FYRIRTAKS LIFANDI MYNDIR”

 

Afþreying, eins og við þekkjum hana í dag, var varla fyrir hendi hér á landi fyrr en við lok 19. aldar, ef undan eru skildar sértækar skemmtanir fjölskyldna, svo sem kvöldvökur í sveitabæjum. Þetta breyttist hins vegar þegar Íslendingar fluttust í auknum mæli á mölina og vísir að þéttbýlismyndun tók að myndast á nokkrum stöðum á landinu.
Fyrsta Góðtemplarastúkan var stofnuð hér á landi árið 1884 og um svipað leyti tóku að spretta upp ungmennafélög um sveitir, þar sem markmiðið var að efla samkennd með fólki og kenna því að vinna saman í lýðræðislegum félagsskap.
Góðtemplarareglan stóð fyrir byggingu nokkurra af fyrstu samkomuhúsunum sem reist voru í þéttbýlinu og þar fengu aukinheldur aðrir inni, t.d. verkalýðs- og leikfélög. Húsnæði þetta var vitaskuld sérhannað til samkomuhalds og því var ekki að undra, að það skyldi verða vettvangur þeirra sem fyrstir spreyttu sig á kvikmyndasýningum hér á landi.
Talið er að fyrstir til að standa fyrir opinberum kvikmyndasýningum á Íslandi hafi verið tveir útlendingar, þeir Fernander og Hallseth. Þetta var árið 1903 og höfðu þeir félagar fyrstu sýningar sínar í höfuðstað Norðurlands, Akureyri. Sýningartæki höfðu þeir meðferðis, enda slík undratól ekki fyrir hendi hér á landi, og vöktu þau að vonum mikla athygli, enda vönduð og glæsileg, frá The Royal Biokosmograph. Filmur þeirra höfðu að geyma mikil firn sem landsmenn höfðu ekki áður augum litið. Flykktust þeir enda á sýningar tvímenninga, sem rækilega höfðu verið auglýstar.
Blaðið Norðurland skýrði frá sýningunum 27. júní og þar birtust einnig auglýsingar um viðburðinn, sem tíðindum þóttu sæta. Var þar hvergi dregið af í lýsingum og talað um „margbreytt prógramm“ og „mikið úrval af alþýðlegum og skringilegum myndum“. Kom þar jafnframt fram, að aðgangseyrir á sýninguna væri 1 króna fyrir betri sæti, lakari sæti 75 eyrir, barnasæti 50 aurar og 25 aurar eftir sætum.
Í umfjöllun blaðsins kom fram „að alveg fyrirtaksvel hefði verið látið af sýningu þeirra (félaga) í norskum, sænskum og finnskum blöðum“, sagt meðal annars, að „fullorðið fólk sitji hugfangið eins og börn af fegurðinni og ráði sér þess á milli ekki fyrir hlátri“.
Blöðin nefna fjölda af þeim myndum sem sýna á:
 
myndir sem verða afbragðsfallegar með þessari vél Edisons, sem notuð er, svo sem dýragarðurinn í Lundúnum með urmul af dýrum, ferðina til tunglsins, járbrautarlestirnar, sýningar úr 1001 nótt, menn á sundi, o.fl. o.fl. Einkum verða myndirnar hugnæmar fyrir það, að hreyfingar sjást, alveg eins og þær eru í lífinu. Þeir sem sækja þessar sýningar, fá sjálfsagt mjög góða skemmtan.
 
Af lýsingum þessum má ráða, hversu mikil firn hafa þótt að boðið væri upp á hreyfimyndir í stað hefðbundinna skyggna. Þannig mátti nú sjá hreyfingar, „alveg eins og þær eru í lífinu”, eins og það var orðað.
Sem fyrr segir, var aðsókn mikil og góð á sýningar tvímenninganna á Akureyri um hásumarið 1903 og birti Norðurland umsögn um þar 4. júlí.
 
Þær urðu ekki neinum vonbrigði. Þeir herrar Fernander og Hallseth urðu að sýna myndirnar þrisvar á sunnudaginn og tvisvar á mánudag og þriðjudag. Með öðru móti var ekki unnt að fullnægja eftirspurninni. Þrátt fyrir loftleysi og feykihita - þar sem loka varð gluggum og dyrum til þess að gera aldimmt inni - sat þar húsfyllir hvert sinni og skemmti sér hið besta. Ýmsir tóku það jafnvel fram, að betur hefðu þeir ekki skemmt sér á ævi sinni.
 
Hrifning Akureyringa yfir hinni nýstárlegu skemmtun fór ekki framhjá öðrum landsmönnum og Ísfirðingar urðu heldur en ekki glaðir þegar fréttist að þeir Fernander og Hallseth væru á leiðinni þangað. Um sýningarnar á Ísafirði sagði blaðið Vestri m.a.:
 
Einkum eru þó hinar lifandi myndir fyrirtaks skemmtilegar og náttúrulegar og gefa manni næstum jafn greinilega hugmynd um viðburði þá, sem þær eru af, eins og maður í raun og veru hefði verið sjónar- og heyrnarvottur af atburðunum. Ferðin í gegnum dýragarðinn í Lundúnum er svo eðlileg og náttúruleg, að manni finnst virkilega sem maður sem maður sjái dýrin lifandi, sama má segja um ferðina til krýningar Játvarðar konungs, enda eru hreyfingar og myndir alveg samkvæmar því náttúrulega sem þær eru af. ... Hér skemmtu menn sér svo vel við lifandi myndirnar, að hláturinn ískraði um allan salinn og klappið dundi með höndum og fótum.
 
Á það hefur verið bent, að þessi umsögn Vestra, sé í raun réttri fyrsta kvikmyndagagnrýnin sem birtist í íslenskum fjölmiðli.
Undir lok júlímánaðar fengu íbúar höfuðstaðarins loks að berja undur þessi augum, en mjög hafði þá verið um þau pískrað manna á milli um nokkurra vikna skeið. Var því ekki að undra að mikil spurn væri eftir miðum á sýningarnar, svo mjög að í Iðnó, þar sem sýningarnar fóru fram, var „þar troð-fullt hús, enda var eftirsóknin svo mikil að allt seldist upp á frekum 2 tímum“, eins og skýrt var frá í Fjallkonunni.
Sýningarnar í Reykjavík voru með líku sniði og þar á Akureyri og Ísafirði, utan að sýnilega hafði verið bætt við íslensku myndefni. Þannig sagði Fjallkonan frá því að myndir hafi verið sýndar af ýmsum merkum mönnum, t.d. Björnsterne Björnsson og Henrik Ibsen, en auk þess Matthíasi Jochumssyni.
Seint um sumarið héldu tvímenningarnir af landi brott, sælir og glaðir, enda orðnir nokkuð loðnir um lófana eftir velheppnaða Íslandsför. Sýningartækin höfðu þeir meðferðis, svo og filmurnar. En áhugann á kvikmyndasýningum tóku þeir ekki með sér. Hann var fyrir alvöru vaknaður hér á landi og hefur ekki slokknað síðan.
Ólafur Johnson, síðar stórkaupmaður, hafði kynnst af eigin raun kvikmyndasýningum í fjölleikahúsi í Kaupmannahöfn laust fyrir aldamótin. Ólafur sá nú að hinn mikli áhugi Íslendinga á kvikmyndasýningum væri kjörin gróðalind og því festi hann undir árslok 1903 kaup á tækjum til kvikmyndasýninga – fyrstur Íslendinga. Ólafur stofnaði félag til þess arna, O. Johnsson & Co., og hafði sér til fulltingis þrjá mæta menn úr viðskiptalífinu, þá Ásgeir Sigurðsson, kaupmann í Edinborg, Hans Hoffman og Magnús Ólafsson, ljósmyndasmið.
Í október árið 1904 skýra blöð í Reykjavík frá því að sýningar félagsins séu hafnar og fari fram í Breiðfjörðsleikhúsi. Kemur ekki á óvart að aðsókn hafi verið mikil, en fyrstu sýningarnar munu ýmist hafa farið fram í Breiðfjörðsleikhúsi, við Aðalstræti 8, eða í Bárunni, þar sem nú stendur Ráðhús Reykjavíkur.
Aðstæður til sýninga á þessum tíma voru erfiðar. Notast var við gasljós, enda rafmagn ekki komið í bæinn á þessum tíma. Gasið urðu sýningarmenn sjálfir að framleiða og olli þetta miklum vandkvæðum við ljósgjafa sýningarvélarinnar.
Hermt er að Ólafur Johnsson hafi ekki komið að stjórn sjálfrar sýningarvélarinnar nema að litlu leyti, en Magnús Ólafsson hafi verið sýningarstjóri. Hans Hoffman stjórnaði grammófóninum og ýmsum gjörningum í tengslum við sýningarnar, svo sem að framkalla brimhljóð með því að nudda við gólfið samankrulluðum umbúðapappír. Við sýningu á sjóorrustu Rússa og Japana við Port Arthur voru fallbyssuskot framkölluð þannig að panelborð var látið skellast upp að vegg og mynduðust við það talsverðir skellir, sem vel var hægt að túlka sem skot úr mikilvirkum fallbyssum úti í hinum stóra heimi.
Ólafur var engu að síður driffjöðurin við kvikmyndasýningarnar og fyrir elju hans var boðið upp á þær með stopulum hætti næstu árin. Skortur á aðsókn eða fjármagni olli ekki fæð sýninganna, heldur aðstöðuleysi fyrst og fremst.
Annað fyrirtæki á vegum Ólafs, Íslenska lifandimyndafélagið, auglýsti sýningar í október og nóvember árið 1906. Var sýnt í Báruhúsinu fram undir jól og áramót það ár.