Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof launafólks komu að stærstum hluta til framkvæmda 1. janúar 2001. Þessi lög marka tímamót varðandi rétt foreldra, einkum feðra, til orlofs vegna fæðinga barna. Markmið laganna er að tryggja barninu samvistir bæði við föður og móður og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Starfsmaður á rétt á að taka fæðingarorlof í einu lagi en lögin gera ráð fyrir þeim möguleika að orlofið verði sveigjanlegt. Kjósi foreldrar heldur að taka fæðingarorlof á fleiri en einu tímabili eða í hlutastarfi er það heimilt, samþykki vinnuveitandi það. Þó má aldrei taka fæðingarorlof skemur en viku í senn.
Tilkynningin til vinnuveitanda verður að vera skrifleg. Þar skal tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd þess og tilhögun og áætlaða skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldranna. Vinnuveitandi á að árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar
Foreldrar geta sótt um greiðslur í fæðingarorlofi í Fæðingarorlofssjóð. Til að öðlast rétt til greiðslna þarf foreldri að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þessi réttur tekur til starfsmanna sem eru í a.m.k. 25% starfshlutfalli á mánuði og jafnframt til sjálfstætt starfandi foreldra sem starfa við eigin rekstur.
Ekki skal draga frá þann tíma sem starfsmaður hefur verið í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningum eða ráðningarsamningi jafnvel þó sá tími hafi verið ólaunaður að hluta eða að öllu leyti. Þá á að taka til greina starfstíma í öðrum EES-ríkjum hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á síðustu sex mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Sækja þarf um greiðslu í fæðingarorlofi til Tryggingastofnunar í síðasta lagi sex vikum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Umsóknin skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun og skiptingu sameiginlegs fæðingarorlofs milli foreldra. Umsóknin á að vera undirrituð af tilvonandi móður og föður, enda fari bæði með forsjá barnsins.
Á vef ASÍ er að finna ítarlegar upplýsingar um fæðingarorlof og öll nauðsynleg eyðublöð
Mánaðarleg greiðsla til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna hans miðað við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skal miða við meðalheildarlaun yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 50–100% starfi skal aldrei vera lægri en 74.867 krónur á mánuði og greiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25–49% starfi skal aldrei vera lægri en 54.021 króna á mánuði.
Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs sem er ekki framseljanlegur. Foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði. Meginreglan er að foreldri eigi rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi en með samkomulagi við vinnuveitanda er heimilt að haga foreldraorlofi með öðrum hætti.
Starfsmaður sem ætlar að nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins. Tilkynningin skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Vinnuveitandi skal árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar.
Ráðningarsamband helst óbreytt á meðan starfsmaður er í fæðingar- eða foreldraorlofi og á hann rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að því loknu. Fæðingar- og foreldraorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, s.s. rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, við mat á rétti til starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og réttar til atvinnuleysisbóta.
Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslu í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður greiðir að lágmarki 6%. Foreldri getur að auki greitt í séreignasjóð (allt að 4%) og greiðir þá Fæðingarorlofssjóður lögbundið framlag á móti.
Þungaðar konur, konur sem nýlega hafa alið barn eða eru með barn á brjósti eiga rétt á því að láta meta hugsanlega áhættuþætti í vinnuumhverfi, vinnuaðstæðum eða skipulagi vinnunnar. Ef öryggi konu er í hættu samkvæmt mati skal vinnuveitandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi hennar með því að breyta tímabundið vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma. Ef því verður ekki við komið af tæknilegum eða öðrum gildum ástæðum skal vinnuveitandi fela konunni önnur verkefni en að öðrum kosti veita henni leyfi frá störfum í svo langan tíma sem nauðsynlegt er til að vernda öryggi hennar og heilbrigði. Þær breytingar, sem teljast nauðsynlegar á vinnuskilyrðum og/eða vinnutíma hennar skulu ekki hafa áhrif á launakjör hennar til lækkunar eða önnur starfstengd réttindi. Ef veita þarf þungaðri konu leyfi frá störfum samkvæmt þessu ákvæði á hún rétt á sömu greiðslum og væri hún í fæðingarorlofi án þess að fæðingarorlof skerðis.