Fréttir frá 2021

01 1. 2021

Nýárskveðja

Nyarskvedja 1300 400Kæru félagar,

Gleðilegt nýtt ár. Ég vil þakka fyrir samskiptin og samstarfið á árinu sem er nú liðið. RSÍ fagnar þeim tímamótum sem runnu upp undir lok árs 2020, nánar tiltekið þann 28. nóvember 2020 þegar 50 ár voru liðin frá því stofnfundur RSÍ hófst. Allar götur síðan hafa verið spennandi og krefjandi í starfinu. Þetta eru tímamót sem við fögnum innlega og við munum gefa okkur færi á að halda upp á afmælið þegar aðstæður leyfa.

RSÍ gaf út afmælisrit þar sem rætt var við forystusveit RSÍ og fjallað var um daginn í dag og horft fram á við. Það er ljóst að samstaðan og fjölbreytnin í hópi RSÍ skiptir sköpum í starfinu. Nýjustu félagar okkar innan sambandsins, félagar í Grafíu, hafa sannarlega styrkt okkur sem heild. Sóknarfæri fyrir okkur verða enn meiri þegar fram í sækir og munu verða sýnilegri þegar ástandið verður eðlilegra í heiminum.

Það dylst engum að nýliðið ár var ekki ár fjölmennra fundarhalda. Okkur gafst ekki færi á að halda hefðbundnu samtali við félaga með þeim hætti sem við hefðum viljað, hádegisfundir með mat og samtali, heimsóknir inn á vinnustaði og svo framvegis. Þrátt fyrir þessar aðstæður þá hefur okkur þó tekist að vinna að mikilvægustu verkefnunum á þessum tímum, þjónusta við félaga okkar, gerð kjarasamninga og ráðgjöf og aðgerðir þegar þörf hefur verið á. Á árinu hefur RSÍ greitt tæplega 400 milljónir í styrki og sjúkradagpeninga til félagsfólks. Auk þess hafa rúmar 70 milljónir hafa farið í ýmsa námskeiðsstyrki. Svona mætti lengi telja.  

Framundan er mjög spennandi ár, ár breytinga og ár tækifæranna. Nú þegar bóluefni er farið að berast er loks farið að sjá ljós í enda ganganna. Það er byrjað að bólusetja viðkvæmasta hópinn í samfélaginum, hvað veiruna varðar, íbúa elliheimila. Auk þess framlínustarfsfólk í heilbrigðisgeiranum þar sem óvissan er hvað mest. Við verðum hins vegar að hafa það í huga að þrátt fyrir að þetta ferli sé hafið þá þurfum við að átta okkur á því að þetta mun líklega taka einhverja mánuði og því þurfum við öll að taka höndum saman og passa upp á sóttvarnir. Við megum ekki slaka á fyrr en öryggið er tryggt.

Kæru félagar, á næstu vikum mun vinna halda áfram við að endurnýja þá kjarasamninga sem hafa runnið úr gildi á síðasta ári og þá samninga sem renna út á þessu nýja ári. Fyrst og fremst eru það stóriðjusamningar sem eru undir hvað þetta varðar. Viðræður eru í gangi við Alcoa Fjarðaál og kjarasamningur við ISAL rennur út um mitt ár og viðræður standa yfir við Samband Sveitarfélaga. Gerð kjarasamninga er meginverkefni í starfsemi RSÍ og er mjög umfangsmikið enda eru virkir kjarasamningar tæplega 30 talsins hjá RSÍ.

Á árinu heldur áfram undirbúningsvinna við næstu endurnýjun á öllum kjarasamningum. Endurskoðun kjarasamninga fer fram í september og kjarasamningar gilda til seinnihluta næsta árs, haldi þeir gildi sínu á árinu. Við erum í miðri á hvað varðar fjölmörg atriði í kjarasamningum. Í launakönnun RSÍ sem gerð var í október kom fram að hjá rúmlega helmingi félaga okkar hefur vinnutími þegar verið styttur en hjá um 2/3 hefur vinnutímastytting annað hvort verið framkvæmd eða er í undirbúningi. Það er því um 1/3 hluti félaga sem ekki hefur enn hafið vinnu við að stytta vinnutímann.

Í dag taka gildi nýjir launataxtar og laun hækka samkvæmt kjarasamningum. Lágmarkslaun sveina í rafiðngreinum eru í dag 454.756 kr fyrir mánuð. Lægsta tímakaup fyrir rafiðnaðarsvein er 2.842 kr frá og með 1. janúar 2021. Almenn launahækkun er 15.750 kr. Hvet ég félaga okkar til þess að fylgjast með því að launahækkanir skili sér og að greidd laun séu hærri en lágmarkslaun.

Árið 2021 verður án efa gott ár og eftirminnilegt. Ég vona að okkur takist vel til að halda faraldrinum í skefjum fyrri hluta ársins á meðan við erum að ná upp vörnum með bólusetningu landsmanna og heimsbyggðarinnar allrar. Ég óska ykkur því gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju ári, þakka öll samskptin og samstarfið á árunum sem eru að líða.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?