Fyrsti sýningarmaðurinn. Bíópetersen.

 

Trésmiðurinn Alfred Lind var ekki sjálfur á bak við sýningarvélina á sýningum í Fjalakettinum, heldur hafði hann ráðið til starfans landa sinn, Peter nokkurn Petersen. Hans verkefni var að „snúa apparatinu“, eins og það var kallað.
Petersen, sem var ljósmyndari að mennt, varð þegar þekktur í bæjarlífinu og gekk aldrei undir öðru nafni en Bíópetersen. Nafn hans varð og samofið rekstri fyrsta kvikmyndahússins hér á landi, enda tók hann við rekstri Bíós er Alfred Lind hélt heimleiðis til Danmerkur árið 1907.
Peter Petersen fæddist í Kaupmannahöfn 30. júní árið 1881, einkasonur hjónanna Jörgen og Karen Petersen. Við fráfall móður sinnar var Petersen komið í fóstur til móðurbróður síns á Sjálandi, en hann var þá ekki fullra tveggja ára.
Sextán ára hóf Petersen nám í ljósmyndun hjá Dyrehauge Hasle í Kaupmannahöfn og útskrifaðist þaðan 1899. Starfaði hann síðan við ljósmyndun, uns hann var kallaður í herinn árið 1903.
Að lokinni tveggja ára herskyldu fékk Petersen vinnu við ljósmyndasýningu í Kaupmannahöfn og þar kynntist hann kvikmyndunum í fyrsta sinn. Á sýningunni voru nefnilega sýndar kvikmyndir sem Peter Elfelt, konunglegur hirðljósmyndari, hafði tekið.
Sýningin í iðnaðarmannahúsinu í Kaupmannahöfn stóð aðeins í sex vikur og eftir stóð Petersen reynslunni ríkari, en atvinnulaus. Um sama leyti var Pétur Brynjólfsson, ljósmyndari í Reykjavík, á höttunum eftir starfskrafti á ljósmyndastofu sína. Þeir Petersen náðu saman og lagði danski ljósmyndarinn af stað til Íslands á vit nýrra ævintýra hinn 16. október 1905. Farkosturinn var e.s. Lára og gekk siglingin næsta skrikkjótt, en komið var til hafnar í Reykjavík sunnudaginn 27. nóvember. Þá er veður sagt hafa verið fagurt í höfuðstaðnum og nýfallinn snjór á fjöllum.
Vist Petersens hjá Pétri ljósmyndara Brynjólfssyni stóð skemur en áætlað hafði verið, því hann lét af störfum í júní 1906, að eigin sögn vegna ónógra launa. Á hinn bóginn lét Pétur í veðri vaka að Petersen hefði verið sagt upp störfum vegna óvandaðra vinnubragða.
Tók sá danski sér nú fyrir hendur ýmis tilfallandi störf, svo sem brauðbakstur fyrir Hakonson bakarameistara í Austurstræti. Ekki leið á löngu þar til hann hóf störf í áðurnefndu Breiðfjörðsleikhúsi. Þar stóð vitaskuld mikið til vegna fyrirhugaðra kvikmyndasýninga og fékk Petersen vinnu við að gera við áklæði sætanna, sem orðið var slitið af áratugsnotkun hjá leikfélaginu.
Dag einn mun Alfred Lind hafa gengið fram á landa sinn að bakstra við einn stólinn og ekki þótt mikið til vinnubragðanna koma. Sjálfur lýsti Petersen þessu þannig:
 
Lind sá fljótt að þetta var ekki mitt fag og spurði hvaða starfa ég hafði. Þegar ég sagði honum að ég væri ljósmyndari og hefði þess utan verið við sýninguna í Höfn árið áður, sagði hann að ég væri einmitt maðurinn sem sig vantaði, og réð hann mig sem sýningarmann með kr. 125.00 á mánuði.
 
Eflaust hefur Petersen þótt spennandi að vera orðinn sýningarmaður í fullu starfi, enda þóttu miklir töfrar felast í heimi kvikmyndanna og mikil eftirvænting var í loftinu fyrir hinu nýja bíói. En synd væri að segja að aðstæður sýningarmannsins hafi verið ákjósanlegar. Sýningarklefinn var frumstæður, aðeins um einn fermetri að stærð, klæddur plötum úr gipsi að innan vegna eldhættu. Sýningarvélin sjálf var handknúin og lagði af henni mikinn hita, en loftræstingin var lítil sem engin og var því ekki óalgengt að hitinn inni í klefanum færi upp í 40 gráður. Það hitastig jaðrar við brennslustig þeirra nítratfilma sem sýnt var með á fyrstu dögum kvikmyndasýninganna. Hefur því oft orðið ansi heitt í kolunum, en Petersen bar sig vel, þau mörgu ár sem hann stóð vaktina í klefanum og hamaðist við vélina, þetta fjórar til fimm klukkustundir hvern einasta dag.
Algengt var að hver sýning stæði yfir í 45 mínútur, venjulega samsett af 6-8 stuttum myndum. Voru þetta landslagsmyndir, fréttamyndir og skopmyndir, sem mestra vinsælda nutu. Eftir því sem árin liðu urðu myndirnar lengri og voru Danir og Ítalir brautryðjendur í þeim efnum. Kvikmyndin Herfang mormónans var þannig sýnd í Bíó í apríl árið 1912 og auglýst sem „lengsta og stærsta mynd, sem hér hefur verið sýnd, enda heil saga“.
Alfred Lind stýrði rekstri kvikmyndahússins aðeins um nokkurra mánaða skeið, en var þá kallaður heim til Kaupmannahafnar. Eru ástæður þessa nokkuð á reiki, sumir telja að hann hafi verið kallaður heim til að gera grein fyrir fjárreiðum fyrirtækisins, en aðrir að hann hans hlutverki á Íslandi hafi einfaldlega verið lokið, hann hafi átt að koma kvikmyndahúsinu á laggirnar, en aldrei hafi staðið til að hann ræki það til langframa.
Hvað sem því leið, var Peter Petersen orðinn forstjóri eina kvikmyndahússins árið 1907, aðeins örfáum árum eftir að hann starfaði við rúgbrauðsgerð hjá bakarameistara í Austurstræti og bakstraði við húsgagnabólstrun. Nokkrum árum síðar eignaðist hann síðan kvikmyndahúsið, en við fráfall stórkaupmannsins Warburg seldi ekkja hans Petersen rekstur bíósins fyrir 8050 kr.
Fékk Petersen úthlutað sérstöku leyfi til reksturs kvikmyndahúss frá Jóni Magnússyni, bæjarfógeta, og komst fljótt í álnir og lét nokkuð til sín taka í bæjarlífinu. Árið 1909 hafði hann kvænst íslenskri stúlku, Kristínu Biering, kaupmannsdóttur úr Reykjavík, og eignuðust þau þrjú börn; Petru, Níels og Jörgen.
Forstjórinn danski kunni nafngiftinni Bíópetersen vel og notaði hana sjálfur. Hann var stór maður, afar þéttur á velli og mikill gleðimaður. Oft kom fyrir að hann kæmi sér fyrir við útganginn eftir sýningar og kinkaði kolli til gesta er þeir gengu á braut. Þá lét hann einnig til sín taka ef troðningur barna á þrjú-sýningum um helgar þótt horfa til vandræða. Lét hann þá vel heyra í sér, svo börnin hrukku í kút og gengu hljóðlegar til sæta sinna.
Bíópetersen lét sér einnig annt um landa sína, hvort heldur búsetta hér á landi eða gestkomandi. Hann hafði t.d. fyrir sið að bjóða dönskum dátum á herskipum í bíó er þeir komu við í Reykjavíkurhöfn. „Ég er ánægður ef ég finn, að mér hefur tekist að gera dvöl landa minna hér á Íslandi ánægjulegri,“ sagði hann eitt sinn.
Petersen lét sér ekki nægja að sýna myndir, því ljósmyndarinn blundaði ávallt í honum og svo fór að hann eignaðist eigin kvikmyndatökuvél. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær hann eignaðist vélina, en það hefur þó líklega verið skömmu eftir heimsstyrjöldina fyrri. Framkallaði hann filmurnar sjálfur og setti á þær millitexta, þar sem fram kom að framleiðandi myndanna væri Reykjavíkur biograftheater, en þær væru teknar og útbúnar af P. Petersen. Oftast voru þetta myndir úr bæjarlífinu, eða af einstökum viðburðum, og var sá háttur hafður á að sýna myndbrot þessi á undan aðalsýningum í bíóinu. Nutu þessar sýningar mikilla vinsælda, enda hafði fólk gaman að því að sjá sjálft sig á hvíta tjaldinu.
Kvikmyndagerð Petersens reis þó aldrei hátt, enda maðurinn önnum kafinn við rekstur hússins og kvikmyndasýningar, en hann mun þó ekki hafa lagt myndatökur á hilluna fyrr en við komu talmyndanna.