Nokkur grundvallaratriði um gerð fyrirtækjasamninga:

Í kjarasamningum er dagvinnutímabil skilgreint og við ráðningu starfsmanns er dagvinnutími staðfestur. Vinnutími sem fellur utan hans er yfirvinnutími. Til að breyta dagvinnutíma starfsmanns þar að segja honum upp skv. uppsagnarfresti.

Flutningur á dagvinnutímabili

Hægt er að gera fyrirtækjasamning um flutning á dagvinnutímabili sem er þá nokkurs konar vaktavinnusamningur og á þá að greiða vaktaálag, sem grundvallast á hversu mikið á að hliðra til dagvinnutímabilum. Gera verður samning um þetta og hann verður að vera innan marka gildandi kjarasamnings, í honum þurfa að vera ákvæði um innan hvaða marka tilfærslan eigi að vera og með hversu löngum fyrirvara vinnuveitandi þurfi að tilkynna færslu á dagvinnutímabili. Það getur ekki skeð fyrirvaralaust, ef það er gert þá á að greiða yfirvinnuálag. Eðlilegt er að a.m.k. í byrjun mánaðar sé ljóst hvernig vinnufyrirkomulag verður út þann mánuð.

Hér á eftir er sýnt dæmi um hvernig reikna má út hve mikið dagv.tímalaun hækka að lágmarki sé samið um flutning á dagvinnutímabili. Algengast er að fastur vinnutími í vinnuvikunni sé 40 dagv.t. og 8 yfirv.t. Vinnudagurinn hefst oftast kl. 8.00 og lýkur þá kl 18.00 en kl. 16.00 á föstudögum. Ef mögulegt á að vera að færa vinnutímann um einn tíma á einhverjum tímabilum t.d. til kl. 9.00 – 19.00, þá eiga laun á þeim tímabilum, að vera hærri sem svarar mismun á einni yfirvinnuklst. og dagv.klst. Það er verið að skipta á dagv.st. frá kl. 8.00 – 9.00 fyrir yfirv.st. frá kl. 18.00 – 19.00.

(Við skulum gefa okkur að dagv.taxti sé kr. 1.000 og yfirv. 1.800)

Mism. á dagv.st. og yfirv.st. er 1.800 – 1.000 = 800 kr. Þessari upphæð þarf að bæta inn í launin þann tíma sem tilfærsla á sér stað og er í raun vaktaálag.

Algengast er á almennum vinnumarkaði rafiðnaðarmanna, að samið sé um meðalkaup fyrir fast vinnutímabil eins og t.d. hér að ofan. Við skulum hugsa okkur að vinnuveitandi vilji hafa möguleika á að flytja dagvinnutímabilið á ofangreindan hátt fyrirfram ákveðnar 10 vikur á ári, þá verður meðalkaupið :

Vikudagv.l. eru 40.000 + 8 yfirv.st. x 1.800 = 54.400 kr. eru föst laun fyrir vinnuvikuna
800 x 5 klst. x 10 vikur = 40.000 kr. á ári.

40.000 / 46 vinnuv. á ári = 869.56 + 54.400 = 55.269.56 kr. föst vikulaun allt árið /48 klst. = 1.151.50 kr. í meðallaun. Yfirvinnulaun umfram 48 klst. á viku eru kr. 1.800.-

Vinnutími þessa starfsmanns er því kl. 8.00 – 18.00 og til 16.00 föstudaga í 36 vikur á ári og kl. 9.00 – 19.00 og til 17.00 föstudaga í 10 vikur. Öll vinna sem fellur utan þessara tímabila á að greiðast með yfirvinnulaunum. Þær vikur sem upp á vantar í vinnuárið eru orlofsvikur og löghelgir frídagar. Ef semja á um víðtækari flutning á dagvinnutíma hækkar greiðslan í hlutfalli við fjölda tíma.

Sveigjanlegur vinnutími

Sumir vinnuveitendur telja sig getað flutt óunna vinnutíma milli tímabila, vikna eða mánaða. T.d. ef ofangreindur starfsmaður væri látinn vinna 30 stundir eina viku þá telja þeir sig eiga inni hjá starfsmanni 18 tíma á meðallaunum og geti látið hann vinna t.d. 48 + 18 tíma næstu viku eða einhvertíma seinna án þess að þurfa að greiða yfirvinnulaun. Það er með öllu óásættanlegt og gefur vinnuveitendum margskonar möguleika til þess að hafa af starfsmönnum sínum umsamin réttindi.

Vinnuveitanda stendur til boða vinnuframlag starfsmanns á umsömdu tímabili gegn endurgjaldi. Vilji hann ekki eða geti ekki nýtt sér þann tíma, þá verður það ekki til þess að hann eignist innstæðu hjá starfsmanni sínum. Það að yfirvinnulaun eru 80% hærri en daglaun er sektarákvæði til þess að stuðla að því að vinna fari sem mest fram á dagvinnutímabili.

RSÍ gekk úr Karphúsinu þann 6. marz 1997. og sleit öllum viðræðum við VSÍ, þar til kröfur af þessu tagi hefðu verið teknar út af samningaborðinu. Á það var fallist af hálfu VSÍ og samningar tókust 2 dögum síðar. Hér er um að ræða ófrávíkjanleg lágmörk sem eru í öllum kjarasamningum RSÍ.

Í fyrirtækjasamningum og einstaklingssamningum hefur verið samið um alls konar útfærslur á vinnutíma. En grundvallaratriði er að reikna út hversu mikið meðallaun verða að hækka. Sveigjanleikinn verður oftast til þess að yfirvinna tapast. Hversu mikið tapast og hve mikið eiga þá launin að hækka til þess að starfsmaður fái rétt endurgjald fyrir sitt vinnuframlag. Fyrirtækin reyna oft að skipta á yfirvinnutíma fyrir frí í einn dagvinnutíma, það er brot á kjarasamningi, sjá síðasta samning RSÍ.

Oft vantar inn í launaútreikninga endurgjald vinnuveitanda fyrir þau óþægindi sem sveigjanleikinn veldur starfsmanni (hér getur skapast vandræði með að ná í börnin í skóla, koma þeim í tónlistaskóla eða á íþróttaæfingu), einnig á starfsmaður rétt á hærri launum vegna þess hagræðis sem þetta fyrirkomulag er fyrirtækinu og hækkun þjónustustigs.

Flutningur á orlofi

Vinnuveitendur hafa í auknum mæli sótt á um að hluti orlofs sé fluttur út fyrir umsaminn orlofstíma án endurgjalds og vilja setja það inn í fyrirtækjasamninga. Föst venja er að allt orlof sem flutt er út fyrir umsaminn orlofstíma sé lengt um fjórðung. Algengt er í kjarasamningum rafiðnaðarmanna að búið sé að stytta sumarorlof um 3 daga úr 27 í 24 og í stað þess fái starfsmaður viku orlof að vetri. Engin ástæða er fyrir starfsmann að sætta sig að orlofstími sé fluttur út fyrir umsamið orlofstímabil, án þess að fyrir það komi endurgjald fyrirtækis og reyndar er það brot á kjarasamningi. Hér er um aukið hagræði innan fyrirtækis að ræða og starfsmaður á allan rétt á því að njóta þess í hærri launum.

Ráðningarsamningar og fyrirtækjasamningar um aukið hagræði

Af marggefnu tilefni hvetjum við félagsmenn okkar að gera alltaf skriflega ráðningarsamninga þar sem öll launa- og starfskjör koma greinilega fram. Í kjarasamningum er kveðið á um skyldu til að gera ráðningarsamninga. Við viljum einnig minna á margítrekaðar yfirlýsingar forystumanna vinnuveitenda um að starfsfólk fyrirtækja eigi að geta náð verulegum launahækkunum út í fyrirtækjunum með því að taka höndum saman við viðkomandi fyrirtæki um að auka hagræðingu og auka þjónustustig.

Ef starfsmenn ljá máls á ofantöldum atriðum, þá eru þeir að auka hagræði innan fyrirtækisins og eiga rétt á endurgjaldi fyrir það, umfram þær tilfærslur sem verða á milli yfirvinnu- og dagvinnulauna. Ef fyrirtækið vill ekki greiða fyrir aukið hagræði, þá er engin ástæða að bregða frá ákvæðum í almennum kjarasamningi.

Einnig er rétt að ítreka það að í samningi um ofantalin atriði, verða að vera ákvæði um með hvaða fyrirvara fyrirtækið verður að tilkynna tilfærslur á vinnutíma, útilokað er að samþykkja fyrirvaralausar tilfærslur.

  • Rafiðnaðarsamband Íslands hvetur félagsmenn að ráðfæra sig alltaf við starfsfólk sambandsins ef þeir standa í viðræðum um fyrirtækjasamninga.
  • Samkvæmt lögum er óheimilt að semja um lakari kjör en eru í löglega gerðum kjarasamningum. Fyrirtækjasamningar eða einstaklingskjarasamningar sem í eru ákvæði sem fela í sér lakari kjör en eru í almennum kjarasamningum RSÍ, leysa aðila ekki frá hugsanlegum bakkröfum.
  • Hér á öðrum stað á heimasíðunni eru hvernig reikna eigi út laun ef einstaklingar gera svokallaða undirverktakasamninga (gerviverktakasamninga). Allt er þetta í góðu lagi, bara svo framarlega að þú sért ekki að semja af þér.
  • Umsamin réttindi þín er árangur áratuga baráttu félaga þinna í stéttarfélögunum oft á tíðum eftir löng verkföll. Þú hefur ekkert leyfi til þess að fleygja þeim frá þér án þess að til komi endurgreiðsla fyrir, með því ertu að svíkja þá og lækka launin þín að óþörfu.

Var efnið hjálplegt?