Stutt brot úr sögu Rafiðnaðarfélags Norðurlands

Félagið var stofnað 16. júní 1937 og hét Rafvirkjafélag Akureyrar skammstafað RFA og mættu 8 rafvirkjar á stofnfundinn. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu Form. Lúter Jóhannsson, ritari Gústaf Jónasson, gjaldkeri Sigurður Helgason, endurskoðendur Viktor Kristjánsson og Kristján Arnljótsson. Það voru sem sé rafvirkjar á Akureyri sem stofnuðu félagið. Tilgangur félagsins var að bæta kaup og kjör starfandi rafvirkja í bænum. Fyrsti samningur sem félagið gerir er undirritaður í nóvember 1937 og kemur fram að dagvinnulaun í landi skulu vera kr. 1.70.- á tímann og eftirvinna í landi kr. 2.50.- Dagvinna í skipum og bátum kr. 2.00.- á tímann og eftirvinna kr.3.00.- á tímann. Helgarvinna var sú sama og eftirvinna. Mánaðarlaun sveina (lágmark) kr 375.- ef um ársvinnu væri að ræða en ef um 6 mánaða vinnu væri að ræða þá kr. 400.-

Árið eftir þ.e. 1938 voru félagsmenn að berjast fyrir því, að réttindalausir menn væru ekki að starfa í faginu (á Akureyri ,þetta virðist vera eilífðarmál, ennþá dag í dag eru þessi mál í umræðunni) Þá voru menn einnig að berjast fyrir því að “utanaðkomandi” menn væru ekki að starfa í bænum. Og samkvæmt fundargerðum frá þessum tíma var það kallað “Aðkomumannamálið”

Á fundi 31. okt árið 1940 er fyrsta samningnum sagt upp og í kröfugerðinni sem sett var fram var m.a. farið fram á að menn fengju greiðslur í sumarleyfum sem ekki hafði tíðkast þá. Einnig að grunnkaup myndi hækka um 5 aura á tímann og farið fram á styttingu á vinnuviku og vinnulok yrðu á hádegi á laugardegi. Á þessum árum voru menn einnig farnir að ræða það að koma upp orlofsaðstöðu fyrir félagsmenn með kaupum á orlofshúsi.

Á þessum árum þótti sumum félagsmönnum ekki nóg gert fyrir félagsmennina og vildu þjappa mönnum saman og halda skemmtanir. Og í því skini var árið 1943 skipuð “gleðinefnd” og hennar hlutverk var að standa fyrir skemmtunum fyrir félagsmenn. Nefndina skipuðu Gústaf Jóhannsson, Hrólfur Sturlaugsson, Þorsteinn Sigurðsson og Haukur Helgason. Árið 1943 óskaði svo félagið eftir inngöngu í ASÍ, samkvæmt fundargerðabókum þá hafa menn tekist verulega á í þeirri umræðu og það virtist ekki hafa ríkt einhugur um inngöngu í ASÍ. Félagið boðaði sitt fyrsta verkfall laugardaginn 25. júní 1949 og virðist það hafa staðið í um hálfan sólahring. Þetta sama ár virðist vera kominn sameiningarhljóð í íslenska rafvirkja. Samkvæmt gögnum, voru umræður um að allir rafvirkjar á Íslandi sameinuðust í ein samtök, og að starfræktar væru deildir á hinum ýmsu stöðum.

Samtökin áttu að heita “Landsamtök íslenskra rafvirkjafélaga” Ekkert var úr þessari stofnun en á fundi í RFA 13. apríl 1954 var samþykkt að RFA yrði deild innan FÍR. Tillagan er svohljóðandi: Fundurinn samþykkir að félagið gangi sem deild inn í “Félag ísl. rafvirkja” og felur stjórn RFA að vinna að áframhaldandi samningsgerð milli félaganna. Þetta sama ár samþykkir félagið á fundi 27. júní að öllum meðlimum RFA sé með öllu óheimilt að taka að sér raflagnir eða önnur rafvirkjastörf fyrir eigin reikning. Öll vinna skuli fara í gegnum rafvirkjameistara.

Allt frá stofnun félagsins og til þess dags sem RSÍ er stofnað sá félagið um öll sín mál m.a. innheimtu á gjöldum og á þessum árum var stofnaður sjúkrasjóður og fleira. Síðan færðist þetta allt á eina hendi til RSÍ sem er okkar gæfa í dag.

Á aðalfundi RFA 20. mars 1987 er samþykkt að breyta nafni félagsins í Rafvirkjafélag Norðurlands og útvíkka félagssvæðið en það hafði aðeins verið skilgreint sem Akureyri. Núverandi félagssvæði RFN er skilgreint sem Norðurland frá Hrúafirði til Vopnafjarðar. Á aðalfundi 2010 var ákveðið að breyta um nafn á félaginu og heitir það í dag „Rafiðnaðarfélag Norðurlands“. Það var gert til að reyna að ná til breiðari hóps rafiðnaðarmanna sem starfa á Norðurlandi.

Skráðir félagsmenn í árslok 2018 voru 263 en voru árið 1948 21.

Núverandi stjórn félagsins skipa: Finnur Víkingsson formaður, Ólafur Ingi Sigurðsson varaformaður, Gústaf F. Eggertsson gjaldkeri, Reynir Jónsson ritari, Árni Skarphéðinsson meðstjórnandi og Sigurður Ingi Friðriksson og Halldór Gauti Kárason eru varamenn. (2021)

RSÍ á hlut í Alþýðuhúsinu á Akureyri og er félagið með fundarherbergi og skrifstofuaðstöðu þar.

Félagið er innan RSÍ og á einn mann í miðstjórn sambandsins og 3 menn í sambandsstjórn. Auk þess eru félagsmennirnir í hinum ýmsu nefndum fyrir samtök rafiðnaðarmanna og ASÍ.

Akureyri 2. september 2019

Finnur Víkingsson
Formaður Rafiðnaðarfélags Norðurlands
finnur.vikingsson@gmail.com
s
ími: +354 864 6419