Við, hjá RSÍ , viljum koma á framfæri þökkum til ykkar kæru félagsmenn fyrir að hafa sýnt ábyrgð í verki og afbókað orlofshús á landsbyggðinni á meðan núverandi sóttvarnarreglur eru í gildi þar sem fólk er hvatt til að halda sig innan sinna byggðalaga.

Saman tekst okkur þetta og persónulegar sóttvarnir eru lang, lang áhrifaríkastar í þessu skrítna árferði.

Vetrarfríin á höfuðborgarsvæðinu hefjast í dag og ljóst að hugsa þarf í lausnum til að gera þennan tíma sem skemmtilegastan fyrir fjölskyldur í vetrarfríi.

Það reynir á fjölskyldulífið þegar fara þarf í sóttkví, ekki síst á börn. Staðan er þannig í dag að margir eru að fara oftar en einu sinni í sóttkví. Við sendum fólkinu okkar góðar kveðjur og þökkum þeim fyrir að fylgja tilmælum – á sama tíma hvetjum við ykkur hin sem fréttið af vinum eða fjölskyldu í sóttkví að þakka þeim fyrir og hvetjum ykkur til að bjóða fram ykkar hjálp. Það eru góðar leiðbeiningar að finna hér á covid.is um sóttkví

Meðal þess sem bent er á leiðir til að útskýra sóttkví og veiruna fyrir börnum. (Efni sérstaklega um börn á vef Landlæknis)

  • Lítum á tímann saman sem gjöf en ekki ánauð.
  • Höfum góðan mat. Það er auðvelt að kaupa inn á netinu og láta senda heim að útidyrum en ef það er ekki hægt getur þurft að fá hjálp frá vinum og ættingjum við innkaupin.
  • Fáum einhvern til að fara á bókasafn og sækja bækur og Andrésblöð fyrir börnin. Munum að þurrka af bókum og setja bækur/blöð í poka sólarhring áður en þeim er skilað.
  • Fáum einhvern til að fara í búð og kaupa púsluspil og/eða önnur spil sem passa aldri eða allir í fjölskyldunni geta spilað saman, þetta er góð tilbreyting frá áhorfi.
  • Höldum öll saman í reglulegri heimaleikfimi, það er svo fyndið fyrir krakka að sjá fullorðna í leikfimi. RÚV, ýmsar netveitur og a.m.k. sumir skólaíþróttakennarar hafa miðlað tillögum um æfingar til að gera heima.
  • Skiptum á rúmunum og notum uppáhaldsrúmfötin.
  • Látum börnin um að velja fötin á foreldrana á morgnana.
  • Búum til tjald í stofunni úr borðum, teppum og þess háttar, útbúum nesti, drögum fram ennisljós eða vasaljós og annan tilheyrandi útbúnað og börnin sofa þar um nóttina.
  • Förum í hressandi göngutúra til að skipta um umhverfi og komast út.
  • Förum út í garð eða út á svalir ef það er hægt til að leika og til að fá okkur ferskt loft.

Forráðamenn þurfa líka að huga að eigin þörfum og reyna að eiga gæðastundir saman eða með sjálfum sér við þessar óvenjulegu og mögulega ógnvekjandi aðstæður. Kannski er núna tækifæri til að læra að elda uppáhaldsréttinn, mála eftir ljósmyndum, koma skikki á myndaalbúmin eða horfa á þessa sjónvarpsseríu sem allir hafa verið að dásama.

Það er ýmislegt hægt að gera

– í haustfríinu eða hvenær sem er!