Fjölsalabíó

 

Sætaframboð í kvikmyndahúsum á höfuðborgarsvæðinu hafði stóraukist á fáum árum og í raun réttri má tala um byltingu hvað varðar aðstöðu til kvikmyndasýninga í höfuðborginni. Fjölmörg ný og glæsileg kvikmyndahús höfðu litið dagsins ljós og hvergi var sparað til að gera ferð í bíó sem ánægjulegasta.
Eflaust var ein stærsta ástæðan fyrir aukinni áherslu kvikmyndahúsaeigenda á glæsileik kvikmyndahúsa og aðstöðu gesta sú að árið 1966 tók Ríkissjónvarpið til starfa. Áður höfðu landsmenn á suðvesturhorninu sumir hverjir haft aðgang að sjónvarpssendingum Bandaríkjahers á Keflavíkurvelli og skyndilega hafði nýr og leyndardómsfullur miðill gert sig gildandi. Framtíð kvikmyndasýninga, eins og tíðkast höfðu í áratugi, þóttu strax í uppnámi vegna þessa og þeir svartsýnustu gengu svo langt að segja kvikmyndahúsin úrelt fyrirbæri; héðan í frá myndi fólk vilja njóta myndefnisins heima í stofu með öllum þeim þægindum sem því fylgdi.
Víst er að kvikmyndahúsin fundu fyrir breytingunum. Agnar Einarsson sem sýndi á þessum árum í Stjörnubíói, segir að skyndilega hafi eins og allt breyst:
 
Hér áður fyrr kom fólk í bíó og fékk síðan að vita hvaða mynd var í boði í það sinnið. Myndin sjálf skipti semsé ekki öllu máli, heldur upplifunin og skemmtunin sem fylgdi því að sækja kvikmyndahúsin og sýna sig og sjá aðra. Þetta breyttist mjög skyndilega, ekki síst með tilkomu sjónvarpsins. Fyrsta árið varð breytingin raunar ekki mjög mikil, enda höfðu alls ekki allir aðgang að útsendingum Sjónvarpsins. En þegar á leið og Sjónvarpið hóf að senda út nokkuð heillega dagskrá fimm daga vikunnar, kom mikill afturkippur. Gestir kvikmyndahúsanna fóru að velja úr og þá dugði ekki lengur að setja hvaða ræmu sem er í vélina og telja síðan upp úr peningakössunum. Kvikmyndahúsagestir voru farnir að gera mjög auknar kröfur.
 
Auknar kröfur kvikmyndahúsagesta komu nokkuð flatt upp á forstjóra sumra kvikmyndahúsa, en þeir höfðu árum saman vanist því að raka nánast saman fé út á hvaða myndir sem var. Þetta átti ekki síst við um Hafnarbíó, en myndaval þess kvikmyndahúss hafði löngum verið menningarpostulum þyrnir í augum. Í íslenskri útgáfu hins geysivinsæla söngleiks, The Rocky Horror Picture Show, er einmitt getið um b-myndirnar í Hafnarbíó, en til að gæta allrar sanngirnir verður að geta þess að kvikmyndir bíósins voru auðvitað alls ekki allar b-myndir. Að mörgu leyti var kvikmyndahúsið þannig býsna framsækið í vali sínu á kvikmyndum og sýndi t.d. talsvert úrval kvikmynda frá Norðurlöndunum.
Sjálft kvikmyndahúsið var gamall braggi sem mjög hafði látið á sjá. Hriplekur, segja sumar heimildir, og aðstaða öll hin bágasta. Engu að síður var lítið lát á aðsókninni framan af, en samfara auknum kröfum bíógesta um aðbúnað og gæði mynda dró talsvert úr aðsókninni. Því var að Jón Ragnarsson, veitingamaður og eigandi kvikmyndahússins fór að svipast um eftir hentugri lóð til nýbyggingar. Hann réðst svo ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, heldur stóð fyrir byggingu fyrsta fjölsalabíósins hér á landi og árið 1977 tók Regnboginn við Hverfisgötu formlega til starfa. Kvikmyndahúsið státaði af alls fjórum sýningarsölum, misstórum og flest í rekstri þess sætti miklum tíðindum á íslenskum kvikmyndahúsamarkaði.
Aðalsalur Regnbogans var talsvert stærri en hinir salirnir þrír og með því náði kvikmyndahúsið töluverðu forskoti á önnur kvikmyndahús. Með þessu móti mátti nýta betur þær myndir sem sýndar voru, með því að frumsýna þær í stærsta salnum, en færa svo niður í minni sali þegar draga fór úr aðsókninni. Með þessu móti mátti stjórna betur sætaframboði á myndir og um leið aðsókninni. Fleiri salir drógu einnig til mikilla muna úr fjárhagslegri áhættu kvikmyndahússins, því hver mynd hafði nú talsvert lengri líftíma en áður.
Með fjölsalahúsunum lengdist sá tími sem það borgaði sig fyrir bíóin að sýna hverja mynd. Einnig þurfti lægri heildarfjölda gesta fyrir bíóin til þess að viðkomandi mynd borgaði sig. Þótt sætum fjölgaði þýddi það hins vegar ekki beina fjölgun kvikmyndahúsagesta og því var augljóst að fyrst og fremst myndi slagurinn snúast um þá sem fyrir voru.
Á það hefur verið bent að tilkoma Regnbogans sem slík hafi ekki haft úrslitaáhrif á íslenska kvikmyndahúsamarkaðinn. Ekki er hægt að segja að verulega hafi dregið úr aðsókn í önnur kvikmyndahús, enda aðalsalir þeirra fyllilega samkeppnisfærir við þá aðstöðu sem Regnboginn hafði upp á að bjóða. En rekstrarlega fengu Regnbogamenn mikið forskot með fjórum sölum sínum og fóru forstjórar hinna kvikmyndahúsanna þegar að leggja drög að viðbyggingum við kvikmyndahús sín, með það fyrir augum að byggja minni sali og lengja þannig talsvert líftíma þeirra kvikmynda sem til sýninga voru.
Undir lok áttunda áratugarins kom aukinheldur til sögunnar fyrirbæri sem átti eftir að hafa talsverð áhrif á kvikmyndamarkaðinn, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim. Myndbandavæðingin hélt innreið sína upp úr 1978 og á Íslandi eins og annars staðar voru rétthafar myndefnisins nánast sem berskjaldaðir fyrir hinni óvæntu árás.
Ekki einasta fólst samkeppnin í því almenningur gat nú valið kvikmyndir til áhorfs heima í stofu, heldur voru réttindamál í algjörum á fyrstu árum myndbandavæðingarinnar hér á landi og kom það mjög hart niður á kvikmyndahúsunum. Dæmi voru þannig um að myndbandaleigur byðu upp á ótextuð myndbönd með nýjum kvikmyndum sem enn höfðu ekki verið teknar til sýninga í kvikmyndahúsum hér á landi og þá færðist í vöxt að ný myndbönd væru tekin til sýninga í myndbandakerfum fjölbýlishúsa. Ekki bætti úr skák að algengt væri að myndbönd væru fjölfölduð af eigendum myndbandaleiga, eða öðrum hugkvæmum aðilum og komu því litlar tekjur til rétthafa kvikmyndanna, en tjónið var á hinn bóginn metið mikið. Allt var þetta vitaskuld algjörlega ólöglegt, en á þessum sokkabandsárum myndbandavæðingarinnar skeyttu fáir um slíkt.
Smám saman batnaði ástandið í þessum efnum, ekki síst fyrir samstöðu kvikmyndahúsanna sem sáu að við svo búið mátti ekki standa. Hafði þar ekki síst Háskólabíó forystu, t.d. um stofnun sameiginlegrar myndbandaleigu kvikmyndahúsanna og ekki síður um lögfræðilega ráðgjöf. Þar kom sér vel að formaður stjórnar kvikmyndahússins var Jónatan Þórmundsson, lagaprófessor, og beitti hann sér mjög fyrir hertum viðurlögum við broti á höfundarétti og útgáfurétti. Skilaði sú barátta sér t.d. í nokkrum innrásum rannsóknarlögreglu á myndbandaleigur borgarinnar sem vöktu mikla athygli.
En þrátt fyrir stóraukið myndbanda- og sjónvarpsgláp landsmanna urðu einnig stórstígar framfarir í reksti kvikmyndahúsanna upp úr 1980, einkum þá á höfuðborgarsvæðinu.
Færa má fyrir því gild rök að athafnamaður úr Keflavík, Árni Samúelsson, beri þar mesta ábyrgð. Árni hafði um árabil staðið fyrir margskonar atvinnurekstri í Keflavík ásamt Guðnýju Björnsdóttur eiginkonu sinni og börnum, m.a. rekið þar Nýja bíó sem verið hafði í eigu fjölskyldu Guðnýjar um langt árabil. Í rekstri þess kvikmyndahúss hafði Árni bryddað upp á ýmsum nýjungum, t.d. að kaupa nýjar myndir erlendis og frumsýna þær í Keflavík. Vöktu slíkar tilraunir mikla athygli, þar sem ekki hafði áður verið gerð atlaga að heiðursmannasamkomulagi stóru kvikmyndahúsanna í Reykjavík um að skipta bróðurlega með sér stærstu kvikmyndaverunum í Hollywood og gera ekki tilraun til að ná umboðum annarra kvikmyndahúsa.
Árni hugsaði stórt og því varð ljóst að markaðurinn í Keflavík nægði honum ekki. Eftir ýmsar þreifingar sótti hann um lóð til byggingar stórs fjölsala kvikmyndahúss við neðri mörk Breiðholts, rétt við mörk iðnaðarhverfisins í Kópavogi, en þar var að myndast vísir að því verslunarhverfi sem síðan hefur kallast Mjóddin. Í félagi við Ólaf Laufdal veitingamann reisti Árni stórhýsi Bíóhallarinnar og skemmtistaðarins Broadway. Sitt sýndist hverjum um fyrirhugaðan ráðahag og sjálfur hefur Árni lýst þessu þannig:
 
Menn töldu mig brjálaðan og sögðu að dæmið myndi aldrei ganga upp. Staðsetningin væri alveg vonlaus og salirnir væru alltof margir. Ef ég hefði tekið mark á öllu þessu fólki, hefði Bíóhöllin aldrei risið.
 
En Árni vissi sínu viti og Bíóhöllinn varð strax geysilega vinsælt kvikmyndahús. Nálægðin við fjölmenn hverfi í Breiðholti og Árbæ kom sér vel, en einnig skipti miklu máli að íbúar nágrannasveitarfélaganna í suðri, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði tóku kvikmyndahúsinu vel og sóttu það stíft.
Miklu skipti að Árni beitti öðrum viðskiptaháttum en til þessa höfðu tíðkast í rekstri kvikmyndahúsa hér á landi. Í dag þættu vinnubrögð hans aðeins angi af sjálfsagðri samkeppni, en í þá daga var talað um baktjaldamakk, trúnaðarbrest og brot á heiðursmannasamkomulaginu. Árni gerði nefnilega sér grein fyrir að til þess að fá nægilega góðar og vinsælar kvikmyndir fyrir hið nýja bíó, þyrfti hann að komast yfir eitt eða fleiri hinna stóru umboða. Og því réri hann á þau mið. Jónatan Þórmundsson, þá stjórnarformaður Háskólabíós, hefur lýst breytingunni svo:
 
Á 8. áratugnum var ástandið á bíómarkaðnum annað og um margt skemmtilegra. Samtök kvikmyndahúsaeigenda voru þá öflug og skemmtileg. Allir voru frekar litlir og árshátíðin, sem haldin var árlega, var með allra skemmtilegustu samkomum. Grunnur að þessum góða anda var án efa heiðursmannasamkomulagið milli bíóhúsanna.
 
Árni hafði hins vegar gefið lítið fyrir slíkt samkomulag, enda ekki hluti af því sjálfur, og m.a. tók hann upp á því að bjóða í vinsælar myndir. Varð honum nokkuð ágengt, en þessi framhleypni hans varð einnig til þess að hin kvikmyndahúsin urðu að greiða mun hærra fyrir myndir sínar en áður. Og fyrir þetta kunnu forstjórar kvikmyndahúsanna Árna Samúelssyni litlar þakkir fyrir, eins og Jónatan segir:
 
Okkur fannst hinir nýju keppinautar í bíórekstrinum oft á tíðum nota ansi óprúttnar aðferðir. Aðferðir sem eflaust teljast þó eðlileg samkeppni í dag, verður að viðurkennast. Árni Samúelsson hafði t.d. heiðursmannasamkomulagið að engu allt frá upphafi. Hann keypti m.a. yfir til sín bestu starfsmennina frá hinum bíóunum, sem okkur hinum þótti súrt í broti. Hann fór að kaupa myndir án þess að sjá þær og jafnvel þegar þær voru enn á framleiðslustigi til þess að fá þær ódýrari og jafnframt til þess að tryggja sér þær á undan öðrum. Þetta voguðu menn sér ekki að gera áður, en neyddust til að fara að gera. Það þýddi síðan að val á myndum varð ennþá meira happadrætti en áður.
 
Tilkoma Árna Samúelssonar á íslenskan kvikmyndahúsamarkað virðist þannig hafa virkað sem vítamínssprauta inn á staðnaðan markað. Jónatan gerir þetta tímabil upp með þeim hætti að þrátt fyrir allt hafi Árni haft jákvæð áhrif með sínum nýstárlegu vinnubrögðum:
 
Þá fór fyrst að reyna verulega á hversu naskir bíóhúsaeigendur voru að þefa uppi vinsælar myndir. Þessar breytingar hafa gert það að verkum, að mun erfiðara er að vera bíóhúsarekandi í dag heldur en áður. Annað var það sem Árni var upphafsmaður að, en það var að fara að mæta á allar hátíðir og fór hann meira að segja alla leið til Los Angeles til þess að ná samböndum, sem reyndist mun áhrifaríkara en að eiga við dreifingaraðilana í Evrópu. Því verður að viðurkenna, að hann hristi um margt á jákvæðan hátt upp í bíómarkaðnum.
 
Allt frá fyrsta degi naut Bíóhöllin mikilla vinsælda. Frumsýningarmyndin, Being There með Peter Sellers í aðalhlutverki, er enn ein mest sótta kvikmynd í íslenskri kvikmyndahúsasögu, og má því nærri geta að samkeppnisaðilar í öðrum kvikmyndahúsum fóru þegar að gera hosur sínar grænar fyrir skipulagsnefnd með viðbyggingar og fleiri sali í huga. Samkeppninni varð að mæta.
 Á næstu árum risu viðbyggingar við flest kvikmyndahúsanna í borginni og með því treystu eigendurnir rekstrarlega stöðu sína. Skemmistaður var aflagður í húsnæði Austurbæjarbíós og þar urðu til tveir minni salir, Stjörnubíó opnaði annan sal og Laugarásbíó tvo nýja sali. Þar með höfðu öll kvikmyndahúsin brugðist við nýrri stöðu, utan Nýja bíó og Háskólabíó. Gamla bíó hafði nokkru áður lagt upp laupana og verið keypt undir starfsemi Íslensku óperunnar, en eftir tilraun Árna Samúelssonar með rekstur Bíóhússins í húsnæði Nýja Bíós við Lækjargötu var sýningu kvikmynda þar hætt. Aðeins Háskólabíó átti því eftir að sinna kalli tímans. Í tilfelli þess var kallið aukinheldur orðið býsna hávært, því hinn feykistóri salur bíósins var orðinn ansi þungur í rekstri og sífellt hærri óánægjuraddir heyrðust í háskólaráði um hinn óhagkvæma rekstur kvikmyndahússins. Það var nú orðinn baggi á Háskólanum og var þar Snorrabúð stekkur frá því sem áður var.
Brugðist var að nokkru leyti við vandanum árið 1984 þegar Regnboginn var tekinn á leigu, þ.e. nokkrir minni salirnir. Þar gafst Háskólabíói langþráð tækifæri til að sýna í minni sölum þær myndir sem gátu gengið lengi í sýningu og varð strax nokkur breyting til batnaðar á rekstrinum. Hins vegar var alltaf ljóst að fjölga yrði sölum við kvikmyndahúsið við Hagatorg, ekki síst þar sem húsnæðisskortur stóð Háskólanum almennt fyrir þrifum. Og ekki síst var skortur á sölum til fyrirlestrahalds í fjölmennum áföngum.
Framkvæmdir við stækkun Háskólabíós hófust árið 1987 með því að Sigmundur Guðbjarnarson, rektor, tók fyrstu skóflustunguna. Eftir breytinguna tók húsið 1.800 manns í sæti í alls fimm sölum og telst húsnæðið nú 4.000 fermetrar, eða tvöfalt meira en fyrir breytinguna.
Fleiri breytingar urðu á þessum árum. Tónabíó hætti rekstri og Austurbæjarbíó var keypt inn í veldi Árna Samúelssonar og til varð Bíóborgin. Ekki var lengur talað um Árna í Bíóhöllinni, heldur Árna í Sambíóunum eftir föðurnafni hans og hin samhenta fjölskylda úr Keflavík var orðin býsna stórtæk í kvikmyndamarkaðnum hér á landi.
Sumir voru þó allt annað en sáttir við þróun mála og Laugarásbíó var eitt þeirra bíóa sem hvað áþreifanlegast fundu fyrir samkeppninni. Grétar Hjartarson, forstjóri bíósins, var enda ómyrkur í máli í viðtali sem birtist á þessum árum:
 
Árni réðst á garðinn þar sem hann var lægstur og gat sýnt yfirburði í aðsókn. Þetta hefur eðlilega áhrif á innkomuna hjá okkur, en við höfum leitað á önnur mið og erum ekkert að gefast upp. Ég er með húsið á leigu frá Sjómannadagsráði sem verktaki til árins 1996 og menn verða að bíða þangað til ef þeir hafa áhuga á að taka við rekstrinum.
 
Þrátt fyrir þessi hetjulegu ummæli varð Grétar brátt að játa sig sigraðan og árið 1993 gekk myndbandafyrirtækið Myndform inn í reksturinn og samdi við Sjómannadagsráð um rekstur kvikmyndahússins. Áður höfðu þó bæði Árni Samúelsson og Jón Ólafsson borið víurnar í Laugarásbíó með óformlegum hætti. Fyrir Árna vakti einna helst að ná umboði fyrir Universal kvikmyndaverið til sín, en hann var þá byrjaður að sýna myndir fyrirtækisins í félagi við Laugarásbíó, en við Jóni blasti ónógur sætafjöldi í Regnboganum og skortur á bílastæðum sem stóð frekari umsvifum fyrir þrifum.
Jón, sem er Keflvíkingur, vakti einmitt talsverða athygli með kaupum sínum á kvikmyndahúsinu Regnboganum árið 1990. Seljandinn var Framkvæmdasjóður ríkisins, eignast hafði bíóið í makaskiptum við Jón Ragnarsson nokkru áður, er hann keypti Hótel Örk í Hveragerði og dró sig út úr kvikmyndarekstrinum fyrir fullt og allt eftir áratuga störf á þeim vettvangi.
Plötukaupmaðurinn og útgefandinn Jón var nú orðinn forstjóri kvikmyndahúss og engum duldist að hann ætlaði sér stóra hluti á þeim vettvangi. Í viðtali við Morgunblaðið eftir að skrifað var undir kaupin, 22. mars 1990, sagði hann m.a.:
 
Regnboginn verður áfram rekinn sem kvikmyndahús. Við erum með umboð fyrir ýmis smærri kvikmyndafélög, en að auki tel ég mér það ljúft og skylt að hafa húsið opið fyrir íslenska kvikmyndaframleiðendur. Regnboginn hýsir einnig Kvikmyndaklúbb Íslands og mun gera áfram svo lengi sem þess verður óskað. Þar fyrir utan munum við leggja áherslu á listrænar myndir, eins og verið hefur, með öðru nýmeti í bland. Smám saman munum við bera okkur eftir stærri og viðameiri kvikmyndum af hinum alþjóðlega markaði, en þess er að geta að myndir sem við semjum um núna geta verið allt að því ár á leiðinni hingað, svo eftir tvö ár má reikna með því að Regnboginn verði á ný orðið öflugt kvikmyndahús hér á markaðnum.
 
Í viðtalinu virtist Jón mjög bjartsýnn og kvaðst hann hlakka til að takast á við reksturinn. Leigutími væri að baki, en með kaupunum væri ljóst að nú færi hann út í reksturinn af fullum krafti:
 
Þegar ég tók Regnbogann á leigu sagðist ég vera að þessu af gamni mínu. Nú er aftur á móti alvaran tekin við.
 
Þessi ummæli Jóns er býsna fróðlegt að skoða í ljósi þeirrar þróunar sem síðan hefur orðið á íslenskum kvikmyndahúsamarkaði. Regnboginn jók stórlega markaðshlutdeild sína eftir að Jón tók þar við stjórnartaumunum. Hinn nýi eigandi reyndist á köflum snjall í myndavali sínu og myndir á borð við Dansar við úlfa (e. Dances With Wolves), Hrói höttur, prins þjófanna (e. Robin Hood: Prince of Thieves) með Kevin Costner hreinlega möluðu gull við Hverfisgötuna. Fleiri myndir nutu einnig mikilla vinsælda, t.d. Ógnareðli (e. Basic Instinct) með Michael Douglas og Sharon Stone.
Með árunum kom hins vegar í ljós að Regnboginn átti undir högg að sækja gagnvart öðrum kvikmyndahúsum, sérstaklega eftir að þau höfðu fjölgað sölum og gátu því keppt á jafnréttisgrundvelli. Vandræði með bílastæði og litlir salir urðu þess valdandi að Jón átti erfitt með að ná mikilli aðsókn á myndir sínar hratt, enda þótt hann gæti náð mjög góðri aðsókn á ákveðnar myndir yfir nokkurra vikna eða jafnvel mánaða tímabil.
Af þessum sökum tók hann upp á þeirri nýbreytni að leigja sali annarra kvikmyndahúsa undir sýningar kvikmynda sem Regnboginn, eða móðurfyrirtækið Skífan, átti rétt á. Einnig kom fyrir að myndir sýndar í Regnboganum voru samsýndar í öðrum kvikmyndahúsum, einkum eftir að Skífan náði hinu geysivinsæla umboði 20th Century Fox af Árna Samúelssyni í Sambíóunum.
Á allra síðustu árum hefur Jón enn aukið við kvikmyndaveldi sitt, fyrst með kaupum á Stjörnubíói árið 2000 og síðan með byggingu nýs fimm sala kvikmyndahúss í verslunarmiðstöðinni Smáratorgi í Kópavogi. Má því með sanni segja að hann hafi staðið við stóru orðin frá því í áðurnefndu Morgunblaðsviðtali.
Á sama tíma má segja að Árni Samúelsson hafi í fyrsta sinn kynnst alvöru samkeppni á íslenskum kvikmyndahúsamarkaði af þeim toga sem hann sjálfur ber ábyrgð á að hafa innleitt. Árni hefur hins vegar sýnt að hann er eldri en tvævetur þegar viðskipti eru annars vegar, og með kaupum á skemmtistaðnum Broadway fjölgaði hann sýningarsölum í Mjóddinni um tvo með opnun Saga-bíós árið 1991.
Árni státar af duglegri fjölskyldu í rekstrinum og hefur samheldni hennar ávallt vakið athygli. Nú er Alfreð Árnason markaðsstjóri Sambíóanna, en Björn Árnason framkvæmdastjóri. Segja má að þriðji ungi maðurinn í yfirstjórn Sambíóanna fari einnig langt með að vera þriðji sonurinn, en það er Þorvaldur Árnason framkvæmdastjóri. Faðir hans Árni Kristjánsson, sem nú er nýlátinn, var nefnilega sýningarmaður hjá kvikmyndahúsum Árna um áratugaskeið, lengst af í Nýja Bíói í Keflavík, og ólust því þeir þrír menn sem stjórna daglegum rekstri stærsta kvikmyndafyrirtækis landsins saman upp litla bíóinu í Keflavík, þaðan sem stærsti samkeppnisaðilinn er einnig ættaður.
Árni jók enn á markaðshlutdeild Sambíóanna á íslenskum bíómarkaði árið 1996 með opnun Kringlubíós, þriggja sala fullkomins kvikmyndahúss í tengslum við verslunarmiðstöðina Kringluna. Þar með var fyrsta kvikmyndahúsið risið í verslunarmiðstöð hér á landi, en slíkt hafði mjög rutt sér til rúms erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum.
Eftir tilkomu Kringlubíós, ráða Sambíóin yfir þrettán sýningarsölum með sætum fyrir alls 3.300 áhorfendur. Margt bendir til þess að á næstu árum muni samkeppnin á íslenskum bíómarkaði að mestu leyti fara fram á milli Keflvíkinganna Árna Samúelssonar og Jóns Ólafssonar, enda þótt Árni sé raunar alls ekki ættaður úr Bítlabænum. Á milli eru svo rekstraraðilar Laugarásbíós, sem leigja húsnæðið af Sjómannadagsráði, þeir tvíburabræður Magnús og Gunnar Gunnarssynir í Myndform, en þeir hafa vakið athygli fyrir hugkvæmni og mikla uppbyggingu í sínum rekstri, þrátt fyrir mjög harða samkeppni.
Enn er svo ógetið Háskólabíós, en vandséð verður að þar á bæ verður rekstur með óbreyttum hætti í enn aukinni samkeppni í bíórekstri á næstu árum. Nýlegt samstarf bíósins við Sambíóin í markaðsmálum er kannski ávísun á það sem koma skal, en víst er að ekki verður lengi unað við taprekstur á kvikmyndahúsinu eða að hann verði í járnum. Slíkt er enda fjarri þeim upprunalegu hugmyndum með rekstri kvikmyndahússins að það sé starfsemi Háskólans fjáröflun og aflvaki í kennslu og vísindastarfi.
Margt bendir nefnilega til þess að tími aukinnar hagræðingar og endurskipulagningar sé að fara í hönd á íslenskum bíómarkaði. Þegar hefur Stjörnubíó verið lagt niður og húsnæði þess við Laugaveg rifið, enda hafa Norðurljós, nýtt móðurfélag Skífunnar, Íslenska útvarpsfélagsins, Regnbogans og fleiri fyrirtækja, sótt verulega á með hinu risavaxna kvikmyndahúsi í Smáralind.
Þess má síðan geta að fyrir skemmstu var Sambíóunum úthlutað lóð fyrir risastórt kvikmyndahús í Spönginni í Grafarvogi.
Þessi mikla uppbygging gefur tilefni til að ætla að eitthvað verði undan að láta og ekki muni öll kvikmyndahýs lifa af þær breytingar sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Þegar Árni Samúelsson opnaði Kringlubíó, lýsti hann sýn sinni á bíómarkaðnum með þessum hætti:
 
Bíómarkaðurinn hér er sá besti í heimi. Íslendingar fara að meðaltali átta sinnum í bíó á ári í kvikmyndahús meðan nágrannaþjóðir fara 2-3 sinnum. Það er löng hefð fyrir þessari sterku bíómenningu og margir í kvikmyndaheiminum sem líta hingað til lands fyrir það hvað þetta er sterkur markaður.
 
En hver skyldi vera leyndardómurinn á bak við þennan sterka íslenska bíómarkað. Árni svarar því:
 
Okkur hefur tekist að halda aðsókninni. Það hefur alltaf verið reynt að bjóða upp á það besta, bæði í aðstöðu og kvikmyndaúrvali. Kringlubíó er t.d. nú það tæknivæddasta í Evrópu. Öll tæki af fullkomnustu gerð, það gerist hvergi betra.
 
Líklega hittir bíókóngurinn íslenski þarna naglann beint á höfuðið. Hér á landi hafa bíóeigendur keppst um á undanförnum árum að bjóða upp á nýjungar í tæknimálunum, ekki síst hvað hljóðið áhrærir, sem fallið hafa í góðan jarðveg hjá kvikmyndahúsagestum, einkum þó yngri kynslóðinni.
Með stórbættu hljóði og auknum gæðum hefur þannig tekist að halda sérstöðu kvikmyndasýninga gagnvart þeirri skemmtun sem felst í áhorfi kvikmynda heima í stofu. Þrátt fyrir stórbætt gæði sjónvarpa og myndbandstækja, t.d. með s.k. heimabíói, hefur enn ekki tekist að skapa hina einu sönnu bíóstemmningu nema í sölum kvikmyndahúsanna. Ekki má heldur gleyma þeirri félagslegu athöfn sem felst í því að sækja kvikmyndahúsin – sýna sig og sjá aðra.
Hinu er hins vegar ekki að leyna, að sætanýtingin í kvikmyndahúsum er allt annað en glæsileg, eða nálega 13-15%. Um þetta var fjallað í fréttaskýringu um íslenska bíómarkaðinn í Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum. Í fréttaskýringunni var m.a. beint sjónum að því hvort ástandi í rekstri kvikmyndahúsanna svipað ekki á margan hátt til sjávarútvegsins, með því að verið væri að fjölga skipum þótt áfram væri ætlunin að gera út á óbreyttan kvóta. Í fréttinni sagði m.a.:
 
Friðbert Pálsson, framkvæmdastjóri Háskólabíós, sagði í samtali við Morgunblaðið, ljóst að offramboð væri á bíósætum miðað við fjölda sýningargesta. Hann sagði óvarlegt að búast við breytingu á fjölda bíógesta á næstu árum, enda væru Íslendingar þegar meðal mestu bíóþjóða heims.
„Fjölþættur rekstur Háskólabíós gerir að verkum að við stöndum betur en önnur kvikmyndahús og skapar í raun rekstrargrundvöll fyrir okkur. Þó er húsið vissulega vannýtt varðandi sýningar kvikmynda eins og reyndar flestöll bíó í Reykjavík.”
 
Þrátt fyrir þetta halda kvikmyndahúsin áfram að stækka sig, rétt eins og eigendur þeirra eigi von á umtalsverðri fjölgun landsmanna á næstu árum. Líklegt er að afleiðingin verði sú sama og fyrr; að minni aðilar muni þurfa að láta undan, en þeir stærri sæki á í krafti hakvæmni stærðar sinnar. Slíkt er víst eðli viðskiptanna.