Fréttir frá 2010

01 15. 2011

Ályktun um rafmagnsöryggismál

Á fundi miðstjórnar og samninganefnda Rafiðnaðarsambands Íslands þann 14. janúar 2010 var fjallað um rafmagnsöryggismál á fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli.

 

 

Þann 12. nóvember 2007 voru sett á Alþingi fordæmislaus bráðbirgðalög þar sem kippt var úr sambandi löggiltum reglugerðum um rafmagnsöryggismál á  fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Í þeim lögum var eigendum og forráðamönnum bygginga á svæðinu heimilt að nota raflagnir og rafföng í þáverandi ástandi  til 1. október 2010.

 

Þessu var harðlega mótmælt af hálfu Rafiðnaðarsambands Íslands, þarna var löggjafinn að íhlutast með óeðlilegum hætti í þágu eins aðila, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, á kostnað rafmagnsöryggis. Getur byggingaraðili vænt sömu meðferðar? Getur stór aðili eins og t.d. Landsvirkjun vænt sömu meðferðar ef reistar verða stórar vinnubúðir? Þessar reglugerðir eru reyndar ekki allar á valdi íslenskra stjórnvalda, þær eru samkvæmt EES stöðlum sem íslenskt stjórnvöld geta ekki breytt og þeim grundvelli stenst þessi aðgerð alls ekki skoðun með vísan í almennar meginreglur um jafnræði. Setning bráðabirgðalaganna árið 2007 var að mati Rafiðnaðarsambands Íslands brot á skuldbindingum Íslands skv. samningnum um EES, sbr. lög nr. 2/1993.

 

Nú eru fyrrgreind bráðabirgðalög fallin úr gildi. Mannvirkjastofnun hefur ítrekað, en árangurslaust, gert öllum eigendum eða umráðamönnum bygginga á svæðinu grein fyrir því að eftir 1. október 2010 yrðu raflagnir bygginga á þeirra vegum að vera í samræmi við íslenskar reglur á rafmagnsöryggissviði.

 

Nú eru fjölmargir rafiðnaðarmenn atvinnulausir, auk þess að fjölmargir hafa flutt af landi brott og fleiri eru að undirbúa flutning. Það var óásættanlegt að þetta mál skyldi ná fram að ganga á sínum tíma, sama staða er uppi nú. Ljóst er að það væri hægt að ná mjög góðum samningum í dag til þess að ljúka þessum málum og um leið bæta töluvert úr erfiðu atvinnuástandi á Suðurnesjum.

 

Rafbúnaðurinn á Keflavíkurflugvelli er slysagildra fyrir fjölskyldur sem búa þar og sérstaklega fyrir rafiðnaðarmenn sem starfa við hann, þar sem nú eru tvö kerfi í gangi. Rafiðnaðarsamband Íslands ítrekar áður framsettar kröfur, að allur rafbúnaðurinn á varnarsvæðinu fullnægi íslenskum reglugerðum og áskilur sér jafnframt rétt til þess að beina kvörtun til Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til þess að knýja á um réttar efndir á samningnum um EES, sbr. lög nr. 2/1993, verði ekki ráðist tafarlaust í það verk að koma umræddum rafbúnaði á Keflavíkurflugvelli í eðlilegt horf.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?