Reglugerð sjúkrasjóðs

Rafiðnaðarsambands Íslands

1. kafli, nafn og hlutverk

1. gr.

Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Rafiðnaðarsambands Íslands. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík, en starfssvæði hans er allt landið.

2. gr.

Aðildarfélög Rafiðnaðarsambands Íslands eru eigendur sjóðsins. Sjóðurinn er sameiginlegur fyrir alla félagsmenn Rafiðnaðarsambands Íslands sem fullnægja ákvæðum reglugerðar þessarar.

3. gr.

Hlutverk sjóðsins er að greiða bætur til sjóðfélaga í slysa- og veikindatilfellum eftir því sem nánar er mælt fyrir í reglugerð þessari. Ennfremur að styrkja þá sjóðfélaga sem verða óvinnufærir sökum örorku. Sjóðurinn skal taka þátt í útfararkostnaði sjóðfélaga. Sjóðurinn skal ennfremur vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum sem snerta öryggi og heilsufar sjóðfélaga.

2.kafli, réttur til bóta

4.gr.

Rétt til bóta eða styrks úr sjóðnum á það félagsfólk. Rafiðnaðarsambands Íslands sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:

  1. Fullgilt félagsfólk samkvæmt félagslögum og greidd hafa verið tilskilin gjöld af til sjóðsins í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en styrkveiting fer fram.
  2. Heimilt er að láta rétt til styrkja ekki skerðast hjá félagsmanni þrátt fyrir að greiðslur falli niður í allt að 3 mánuði samfellt hafi viðkomandi félagsmaður greitt iðgjöld samfellt í 36 mánuði þar á undan.
  3. Heimilt er að óska eftir að gera hlé á greiðslum í sjúkrasjóð sambandsins allt að fjórum árum vegna t.d. náms, án þess að tapa niður þeim ávinningi sem þegar er fyrir hendi, hafi viðkomandi greitt til sambandsins í a.m.k. tvö ár. Þetta þarf að gera skriflega og er háð samþykki. Hefjist greiðslur ekki á ný innan þess tíma sem sótt er um, þá falla réttindi viðkomandi niður.
  4. Þeir sem öðlast hafa rétt til greiðslu úr sjúkrasjóði aðildarfélags ASÍ á s.l. tveimur árum ávinna sér fullan rétt í sjóðnum um leið og iðgjaldagreiðslur í sjóðinn hefjast.
  5. Iðnnemar, sem greitt hefur verið iðgjald af samkvæmt kjarasamningum og landslögum.
  6. Vinna tímabundið í öðrum starfsgreinum og greiði til sjóðsins 1% af launum sínum auk iðgjalds samkvæmt 16. gr. b)-lið, enda greiði þeir þá ekki til annars sjúkrasjóðs aðildarfélags ASÍ.
  7. Ellilífeyris- og örorkuþegar sem notið hafa fullra réttinda í sjóðnum við starfslok skulu njóta eftirfarandi réttinda.
    Réttur til styrkja helst í 5 ár eftir að viðkomandi hættir á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku hafi viðkomandi verið virkur og greiðandi félagi í 5 ár þar á undan. Annars eiga þeir rétt til styrkja í 3 mánuði frá starfslokum.
  8. Félagsfólk Samtaka atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði sem greitt er af í sjóðinn samkvæmt sérstökum samningi milli SART og RSÍ dags. 16. mars 1999.
  9. Stjórn sjóðsins getur ákveðið hlutfallslegar greiðslur úr sjóðnum til þeirra sem uppfylla að hluta ákvæði þessarar greinar.
    Heimilt er að skerða styrki í hlutfalli við starfshlutfall félagsfólks. Fullt starf er miðað er við lágmarkstaxta kjarasamnings viðkomandi. Hjá einyrkjum er fullt starf miðað við lágmarksgjald sem RSÍ ákveður hverju sinni.
  10. Fullgilt félagsfólk sem fer til vinnu á Norðurlöndum og hafa greitt í Rafiðnaðarsamband viðkomandi lands, skulu við heimkomu njóta fullra réttinda hjá RSÍ að því tilskildu að greiðslur iðgjalda hefjist eigi síðar en þremur mánuðum frá síðustu greiðslu í norræna félagið. Viðkomandi félagi þarf að leggja fram staðfestingu frá því félagi sem hann greiddi til á Norðurlöndum.
  11. Telji sjóðfélagi að hann hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð hvað varðar umsókn til sjóðsins, sem fellur undir heimildarákvæði reglugerðar Sjúkrasjóðsins, er honum heimilt að vísa umsókn sinni til miðstjórnar RSÍ.
5. gr.

Bætur eða styrkir greiðast ekki þeim sjóðfélögum sem:

Ekki hafa greitt félagsgjald í þrjá mánuði eða lengur, nema um veikindi sé að ræða, ef þeir skulda þriggja mánaða gjald eða meira, og öðlast þeir ekki rétt sinn á ný, fyrr en þeir hafa greitt skuld sína að fullu.

Sjálfum ber að greiða gjald til sjóðsins, ef þeir skulda þriggja mánaða gjald eða meira, og öðlast þeir ekki rétt sinn á ný, fyrr en þeir hafa greitt skuld sína að fullu.

Halda óskertu kaupi í veikinda- og slysatilfellum.

Fá samsvarandi bætur frá Tryggingastofnun ríkisins eða tryggingarfélagi vegna trygginga atvinnurekenda.

3. kafli, reglur um bætur

6.gr.

Eitt bótatímabil í reglugerð þessari samsvarar 120 dögum. Upphæðir í reglugerð þessari eru miðaðar við 1. janúar 2023 og fylgja neysluvísitölu og breytast 1. janúar og 1. júlí ár hvert.

7. gr.

Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:

  1. Dagpeningar greiðast frá þeim tíma að lögboðinni eða samningsbundinni kaupgreiðslu frá atvinnurekanda lýkur. Endurnýja þarf umsókn um dagpeninga við lok bótatímabils vari veikindi áfram. Framkvæmdastjórn sjóðsins metur hvort dagpeningar eru greiddir lengur en eitt bótatímabil og hvaða dagpeningar eru þá greiddir.
  2. Upphæð dagpeninga skal tryggja 80% af meðallaunum viðkomandi síðustu fimm mánuði fyrir veikindi, samkvæmt iðgjaldayfirliti til Sjúkrasjóðs. Hafi verulegar breytingar orðið á launum viðkomandi yfir þetta fimm mánaða tímabil er heimilt að lengja viðmiðunar tímann í allt að 10 mánuði. Mánaðarleg greiðsla samkvæmt þessari reglu getur þó ekki numið hærri upphæð en kr. 1.105.009,
  3. Sjúkra- eða slysadagpeningar Sjúkratrygginga Íslands skerða ekki dagpeninga sjóðsins.
  4. Vegna langvarandi veikinda maka eða barna enda missi sjóðfélagi launatekjur vegna þeirra. Eftir nánari ákvörðun sjóðstjórnar hverju sinni. Sé um veikindi barna að ræða og réttur samkvæmt kjarasamningi verið fullnýttur og maki eigi ekki tök á að annast barnið. Vegna veikinda maka skal við það miðað að launamissir vegna veikinda hafi staðið í a.m.k. 2 vikur.
  5. Heimilt er sjóðstjórn að greiða hluta dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna sjúkdóms eða slyss stundað fulla vinnu. Dagpeningar greiðast ekki meira en eitt bótatímabil (120 daga) þegar um varanlega örorku eða þegar um starfslok er að ræða vegna aldurs.
    Þá greiðir bótaþegi félagsgjald til viðkomandi stéttarfélags.
  6. Dagpeningar skv. grein þessari greiðast ekki vegna bótaskyldra slysa og atvinnusjúkdóma, þ.m.t. bifreiðaslysa, ef fyrir liggur við umsókn bóta að bætur greiðist skv. skaðabótalögum. Leiki vafi á um skaðabótaskyldu vegna vinnuslyss getur sjúkrasjóður ákveðið greiðslu til sjóðfélaga og áskilið sér rétt til endurgreiðslu ef síðar kemur í ljós að tjón reynist skaðabótaskylt.
8. gr.

Dagpeningar samkvæmt 7. gr. reiknast frá og með fyrsta degi eftir að lög- og samnings­bundnum greiðslum atvinnurekenda lýkur, enda sé bótatímabil eigi skemmra en 3 dagar eftir að framangreindum greiðslum atvinnurekenda sleppir. Bætur greiðast í einu lagi eftir á, síðasta virka dag hvers mánaðar. Umsóknir þurfa að hafa borist fyrir 20. hvers mánaðar til að þær fáist greiddar um næstu mánaðrmót. Bætur sjóðsins mega þó aldrei vera hærri en sem nemur launamissi. Í þessu sambandi reiknast með aðrar bætur sem sjóðfélagi kann að fá í hverju tilfelli.

9. gr.

Við andlát sjóðfélaga skal greiða:

  • Eingreiddar dánarbætur við andlát virks og greiðandi sjóðfélaga eru 500.000.- krónur. Dánarbætur renna til dánarbús hins látna, enda hafi viðkomandi verið sjóðfélagi í a.m.k. 6 mánuði þegar andlát hans bar að höndum.
  • Aðrar dánarbætur – sjóðfélagar hættir störfum vegna aldurs/örorku. Við andlát félaga, sem ekki er á vinnumarkaði en var sjóðfélagi við starfslok, er stjórn sjóðsins heimilt að greiða til dánarbús hins látna hluta dánarbóta.
    Skilyrði greiðslu skv. þessum lið er að hinn látni hafi verið sjóðfélagi samfellt síðustu 5 ár fyrir starfslok vegna aldurs/örorku, þ.e. var síðast félagi aðildarfélags innan RSÍ*. Greiðsla til eftirlifandi maka eða barna innan 18 ára aldurs skal vera að hámarki kr. 250.000. Stjórn sjóðsins hefur heimild til þess að greiða hluta dánarbóta til annarra lögerfingja sem kosta útför hins látna, að hámarki kr. 166.700.
    *Stjórn sjóðsins hefur heimild til að meta aðildarsögu félaga til lengri tíma ef félagi var síðast félagi aðildarfélags innan RSÍ.
  • Greiða eingreiddar dánarbætur eftirlifandi maka eða forráðamanni barna félaga fyrir eitt barn undir 18 ára aldri á framfæri viðkomandi kr. 1.409.494 .-
    og kr. 704.747.- með hverju barni eftir það. Heildarupphæð deilist jafnt á hvert barn.

Heimilt er að greiða vegna barna allt til 21 árs aldurs, enda hafi viðkomandi barn sannanlega verið á framfæri sjóðfélaga og ekki á vinnumarkaði.

Breytingar á upphæð eingreiddra dánarbóta miðast við neysluvísitölu og taka breytingum 1. janúar og 1. júlí ár hvert.

10. gr.

Heimilt er í sérstökum tilfellum að veita styrk verði heimili sjóðfélaga fyrir miklum útgjöldum vegna veikinda, slyss eða andláts.

Heimilt er sjóðnum að taka þátt í kostnaði sjóðfélaga vegna sjúkrahúsdvalar eða læknis­aðgerðar fjölskyldumeðlims, sem sækja verður út fyrir heimabyggð og Sjúkratryggingar Íslands greiða ekki.

Heimilt er að veita styrki vegna heilsutengdra forvarnaaðgerða, sjúkraþjálfunar og líkams­ræktar félaga.

Félagsfólk á rétt á styrk vegna þessa hafi viðkomandi greitt tilskilin gjöld til sjóðsins í samfellt 6 mánuði áður en styrkveiting fer fram.

Heimilt er að styrkja félagsfólk til kostnaðarsamra læknisaðgerða.

Styrkur er metinn hverju sinni en verður þó ekki hærri en 40% af útlögðum kostnaði, hafi kostnaður verið hærri en kr. 100.000, og aldrei hærri styrk en kr. 110.000.

Heimilt er að styrkja félagsfólk vegna frjósemisaðgerða.

Greitt er 40% af kostnaði og hámark styrks er kr. 160.000. Styrkur er veittur allt að fjórum sinnum.

Heimilt er að veita styrk vegna fæðingar barns félaga.

Styrki samkvæmt þessari reglu er að jafnaði ekki hægt að veita sama félagsmanni nema með þriggja ára millibili.

Sjóðnum er heimilt að standa að kaupum á hóptryggingu fyrir sjóðfélaga.

11. gr.

Miðstjórn skal setja framkvæmdastjórn sjóðsins nánari starfsreglur um bótaflokkana og afgreiðslu þeirra.

12. gr.

Geisi skæðar farsóttir, getur stjórn sjóðsins leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðsstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

4. kafli, umsóknir og afgreiðsla bóta

13. gr.

Sá sem óskar greiðslu úr sjóðnum samkvæmt 7. gr. og uppfyllir skilyrði 4. gr. skal leggja fram skriflega umsókn til sjóðsins ásamt læknisvottorði, reikningum fyrir ferðakostnaði og upplýsingum um hvenær samningsbundinni eða lögbundinni launagreiðslu atvinnurekanda lauk. Læknisvottorði skal fylgja yfirlýsing læknis um hvenær hann telur umsækjanda verða starfshæfan á ný, eða hvenær hann hafi orðið það.

Sjóðstjórn getur leitað álits um heilsufar sjóðfélaga hjá trúnaðarlækni vegna bótaréttar.

Réttur til styrks úr sjóðnum fyrnist sé hans ekki vitjað innan 12 mánaða frá því bótaréttur skapaðist.

5. kafli, stjórn sjóðsins

14. gr.

Miðstjórn Rafiðnaðarsambands Íslands fer með stjórn sjóðsins. Miðstjórn skipar þriggja manna framkvæmdastjórn er annist um daglegan rekstur sjóðsins í samvinnu við skrifstofu sambandsins.

6. kafli, fjármál sjóðsins

15.gr.

Tekjur sjóðsins eru:

  1. Iðgjöld atvinnurekenda samkvæmt samningum, a.m.k. 1% af heildarlaunum sjóðfélaga.
  2. Iðgjöld sjóðfélaga eins og þau eru ákveðin á þingi Rafiðnaðarsambands Íslands eða sambandsstjórnarfundum.
  3. Aðrar tekjur sem til kunna að falla.
16. gr.

Heimilt er að ávaxta fé sjóðsins með eftirfarandi hætti:

  1. Í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs og í skulda bréfum tryggðum með öruggum fasteignaveðum.
  2. Með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum þó ekki hærra en sem nemur 5% af tekjum fyrra árs.
  3. Í bönkum eða sparisjóðum.
  4. Á annan þann hátt sem stjórn sjóðsins metur tryggan, er í samræmi við hlutverk sjóðsins og veitir jafn góða ávöxtun og samkvæmt liðum 1. til 3.
  5. Með lánum til aðildar félaga sambandsins til félagslegrar uppbyggingar sem veita jafn góða ávöxtun og samkvæmt liðum 1. til 3.

Ávallt skal þess gætt að ráðstöfun fjármuna sjóðsins sé í samræmi við hlutverk hans.

17. gr.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið og skulu reikningar hvers árs lagðir fyrir sambandsstjórn en hún leggur þá síðan fyrir reglulegt þing sambandsins til fullnaðarafgreiðslu.

Reikningshaldi sjóðsins skal haldið aðskildu frá reikningshaldi annarra sjóða RSÍ.

Reikningarnir skulu vera áritaðir af skoðunarmönnum RSÍ og löggiltum endurskoðanda.

Skoðunarmenn og löggiltur endurskoðandi skulu vera þeir sömu og fyrir aðra sjóði RSÍ.

18. gr.

Fyrir hvert reglulegt þing sambandsins, að minnsta kosti, skal stjórn sjóðsins fá tryggingafræðing til að meta framtíðar stöðu sjóðsins og semja skýrslu til stjórnar um athugun sína.
Við mat á stöðu sjóðsins skal tilgreina rekstrarkostnað, ávöxtun sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.
Geti sjóðurinn ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt niðurstöðu úttektarinnar ber stjórn sjóðsins að leggja fyrir þing RSÍ eða sambandsstjórn samkvæmt 21. gr. tillögur sem tryggja að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

7. kafli, breytingar á starfsemi sjóðsins

19.gr.

Ekki má slíta sjóðnum nema tillaga um slíkt hafi verið samþykkt að undangenginni allsherjaratkvæðagreiðslu meðal sjóðfélaga og þarf tillagan að vera samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða og a.m.k., sama hlutfall sjóðfélaga tekið þátt í atkvæðagreiðslunni. Verði samþykkt að slíta sjóðnum, skal eigum hans skipt hlutfallslega milli aðildarfélaga Rafiðnaðarsambands Íslands.

20. gr.

Reglugerð þessari verður aðeins breytt á reglulegum þingum sambandsins eða sambandsstjórnarfundum, með 2/3 greiddra atkvæða enda hafi tillögur til breytinga áður verið ræddar á fundum í aðildarfélögum sambandsins.

Reglugerðin þannig samþykkt af þingi Rafiðnaðarsambands Íslands sem haldið var 4.-6. maí 2023.