Siðareglur Rafiðnaðarsambands Íslands

1. grein

Siðareglur þessar eiga við um félaga í stjórnum, nefndum og ráðum, trúnaðarmenn, starfsfólk og aðra sem koma fram fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands eða vinna að málum sem tengjast ytri og innri starfsemi sambandsins og aðildarfélaga. Ákvæði þessara siðareglna félaganna eiga við hvort heldur fulltrúi RSÍ þiggur laun fyrir störf sín eða ekki.

2. grein Samskipti

Við komum fram af kurteisi, virðingu, heiðarleika, fagmennsku og snyrtimennsku í störfum okkar í þágu sambandsins og/eða aðildarfélaga í bæði ræðu og riti.
Við gætum þess í störfum okkar að einstaklingum sé ekki mismunað t.d. vegna kyns, kynvitundar, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana.

3. grein Samstarf og hagsmunaárekstrar

Stjórnarfólk sambandsins, aðildarfélaga þess, starfsfólk skrifstofu sem og aðrir kjörnir fulltrúar skulu vinna saman af heilindum og forðast árekstra milli hagsmuna félagsfólks annars vegar og fjárhagslegra hagsmuna sinna og fjölskyldu sinnar hins vegar. Þeim ber að vera vakandi yfir öllum tengslum sem geta leitt til hagsmunaárekstra og ekki taka þátt í meðferð máls eða samningaviðræðum ef aðstæður eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni þeirra í efa.

4. grein Fjármál

Þeir sem hafa aðkomu að fjármálum Rafiðnaðarsambands Íslands og aðildarfélaga skulu í hvívetna sýna trúnað og heilindi í störfum sínum. Fara skal vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er trúað fyrir eða við höfum til umráða vegna starfs okkar og notum þau ekki í þágu einkahagsmuna. Handbók fjármála skal ætíð vera til hliðsjónar við fjárhagslegar ákvarðanir fyrir hönd sambandsins og aðildarfélaga þess.

5. grein Góðir starfshættir

Við stuðlum að gagnsæjum starfsaðferðum og eigum ætíð að geta rökstutt ákvarðanir okkar á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Við veitum engum fyrirgreiðslu á grundvelli persónulegra tengsla eða hagsmuna.

6. grein Gjafir

Fulltrúum RSÍ er óheimilt að þiggja persónulegar gjafir frá aðilum sem á einn eða annan hátt tengjast starfi þeirra og/eða erindum fyrir sambandið. Þó er heimilt að þiggja gjafir sem eru að fjárhagslegu verðmæti innan hóflegra marka.

7. grein Meðferð trúnaðarupplýsinga

Starfsfólk, miðstjórnarfólk og forsvarsaðilar aðildarfélaganna kynni sér siðareglur RSÍ og skrifi undir yfirlýsingu um trúnað varðandi málefni félagsfólks og mál sem varða trúnað hjá RSÍ og aðildarfélögum þess. Gæta skal að sjónarmiðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.

8. grein Endurskoðunarákvæði

Reglur þessar eru settar af miðstjórn RSÍ og hefur miðstjórn umsjón með reglunum. Miðstjórn er heimilt að gera breytingar á reglunum telji hún þörf á því. Reglur þessar skal endurskoða á síðasta fundi miðstjórnar RSÍ fyrir Sambandsstjórnarfund til staðfestingar ár hvert.

Siðareglur voru síðast uppfærðar dags. 19. apríl 2024

Erindi til siðanefndar skal senda á netfangið sidanefnd@rafis.is