Að gefnu tilefni telur Vinnumálastofnun rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

Undanfarna daga hefur, í fjölmiðlum, verið fjallað um túlkun á bráðbirgðaákvæði atvinnuleysistryggingalaga sem snýr að svokallaðri hlutabótaleið.  Þar er kveðið á um heimild atvinnurekenda og starfsmanna til að gera með sér tímabundið samkomulag um minnkað starfshlutfall.  Starfsmaðurinn getur svo sótt um og fengið greiddan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem samsvarar hinu skerta starfshlutfalli.

Megintilgangur ákvæðisins er að aðstoða og gera atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra, kleift að viðhalda ráðningarsambandi sín á milli í þeim þrengingum sem nú steðja að.

Vinnumálastofnun vill árétta að það er grundvallarskilyrði fyrir greiðslu styrksins til starfsmannsins að ráðningarsamband sé í gildi.  Ef atvinnurekandi segir upp starfsmanni sem hann hefur gert samkomulag við, lítur stofnunin svo á að forsenda samkomulagsins sé brostin og þá taki almennar reglur um uppsagnarfrest við.

Hafi atvinnurekendur misskilið ofangreindar reglur og sagt upp starfsmönnum sem þeir hafa þegar gert samkomulag við um minnkað starfshlutfall, þá skorar Vinnumálastofnun á þá, að draga þær til baka.