Lágmenning á hvíta tjaldinu?
Vanþroski og siðspillandi skilaboð

 

Eins og nærri má geta voru ekki allir á eitt sáttir um þá tegund menningar sem haldið hafði innreið sína á ísa köldu landi. Þeir voru til – og eru máske enn – sem töldu fara betur að því fólk safnaðist saman á kvöldin og segði sögur og færi með vísur. Varðveitti þannig menningararfinn. Hið minnsta voru ekki allir hrifnir og einkum voru það ýmsir fylgifiskar Hollywood sem vöktu hneykslan. Þannig höfðu sumir lítinn skilning á stjörnudýrkun almúgans og gerðu gys að stúlkum og jafnvel virðulegum húsmæðrum sem gengu skyndilega í barndóm og tóku af safna spjöldum litlum með myndum af hinni og þessari kvikmyndastjörnunni. Ýmsum menntuðum mönnum þótti það merki um lágmenningu kvikmyndanna og fannst sem myndir sem sýndu götulífið í erlendum stórborgum – sollinum - ættu lítið erindi hingað og geta hugsanlega leitt til siðferðisbrests borgarbúa.
Ákvæði um kvikmyndaeftirlit var sett inn í lögreglusamþykkt á öðrum áratug aldarinnar, en í raun var aldurstakið á valdi bíóstjóranna.
Umræðan um þessi mál hefur verið greind niður í tvennt og er þá átt við siðspillunguna sem átti að vera samfara kvikmyndunum. Annars vegar var sú fullyrðing að lélegar kvikmyndir valdi ekki „menningarlegum þroska” og hins vegar að ”siðspillandi skilaboð myndanna” hafi slæm áhrif á börn og unglinga.
„Hvað varðar Íslendinga um saurlifnað stórborganna?” spurði til dæmis Guðrún Lárusdóttir borgarfulltrúi í Vísi 12. desember 1913, um mynd, Gættu Amalíu, sem auglýst var sem skemmtilegasti gamanleikur veraldarinnar. Kemur þarna klárlega í ljós sú andúð sem upprunnin var í sveitum gagnvart léttúðinni á mölinni og þeirri lausung sem þar átti að þrífast.
Enda fór þannig að borgarblöðin voru ásökuð um að rýna ekki nægilega gagnrýnt í efni þessa nýja miðils. „Því var jafnvel haldið fram að bíóin borguðu blöðunum fyrir góðar umsagnir, en sennilega hefur fréttatilkynningum og skoðunum blaðamanna verið ruglað saman,” segir Skarphéðinn Guðmundsson, sem rannsakað hefur þessi upphafsár íslenskra kvikmyndasýninga.
Reyndar má til sanns vegar færa að lítið hafi verið um kvikmyndagagnrýni eins og við þekkjum hana nú á Reykjavíkurblöðunum í upphafi aldarinnar. Það var enda ekki beinlínis sú gagnrýuni sem hér var verið að lýsa eftir. Miklu fremur voru gagnrýnendur kvikmyndasýninga að vísa til skorts á einhverju menningar-eftirliti, sem bægt gæti frá saklausum almenningi efni sem fæli ekki sér fræðslu af einhverjum toga eða hvert annað uppeldislegt gildi. Það var semsé lítill skilningur kominn á hugtakinu afþreygingu á þessum árum.
Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur og textaskáld, var einn þeirra sem sá ofsjónum yfir lélegu og einhæfu úrvali kvikmyndahúsanna. Hann sá sig tilneyddan að skrifa um málið árið 1940.
Sigurður segir að sænska myndin „Mötuneytið Paradís” hafi verið kölluð „pilsnermynd” í Svíþjóð eins og aðrar heimskulegar grínmyndir. Hann segir svo að blöðin hér á landi hafi auglýst hana sem eina af þessum „bráðskemmtilegu, vinsælu, sænsku gamanmyndum”, og ekki gert neina athugasemd við hana. „Og fólkið þyrptist í Gamla bíó til að auðga sinn anda,” skrifaði Sigurður og var sýnilega ekki skemmt yfir þessu ábyrgðarleysi blaðanna.
Og það var ekki eins og Sigurður hafi verið einn um þessa skoðun. Sjálfur Halldór Laxness hafði skrifað þessi orð tólf árum áður í Alþýðubókinni.
 
Og þjóðin leggur árlega í vasa andlausa og mentunarsnauða kvikmyndamiljónúnga í Hollywood meira fé fyrir þessa ælu þeirra en hún hefur lagt af mörkum til íslenskra snillínga frá því er land bygðist, svo það er sannarlega tími til kominn að rannsaka gildi þessara áhrifa lítið eitt, en blöðum vorum er eins og annarsstaðar borgað fyrir að hæla upp í hástert öllum þeim óhroða sem kvikmyndaverkbólin í Hollywood spýa yfir landslýðinn.
 
Líklega var það af þessum völdum sem snemma kom upp umræða um einhverja tegund eftirlits með þessari öfugþróun. Kvikmyndaeftirlit skyldi það vera og svo snemma sem 1932 var sett ákvæði í barnaverndarlög um eftirlit með kvikmyndum. Nefnd var sett á laggirnar, en hún reyndist of ströng og var afnumin og í hennar stað skipaður eftirlitsmaður af kennslumálaráðherra.