Kröfur um kauptaxta.

 

Snemma fengu forystumenn félagsins því áhuga á að kanna kjör sýningarmanna og vinna úr þeim upplýsingum fyrir væntanlega kröfugerð um kauptaxta. Fékkst samþykkt fyrir slíkri rannsókn 1947 og í kjölfarið voru sendir út spurningalistar til kvikmyndahúsa annars vegar og þeirra sýningarmanna sem þar störfuðu hins vegar.
Í bréfi, sem sent var til forstjóra kvikmyndahúsanna, í apríl 1948, var stofnun félagsins m.a. rifjuð upp og svo sagt: Tilgangurinn með stofnun félagsins var að gæta hagsmuna sýningarmanna og jafnframt að vinna að því, með öllu móti, að íslenskir sýningarmenn stæðu á engan hætt að baki erlendum starfsbræðrum sínum.
 Í bréfinu var einnig leitast við að útskýra stöðu sýningarmanna í kvikmyndahúsum og þá byltingu sem orðið hefði á örfáum árum í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Kvikmyndahúsum á landinu hafði þá fjölgað um helming og sem sýningarmenn varð að ráða menn, sem litla eða alls enga reynslu höfðu í meðferð sýningarvéla og báru sýningarnar þess líka oft merki. Meðferð hinna dýru og eldfimu filma var einnig oft ábótavant og öllum þeim, sem í einhverjum mæli höfðu fengist við kvikmyndasýningar, bæði eigendum kvikmyndahúsa og sýningarmönnum, hafi verið ljóst að við slíkt ófremdarástand yrði ekki búið við til lengdar. Engin lög hafi verið til hér á landi um kvikmyndasýningar og því hafi hið opinbera ekki séð sér fært að aðhafast nokkuð í málinu. Ekki fyrr en með setningu reglugerðar "Verksmiðju- og vélaeftirlits ríkisins" ári áður og í kjölfarið hafi sýningarmönnum verið úthlutað réttindaskírteinum sínum.
 
 Að undanförnu hefur stjórn félagsins aflað upplýsinga um kjör sýningarmanna, sem víðast á landinu, samkvæmt ákvörðun næstsíðasta aðalfundar félagsins. En mikill áhugi hefur verið fyrir því að samræma kaup sýningarmanna á öllu landinu, og eins hefur tvívegis verið leitað til félagsins, af hálfu kvikmyndahúsaeigenda, og spurst fyrir um hvort félagið hefði ekki kauptaxta. Á aðalfundi félagsins, 26. mars sl., skýrði stjórnin frá athugunum sínum og samkvæmt þeim samþykkti fundurinn lágmarkskauptaxta, sem stjórninni var falið að tilkynna forstjórum allra kvikmyndahúsa landsins.
 
Kauptaxti þessi var samræming á kaupi sýningarmanna og samhljóða því kaupi sem víðast var greitt. Sýningarmenn töldu öll rök mæla með því að starf sýningarmannsins væri vel launað, enda væri vinnutíminn mikill og bundinn við kvöld- og helgarvinnu, þegar allur almenningur átti jafnan frí.
Þá skal einnig haft í huga, að flest kvikmyndahús landsins gengu gríðarlega vel, nær allar sýningar voru vel sóttar og sýningarmenn sáu það mikla fjármagn sem streymdi inn í sjóði kvikmyndahúsanna. Sumir höfðu jafnvel þann starfa að veita innkomu dagsins viðtöku af miðasölufólki og koma því í öruggar hirslur. Sjóðstreymið fór því varla framhjá mönnum.
 Í kauptaxtanum var miðað við skiptingu íslenskra sýningarmanna í tvo flokka, annars vegar atvinnusýningarmenn og hins vegar hlaupavinnumenn.
 Í fyrri flokknum voru sýningarmenn í Reykjavík og Hafnarfirði, en í seinni flokknum íhlaupamenn á landsbyggðinni sem ýmist voru með ákveðinn eða óákveðinn vinnutíma.
Samkvæmt kauptaxtanum átti vinnuvika atvinnusýningarmanns að vera 36 vinnustundir að hámarki í viku hverri. Byrjunarlaun, að afloknu námi, áttu að vera kr. 650,- á mánuði, 750,- kr. eftir tveggja ára samfleytt starf og 850,- kr. væri sýningarstjórn einnig á ábyrgð viðkomandi.
Laun hlaupavinnumanna áttu hins vegar að miðast við unnar vinnustundir og skyldi grunnlaun þeirra vera sex krónur á klukkstund og skyldi hver hafin klukkustund reiknast sem heil. Þannig yrði kvikmyndasýning sem t.d. tæki 80 mínútur ígildi tveggja klukkustunda vinnu fyrir íhlaupavinnumann í sýningarstörfum, eða sem samsvarar tólf krónum í launum.
Í þessum fyrstu drögum F.S.K. að eiginlegum kauptaxta fyrir félagsmenn var einnig gert ráð fyrir einum frídegi í hverri viku fyrir atvinnumenn og fjórtán daga sumarleyfi á ári hverju fyrstu fimmtán starfsárin. Eftir það skyldu menn fá 21 virkan dag í sumarleyfi á ári.
Ekki var gert ráð fyrir launuðum frídögum fyrir hlaupavinnumenn, heldur skyldu þeir fá greitt orlofsfé, 4% af kaupi sínu með vísitölu.
Kauptaxtakröfur sýningarmanna voru mikil tíðindi og ekki síður skilgreining þeirra á starfinu sjálfu. Þar kom nefnilega fram þrengri skilgreining en hjá mörgum kvikmyndahúsaeigendum, sem sumir hverjir töldu sýningarmenn aðeins hluta af starfsliði bíóanna og vildu sem minnst vita af réttindabaráttu þeirra, kjaraharki og stéttarvitund.
Í bréfi F.S.K. til forstjóranna var starfi sýningarmanna skipt í fjóra meginþætti og að mestu miðað við þá skilgreiningu sem fram kom strax í fyrstu lögum félagsins. Í fyrsta lagi skildi sýningarmaðurinn þannig sjá um uppspólun filmunnar fyrir sýningu eða prufu og viðgerð hennar, gerðist þess þörf. Í öðru lagi ætti sýningarmaður að annast prófun og sýningu kvikmyndanna, í þriðja lagi afspólun filmunnar að aflokinni sýningu eða prufu og í fjórða lagi smurningu og gæslu sýningarvéla og tóntækja.
Var þess sérstaklega getið, að yrði um önnur störf að ræða, skyldi um það sérstaklega samið við viðkomandi kvikmyndahús.