Fréttir frá 2010

12 10. 2010

Kröfur rafiðnaðarmanna og launaþróun.

Á fundi miðstjórnar í gær fimmtud.9. des. með stjórnarmönnum og trúnaðarmönnum var farið yfir stöðuna í undirbúningi vegna kjaraviðræðna.

Nú er komið fram að það er takmarkaður áhugi á sameiginlegum viðræðum. Félög opinberra starfsmanna og kennara hafa í vikunni lýst því yfir að þau muni ekki taka þátt í samstarfi.

 

Í niðurstöðum 100 manna trúnaðarmannaráðstefnu RSÍ nýverið, kom fram að meirihluti vildi semja sér og til minna en eins árs. En menn töldu að ef fram kæmu samningstilboð til lengri samnings í samfloti við aðra, væri ekki hægt að hafna honum fyrirfram.

 

Sé litið til heildarhagsmuna samfélagsins er langtímasamningur bestur, en þá þurfa allir að starfa af heilindum og traust ríkja milli aðila. Ef rafiðnaðarmenn eiga að koma að sameiginlegu borði við gerð langtímasamnings, verður að laga samskipti við stjórnvöld og tryggja vel að umsaminn atriði standi. Tryggja verður meiri stöðugleika og tryggja kaupmátt. Svipuð sjónarmið hafa komið fram frá öðrum samböndum iðnaðarmanna.

 

Helstu atriði sem rafiðnaðarmenn setja í kröfugerð er að launahækkanir nái til allra. Bæta má stöðu þeirra lægst launuðu sérstaklega í gegnum skerðingarmörk bótakerfisins, og frekari tekjutengingar. Launatafla verði endurnúmeruð. Stöðva verður kennitöluflakk og vinna gegn svörtu hagkerfi. Lendi frídagur á löghelgum dögum komi frí í stað þess næsta mánudag. Aðfangadagur og gamlársdagur verði frídagur launamanna.

 

Auk þess að er RSÍ aðili að sameiginlegum kröfum sem samstarfsnefnd ASÍ hefur unnið. Þar er tekið á ýmsum atriðum er varða tryggingar stafsmanna, yfirvinnuálög, vaktavinnu og jöfnun lífeyrisréttinda.

 

Gögn frá Hagstofunni

Gestur á fundinum var Ólafur Darri hagfræðingur ASÍ. Hann var með nýtt yfirlit frá Hagstofunni yfir laun 7.500 félaga innan ASÍ. Þar kom m.a. fram að á þeim samningstíma sem nú er að renna út (sept. 2007 - sept. 2010) hafi

 

Laun innan ASÍ hækkað að meðaltali um 18%. Umsamdar lágmarkshækkanir voru tæplega 13%.

Laun iðnaðarmanna hækkað að meðaltali um 14%

Laun verkafólks hækkað að meðaltali um 23%, þar spila sterkt inn sérstakar hækkanir á lægstu töxtum. Enda halda þeir kaupmætti, á meðan hærri laun hafa hrapað.

 

Sé litið til launa rafiðnaðarmanna með sveinspróf í þessu úrtaki hjá Hagstofunni, þá eru niðurstöður mjög svipaðar og í nýbirtri launakönnum RSÍ. Meðalheildarlaun í gögnum Hagstofunnar eru um 466 þús. kr. og meðal regluleg laun eru um 330 þús. kr. Meðalheildarvinnutími rafiðnaðarmanna með sveinspróf er um 50 klst. á viku.

 

50% rafiðnaðarmanna eru með heildarlaun á milli 300 - 400 þús. kr. 5% eru með lægri heildarlaun. 20% eru með heildarlaun milli 400 - 500 þús. kr. 25% eru með hærri heildarlaun en 500 þús. kr.

 

Eins og allir þekkja þá eru það ekki kjarasamningar sem hafa mest áhrif á raunlaun okkar og kaupmátt, það er gengi krónunnar sem spilar þar mest inn.

Á þessu tímabili hefur kaupmáttur félagsmanna ASÍ fallið að meðaltali um 9,7%.

Kaupmáttur iðnaðarmanna fallið um 12.8%

Kaupmáttur millistjórnenda (sem eru margir innan RSÍ) fallið um 12.5%.

Kaupmáttur tæknifólks hefur fallið um 11.4%

Kaupmáttur skrifstofufólks fallið um 9.5%

Kaupmáttur verkafólks fallið um 6.3%

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?