Starfsreglur sjúkrasjóðs RSÍ
- Sótt er um styrki rafrænt á „Mínum síðum“ eða á þar til gerðum eyðublöðum. Umsókninni þarf ávallt að fylgja löggild greiðslukvittun, ljósrit eða mynd af greiðslukvittun auk annarra upplýsinga, þar sem það á við svo sem kennitölur beggja aðila, tímabil, fjöldi skipta, upphæð sem greidd er eða yfirlit frá sjukra.is.
- Sótt er um sjúkradagpeningagreiðslur á þar til gerðum eyðublöðum. Umsókninni þarf ávallt að fylgja gilt sjúkradagpeningavottorð, og staðfesting frá launagreiðanda að veikindaréttur sé búinn. Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir út nema fyrir liggi sjúkradagpeningavottorð um óvinnufærni viðkomandi. Heimilt er að óska eftir launaseðlum síðustu mánaða. Dagpeningar greiðast frá þeim tíma að lögboðinni eða samningsbundinni kaupgreiðslu frá atvinnurekanda lýkur. Endurnýja þarf umsókn um dagpeninga við lok bótatímabils vari veikindi áfram.
- Sjúkradagpeningar og styrkir skulu jafnan greiddir út mánaðarlega síðasta virkan dag hvers mánaðar. Öll gögn vegna umsóknar þurfa að berast sjóðnum fyrir 20. dag hvers mánaðar.
- Réttur til sjúkradagpeninga og styrkja fellur niður sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því rétturinn stofnaðist.
- Heimilt er að skerða styrki í hlutfalli við starfshlutfall félagsfólks. Fullt starf er miðað er við lágmarkstaxta kjarasamnings viðkomandi. Hjá einyrkjum er fullt starf miðað við lágmarksgjald sem RSÍ ákveður hverju sinni.
- Allar upphæðir í vinnureglum þessum skal stjórn sjóðsins endurskoða í október ár hvert og breytingar sé um þær að ræða taka gildi 1. janúar.
- Réttur til styrkja helst í 5 ár eftir að viðkomandi hættir á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku hafi viðkomandi verið virkur og greiðandi félagi í 5 ár þar á undan. Annars eiga þeir rétt til styrkja í 3 mánuði frá starfslokum.
- Ekki eru veittir styrkir vegna tannviðgerða og tannlækninga, þar með taldar tannholdsaðgerðir.
- Telji sjóðfélagi að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð hvað varðar umsókn til sjóðsins, sem fellur undir heimildarákvæði reglugerðar sjúkrasjóðsins, er honum heimilt að vísa umsókn sinni til miðstjórnar RSÍ.
1. Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:
- Dagpeningar greiðast frá þeim tíma að lögboðinni eða samningsbundinni kaupgreiðslu frá atvinnurekanda lýkur. Endurnýja þarf umsókn um dagpeninga við lok bótatímabils vari veikindi áfram.
- Framkvæmdastjórn sjóðsins metur hvort dagpeningar eru greiddir lengur en eitt bótatímabil og hvaða dagpeningar eru þá greiddir.
- Upphæð dagpeninga skal tryggja 80% af meðallaunum viðkomandi síðustu fimm mánuði fyrir veikindi, skv. iðgjaldayfirliti til Sjúkrasjóðs. Hafi verulegar breytingar orðið á launum viðkomandi yfir þetta fimm mánaða tímabil er heimilt að lengja viðmiðunartímann í allt að 10 mánuði. Mánaðarleg greiðsla samkvæmt þessari reglu getur þó ekki numið hærri upphæð en kr. 1.174.768.- á mánuði.
- Sjúkra- eða slysadagpeningar Tryggingarstofnunar skerða ekki dagpeninga sjúkrasjóðs.
- Vegna langvarandi veikinda maka eða barna enda missi sjóðfélagi launatekjur vegna þeirra. Sé um veikindi barna að ræða þá hafi 12 daga rétturinn skv. kjarasamningi verið fullnýttur og maki eigi ekki tök á að annast barnið.
- Vegna veikinda maka skal við það miðað að launamissir vegna veikinda hafi staðið í a.m.k. 2 vikur.
- Heimilt er sjóðstjórn að greiða hluta dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna sjúkdóms eða slyss stundað fulla vinnu.
- Dagpeningar greiðast ekki meira en eitt bótatímabil (120 daga) þegar um varanlega örorku eða þegar um starfslok er að ræða vegna aldurs.
Dæmi um sjúkra- og slysadagpeninga sjúkrasjóðs RSÍ
Tekjur fyrir veikindi eða slys | Dagpeningar sjúkrasjóðs RSÍ |
kr. 400.000 | kr. 320.000 |
kr. 500.000 | kr. 400.000 |
kr. 700.000 | kr. 560.000 |
kr. 800.000 | kr. 640.000 |
kr. 900.000 | kr. 720.000 |
kr. 1.000.000 | kr. 800.000 |
kr. 1.250.000 | kr. 1.000.000 |
kr. 1.350.000 | kr. 1.174.768 (hámark) |
- Vímuefnameðferð
Ef félagi nýtur ekki launa frá atvinnurekanda á viðkomandi rétt á dagpeningum skv. dagpeningareglum í allt að 6 vikur sæki félagi og útskrifist af viðurkenndu endurhæfingarúrræði innanlands vegna ofneyslu áfengis eða fíkniefna.Fylgigögn með umsókn:Læknisvottorð og vottorð launagreiðanda
2. Andlát sjóðfélaga
- Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga eru 521.000.-krónur. Dánarbætur renna til dánarbús hins látna, enda hafi viðkomandi verið sjóðfélagi í a.m.k. 6 mánuði þegar andlát hans bar að höndum.Aðrar dánarbætur – sjóðfélagar hættir störfum vegna aldurs/örorku
Við andlát félaga, sem ekki er á vinnumarkaði en var sjóðfélagi við starfslok er stjórn sjóðsins heimilt að greiða til dánarbús hins látna hluta dánarbóta.
Skilyrði greiðslu skv. þessum lið er að hinn látni hafi verið sjóðfélagi samfellt síðustu 5 ár fyrir starfslok vegna aldurs/örorku, þ.e. var síðast félagi aðildarfélags innan RSÍ.* Greiðsla til eftirlifandi maka eða barna innan 18 ára aldurs skal vera að hámarki kr. 260.500. Stjórn sjóðsins hefur heimild til þess að greiða hluta dánarbóta til annarra lögerfingja sem kosta útför hins látna, að hámarki kr. 174.000.*Stjórn sjóðsins hefur heimild til að meta aðildarsögu félagsmanns til lengri tíma ef félagsmaður var síðast félagsmaður aðildarfélags innan RSÍ.
3. Styrkir vegna forvarnar og líkamsræktar
- Heimilt er að veita styrki vegna heilsutengdra forvarnaaðgerða, sjúkraþjálfunar og líkamsræktar félagsfólks. Félagi á rétt á styrk vegna þessa hafi verið greidd tilskilin gjöld gjöld til sjóðsins í samfellt 6 mánuði áður en styrkveiting fer fram.
- Með líkamsrækt er átt við t.d. sund, reglulega þjálfun í viðurkenndri líkamsræktarstöð, hjá íþróttafélagi, golfklúbbi eða skíðafélagi. Stöðin/skólinn/félagið skal vera lögaðili með kennitölu og fast heimilisfang og með fasta aðstöðu. (kvittun verður að vera á nafn t.d. 6 mánaða eða árskort í sund)
Greiðslan nemur allt að 60% framlagðs kostnaðar en þó aldrei hærra en kr. 50.000 á hverju almanaksári.Ef viðkomandi félagi getur ekki lagt fram frumrit, skal leggja fram staðfest afrit þar sem kemur fram hversu mikið framlag vinnuveitanda er og gildir reglan hér að ofan, þ.e. styrkur getur aldrei orðið hærri en mest helmingur af eftirstöðvum.Fylgigögn með umsókn:Reikningur / Greiðslukvittun - Krabbameinsskoðun
Krabbameinsskoðun er greidd, að hámarki kr 33.000.- á hverju 12 mánaða tímabili.Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun
- Hjartavernd
Skoðun vegna forvarna eins og hjá Hjartavernd er greidd, að hámarki kr 33.000.- á hverju 12 mánaða tímabili.Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun
4. Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, og endurhæfing, sjúkranudd, heilsunudd og meðferð hjá kírópraktor og osteopata
Heimilt er að greiða 40% af hluta sjúklings eftir að tryggingastofnun hefur greitt sinn hlut sjúkraþjálfunar.
Heimilt er að veita styrk vegna endurhæfingar og meðferðar hjá aðila sem hefur starfsleyfi frá landlækni s.s sjúkranuddara, osteópata, iðju þjálfa, hnykkjara/kírópraktor. Greitt er 40% af kostnaði.
Hámark er kr. 82.500 á hverju 12. mánaða tímabili.
https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/starfsleyfi/
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun
5. Viðtalsmeðferð
Styrkur veittur vegna meðferðar hjá sérfræðingi sem hefur starfsleyfi frá landlækni s.s. sálfræðingi, félagsráðgjafa og geðhjúkrunarfræðingi. Greitt er 40% af kostnaði, í allt að 20 skipti á hverjum 12 mánuðum. Hámark er kr. 9.900 kr. fyrir hvert skipti.
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun
6. Gleraugna- og linsu styrkur
Heimilt er að styrkja kaup á gleraugum/linsum einu sinni á þriggja ára fresti.
Greiðslan nemur allt að helmingi framlagðs kostnaðar, en þó aldrei hærri upphæð en kr. 80.000.-
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun og sjónmæling
7. Lækningakostnaður
Styrkur veittur vegna laseraðgerðar á augum, augnsteinaskipti, dvöl á heilsustofnun og kostnaðarsamra læknisaðgerða. Greitt er 40% af kostnaði ef kostnaður er hærri en kr. 100.000, hámark styrks er kr. 110.000. Styrkur er veittur á þriggja ára tímabili.
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun/yfirlit frá sjukra.is
8. Heyrnartæki
Styrkur veittur vegna kaupa á heyrnartækjum. Greitt er 40% af kostnaði ef kostnaður er hærri en kr. 100.000, hámark styrks er kr 110.000 Styrkurinn er veittur á þriggja ára tímabili.
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun /yfirlit frá sjúkra.is
9. Stoðtæki
Heimilt er að greiða allt að kr. 33.000.- vegna greiningar, stoðtækja s.s. innleggja í skó, hækjur og annarra stoðtækja sem leiða til þess að viðkomandi geti stundað vinnu sína. Styrkurinn nemur aldrei hærri upphæð en 50% af útlögðum kostnaði félaga. Styrkir þessir eru veittir á hverju þriggja áratímabili.
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun
10. Frjósemismeðferð
Styrkur veittur vegna frjósemismeðferðar. Greitt er 40% af kostnaði og hámark styrks er kr. 160.000. Styrkur er veittur allt að fjórum sinnum.
Fylgigögn með umsókn:
Reikningur / Greiðslukvittun
11. Fæðingarstyrkur
Fæðingarstyrkur er kr. 154.000.- vegna hvers barns. Styrkurinn nær einnig til ættleiðinga. Ef barn fæðist andvana eftir átján vikna meðgöngu er greitt 50% af styrk.
Fylgigögn með umsókn:
Staðfestingu frá fæðingarorlofssjóði um töku fæðingarorlofs, þar sem hlutfall og lengd fæðingarorlofs kemur fram.
Greiðsluáætlun frá fæðingarorlofssjóði og staðfestingu um starfshlutfall (ATH fyllist út af vinnuveitenda) sl. 6 mánuði fyrir fæðingu barns/barna.
Vakin er athygli á því að styrkurinn fæst ekki greiddur fyrr en allt að þremur mánuðum eftir töku fæðingarorlofs.
- Styrkupphæðin miðast við hvert barn og miðar við að foreldri hafi stundað 100% vinnu síðastliðna 6 mánuði fyrir fæðingu barns/barna. Styrkurinn lækkar í sama hlutfalli og starfshlutfall viðkomandi. Þurfi félagi að draga úr vinnu eða hætta störfum vegna veikinda fyrir fæðingarorlof skal horfa til starfshlutfalls áður en til veikindanna kom.
- Foreldri/félagi þarf að vera í a.m.k. 75% fæðingarorlofi til þess að eiga rétt á styrk, sé fæðingarorlof tekið hluta úr mánuði en er yfir 75% af fullum mánuði er heimilt að veita styrkinn. Fæðingarstyrkur á við um alla þá sem njóta réttinda til fæðingarorlofs úr Fæðingarorlofssjóði, þ.m.t. fæðingarorlof vegna ættleiðingar. Mögulegt er að nýta styrkinn upp að 24 mánaða aldri barns/barna.
12. Ferðakostnaður
- Til að jafna aðstöðu þeirra sem búa á landsbyggðinni tekur sjúkrasjóður þátt í ferðakostnaði þeirra sem þurfa að fara landshluta á milli til aðgerða eða rannsókna að læknisráði. Sækja verður um styrk til Sjúkratrygginga Íslands.
- Hafni Sjúkratryggingar Íslands greiðslu er greitt fyrir 40 til 100 km kr. 5.500, 100 til 250 km. kr. 11.000, 250 til 400 km. kr. 18.700 og 400 km og lengra kr. 30.000. Hámark er greitt fyrir 10 ferðir á ári.
Fylgigögn með umsókn:
Höfnunarbréf frá TR
13. Gögn vegna styrkja
- Gögn sem þurfa að berast eru: Vottorð frá lækni og beinn kostnaður vegna meðferðar. Sama getur átt við um dýr hjálpartæki og verulegan lyfjakostnað.
- Áríðandi er í öllum tilfellum sem bætur eru greiddar að fullnægjandi gögn liggi fyrir, s.s að reikningar sem er framvísað séu með nafni og kennitölu viðkomandi og fram komi tímabil, og/eða fjöldi skipta sem viðkomandi hefur sótt. Vegna greiðslu dagpeninga í stað launa skal fylgja sjúkradagpeningavottorð, ásamt staðfestingu vinnuveitanda um að launagreiðslur hafi fallið niður.
- Réttur til styrks úr sjóðnum fyrnist sé hans ekki vitjað innan 12 mánaða frá því réttur skapaðist.
14. Greiðslur og viðmiðunargildi
- Sjúkradagpeningar eru greiddir í allt að fjóra mánuði (120 daga).
- Ef óskað er eftir framlengingu er skilyrði að sækja endurhæfingu hjá Virk starfsendurhæfingu eða vera í annarri meðferð, sá réttur er allt að 4 mánuðir (120 dagar) sem er hámarksréttur (240 dagar).
- Greitt er úr styrktarsjóði mánaðarlega um mánaðarmót og þurfa gögn að hafa borist sjóðnum fyrir 20. dag hvers mánaðar.
Tölur í starfsreglum Styrktarsjóðs taka breytingum tvisvar á ári, 1.janúar og 1.júlí ár hvert samkvæmt ákvörðun miðstjórnar eða samkvæmt ákvæðum reglugerðar Styrktarsjóðsins.
Þannig samþykkt á þingi Rafiðnaðarsambands Íslands 4.-6. maí 2023.