félagsmenn sem starfa eftir viðkomandi kjarasamning.

9. grein

Samninganefnd skal reglulega halda fundi með þeim félagsmönnum sem hún starfar fyrir og kynna gang mála við endurnýjun kjarasamnings.

10. grein

Samninganefndum er því aðeins heimilt að undirrita kjarasamninga að samþykki stjórna og trúnaðarráða viðkomandi aðildarfélaga RSÍ liggi fyrir og að haft verði samráð við miðstjórn RSÍ.

11. grein

Aðgerðir til að þrýsta á að kjarasamningar náist skulu ætíð háðar samþykki stjórna og trúnaðarráða viðkomandi aðildarfélaga RSÍ og ákveðnar í samráði við miðstjórn RSÍ.

Þannig staðfest í stjórnum og trúnaðarráðum aðildarfélaga RSÍ haustið 1996 og staðfest í miðstjórn RSÍ 11. okt. 1996.