1mai mynd 2 1300x400

Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Við þessu er brugðist með útsendingu frá sérstakri skemmti-og baráttusamkomu sem flutt verður í Hörpu að kvöldi 1. maí og sjónvarpað á Rúv (kl. 19:40).

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar einkenna þennan viðburð sem verður að teljast sögulegur. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.

Þar sem engar verða kröfugöngurnar verður hægt að búa til sitt eigið kröfuspjald á Facebook og sýna stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmyndina sína 1. maí. Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á Rúv um kvöldið.

Að dagskránni í sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

bordar 1300x400 12Skrifstofunni berast töluvert margar fyrirspurnir vegna styttingar vinnuvikunnar. Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi er til þess að stytta vinnuvikuna. Í stuttu máli þá er mögulegt að stytta virkan vinnutíma niður í 36 dagvinnustundir á viku. Útfærslur á því hvernig þessar 36 vinnustundir eru útfærðar þarf að semja um á hverjum vinnustað fyrir sig en algengar leiðir eru að vinna 8 klst fjóra daga vikunnar og 4 klst einn dag, yfirleitt föstudagur. Þá hefur matartími víða verið styttur niður í 30 mínútur í stað 60 mínútna. Rétt er að vekja sérstaka athygli á upplýsingaefni vegna þessa sem hefur verið sett á heimasíðuna og má finna hér.

Rétt er að vekja sérstaka athygli að laun hækkuðu 1. apríl 2020 um að lágmarki 18.000 kr en þeir félagar okkar sem eru á lágmarkstöxtum hækkuðu um að lágmarki 24.000 kr. misjöfn upphæð eftir kjarasamningi. Þess ber að geta að lágmarkslaunataxti rafiðnaðarsveins á almenna kjarasamningnum hækkaði um 30.331 kr. 1. apríl og tímakaup hækkaði um 376 kr. Lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði eru því orðin  418.496 kr fyrir rafiðnaðarsvein. Launataxtar kjarasamnings RSÍ-SA/SART, sem gilda frá 1. apríl 2020, má sjá hér. 

Hvetjum við félaga RSÍ og aðildarfélaga til þess að fylgjast með því að launahækkun skili sér í næstu launaútborgun sem verður núna um mánaðarmótin.

Hvað varðar málefni sem unnið er að með stjórnvöldum þá hefur farið mikill tími í ýmsa vinnu þar í síðustu viku. Í vinnslu er pakki sem snýr að húsnæðismálum líkt og hefur komið fram í fjölmiðlum hjá félagsmálaráðherra. Gríðarlega mikilvægt er að haldið verði áfram á þeirri braut að tryggja fólki öruggt og viðráðanlegt húsnæði. Þess má geta að Bjarg íbúðafélag, sem ASÍ og BSRB standa að, hefur nú þegar komið 152 íbúðum í leigu og eru rúmlega 300 á byggingarstigi og tæplega 440 íbúðir í hönnunarferli. Þessu til viðbótar hefur markmið þeirra kjarasamninga sem gerðir voru fyrir ári síðan að ná lækkun á vaxtastigi hér landi náðst og gott betur. Næsta skref er að bjóða upp á leiðir til að auðvelda fyrstu kaup á íbúðum og gera má ráð fyrir að stórt skref verði stigið meðal annars með svokölluðum hlutdeildarlánum sem eru að breskri fyrirmynd. Afar mikilvægt er að stjórnvöld standi við yfirlýsingu sem gefin var út í tengslum við kjarasamningana hvað þetta varðar.

KÞS

rafidnadarsambandid2

Kæru félagar
 
Það hefur ekki farið framhjá neinum að Covid-19 hefur haft mikil áhrif á samfélagið okkar og eflaust flestir ef ekki allir sem hafa þurft að endurskoða áætlanir sínar með einhverjum hætti. Mikilvægt er að við höldum áfram að leggja okkar af mörkum til að draga úr smithættu og fylgja sóttvarnarlögum. Þessi staða mun hafa umtalsverð áhrif á starfsemi Rafiðnaðarsambandsins á næstu vikum og verður öllum stærri viðburðum frestað um óákveðinn tíma með fyrirvara um nýjar upplýsingar varðandi Covid-19. Þó þróunin sé jákvæð þá hefur það sýnt sig víða erlendis að ef farið er of geyst af stað getur smitum fjölgað hratt aftur.
 
Fjölskylduhátíð RSÍ sem fyrirhuguð var helgina 19. - 21. júni 2020 verður frestað um óákveðinn tíma. Við munum fylgjast með þróun mála og taka ákvörðun um nýja dagsetingu í samræmi við ráðleggingar Almannavarna. Verður auglýst þegar nær dregur.
 
Ferð eldri félaga sem haldin hefur verið í lok júní ár hvert verður aflýst þetta árið. Ferðin verður hins vegar á sínum stað 2021 að öllu óbreyttu. Við munum að sjálfsögðu gera okkar besta til að skipuleggja góða skemmtun fyrir næsta ár.
 
Golfmót iðnfélaganna sem var fyrirhugað á Akranesi laugardaginn 6. júní verður aflýst þetta árið vegna Covid-19. Kylfingar þurfa þó ekki að örvænta því iðnfélögin stefna að því að halda golfmót á Akureyri laugardaginn 5. september. Endilega takið daginn frá, en nánari upplýsingar verða sendar þegar nær dregur.
 
Hátíðahöld 1. maí verða með breyttu sniði í ár. Vegna samkomubanns er öllum kröfugöngum aflýst en unnið er að baráttudagskrá í sjónvarpi sem verður auglýst nánar síðar. Við hvetjum alla til að fylgjast vel með og heiðra daginn sem aldrei fyrr.
 
Kveðja.
Rafiðnaðarsamband Íslands

rafidnadarsambandid rautt

Breytingar á kjörum 1. apríl 2020 – samkvæmt kjarasamningum við SA

Breyting á virkum vinnutíma (PL. click)  (EN. click)

Við upptöku virks vinnutíma eru 37 klst. greiddar að jafnaði á viku m.v. fullt starf í stað 40 klst. og deilitala dagvinnutímakaups verður 160 í stað 173,33. Tímakaup í dagvinnu hækkar því um 8,33% eða sem nemur greiðslu fyrir kaffitíma sem færist yfir í tímakaup fyrir virkan vinnutíma, kaffitímar verða áfram teknir með sama fyrirkomulagi og áður, 35 mínútur á hverjum virkum degi. Ef færri tímar eru greiddir á viku / mánuði m.v. fullt starf skal reikna hækkun þannig að dagvinnulaun fyrir 37 klst. á viku / 160 klst. á mánuði verði þau sömu og áður var greitt fyrir fleiri tíma. Þar sem starfsmaður nýtur aukagreiðslna m.v. 40 klst. á viku (t.d. verkfæra- eða fatagjalds) taka þær hækkun 8,33% til samræmis.

Engar breytingar eru gerðar á fyrirkomulagi kaffihléa í yfirvinnu, þau verða áfram greiddur tími og sé unnið í þeim greiðist tilsvarandi lengri tími sem unninn er.

Dæmi til 31.03.2020

Mánaðarlaun

Deilitala

Tímakaup

500.000

173,33

2.885 kr.

Dæmi frá 01.04.2020 með kr.18.000 hækkun sem koma á öll laun 01.04. 2020.

Mánaðarlaun

Deilitala

Tímakaup

518.000 kr.*

160

3.238 kr.

·         Öll dagvinnulaun hækka um a.m.k.kr. 18.000,- eða 112,50 pr. tíma frá 1. apríl 2020.

Breyting á yfirvinnuálagi

Yfirvinna 1

Yfirvinna 1 er greidd fyrir fyrstu fyrstu 4 klst á viku að jafnaði eða 17,33 klst á mánuði. Álag á yfirvinnu 1 verður 1,02% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Yfirvinna 2 er greidd umfram það.

Yfirvinna 2

  Yfirvinna 2 greiðist fyrir alla tíma umfram 17,33 yfirvinnutíma á mánuði og á nóttunni á milli                         kl. 00:00-06:00. Álag á yfirvinnu 2 verður 1,10% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Mánaðarlaun

Álag

Tímakaup

518.000 kr.

1,02%

5.284 kr.

518.000 kr.

1,10%

5.698 kr.

Stytting vinnuvikunnar

Starfsmenn eiga rétt á að fram fari viðræður um vinnutímastyttingu í 36 virkar vinnustundir á viku að jafnaði samhliða niðurfellingu kaffitíma skv. gr. 3.1.2 í kjarasamningi. Stjórnendur fyrirtækja geta einnig óskað eftir viðræðum.

Ef samkomulag verður á milli aðila vegna bættrar nýtingar vinnutíma og aukinnar framleiðni skiptist ávinningur milli starfsmanna og atvinnurekanda, hlutdeild starfsmanna felst í viðbótarstyttingu virks vinnutíma um 13 mín á dag eða 65 mín á viku.

Viðbótarstytting virks vinnutíma:

Náist samkomulag um styttingu vinnuvikunnar verður virkur vinnutími 36 klst. á viku, án skerðingar mánaðarlauna (deilitala dagvinnutímakaups 156 í stað 160 með 2,56% hækkun dagvinnutímakaups).

Yfirvinna 1 greiðist áfram af fyrstu 4 klst á viku að jafnaði umfram 36 klst í dagvinnu eða 17,33 klst á mánuði.

Stéttarfélögin sem standa að þessum kjarasamningum eru tilbúin að veita aðstoð við útfærslu og vera félagsmönnum sínum innan handar við styttingu vinnuvikunnar.

rafidnadarsambandid2Síðustu vikur hafa að langmestu leyti farið í að sinna verkefnum sem tengjast því alvarlega ástandi sem við búum við vegna Covid-19. RSÍ hefur sett upp sérstaka upplýsingasíðu vegna mála sem þessu tengjast til að halda utan um málefnin á einum stað. Verkefnið er og verður í vinnslu á meðan málin þróast áfram. 

Gríðarlega mikilvægt var að túlkun Samtaka atvinnulífsins var leiðrétt vegna hlutaatvinnuleysisbóta en í vikunni var allur vafi tekinn af því að það er með öllu óheimilt að nýta hlutaatvinnuleysisbætur og láta uppsagnarfrest líða á sama tíma. Ef fyrirtæki þurfa að nýta sér úrræði Vinnumálastofnunar og lækka starfshlutfall starfsmanna tímabundið þá verður ráðningarsamband að vera í fullu gildi. Komi til þess að segja þurfi starfsfólki upp þá fellur hlutabótaúrræðið úr gildi um leið og fyrirtæki verður að greiða starfsfólki full laun á uppsagnarfresti. Við hvetjum félaga okkar til að vera í sambandi við RSÍ ef þið lendið í slíkum uppsögnum.

Nú þegar hefur verið gripið til ýmissa úrræða til að bæta erfiða stöðu í samfélaginu. Eitt þeirra úrræða er heimild til þess að taka út séreignarsparnað upp að ákveðnu hámarki vegna Covid-19. Rétt er að taka fram að þessi úttekt er ekki skattfrjáls og er því greiddur tekjuskattur af úttektinni, ólíkt skattfrjálsri ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Því er mjög mikilvægt að félagar okkar geri sér grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á mögulegan sparnað til lengri tíma litið. Sé markmið að taka út sparnað til daglegrar neyslu þá getur verið skynsamlegt að ráða frá því en uppgreiðsla á langtímaskuldum getur alltaf verið skynsamleg. Sé sparnaður ávaxtaður til lengri tíma (fyrir skattgreiðslur) þá getur ávinningur verið mun meiri til lengri tíma litið. Við hvetjum félaga okkar eindregið til þess að kynna sér möguleika þess að eiga sparnað til efri ára í stað þess að taka sparnaðinn út.

Nú er unnið að breytingum á húsnæðismarkaði líkt og hefur komið fram á undanförnum mánuðum sem eru tilkomin vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir voru fyrir ári síðan. Hlutdeildarlán eru meðal mikilvægra mála sem nú er farið að sjá eftir vinnu að undanförnu. Með þessum lánum er verið að búa til betra aðgengi fólks til þess að koma inn á fasteignamarkað með fyrstu kaupum. Mun auðvelda fyrstu kaup fasteigna. Á sama tíma mun fyrirkomlagið jafnframt ýta undir eðlilega uppbyggingu íbúða á markaðnum. Það er gríðarlega mikilvægt að þessari vinnu verði lokið á næstu vikum svo mögulegt verði að taka upp nýtt úrræði, til hagsbóta fyrir ungt fólk sem og þá sem hafa ekki átt húsnæði um nokkurt skeið.

Atvinnuleysi hefur aukist verulega á undanförnum vikum en gríðarleg aðsókn hefur verið í hlutaatvinnuleysisbætur VMST líkt og kom fram fyrr í pistlinum. Úrræðið hefur það meignmarkið að tryggja að ráðningarsamband launafólks haldist þrátt fyrir þær hremmingar sem standa yfir. Þess ber jafnframt að geta að atvinnuleysi hefur á sama tíma aukist nokkuð þrátt fyrir þessar aðgerðir. Landshlutarnir verða misjafnlega fyrir barðinu á samdrætti atvinnu en Suðurnesin verða einna verst úti eins og staðan er núna en má rekja það fyrst og fremst til gríðarlegra áhrifa á ferðaþjónustuna. 

Nú er gríðarlega mikilvægt að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar til þess að draga úr tekjufalli þeirra sem eru á meðallaunum á vinnumarkaði. Þess má geta að við innan ASÍ höfum lagt á það mikla áherslu að upphæðir atvinnuleysisbóta verði hækkaðar. 

Við leggjum mikla áherslu á að staða heimilanna verði tryggð þannig að þau áföll sem við upplifum lendi ekki á heimilunum en gengisfall íslensku krónunnar veldur að sjálfsögðu miklum áhyggjum en miklar líkur er á að þetta fall, verði það til lengri tíma, muni á endanum skila sér í hærri mælingum á verðlagi hér á landi. 

Það er ljóst að ríkið, okkar sameiginlegi sjóður sem landsmenn eiga sameiginlega, er að greiða gríðarlegar fjárhæðir til að létta undir á þessum tímum. Það hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvægt að fjármunum verði ekki sóað í óþarfa eða óábyrgar aðgerðir sem ekki skila fleiri störfum og bættum aðstæðum fyrir launafólk. Það er ljóst að stuðningur við fyrirtækin er mikill og er það vel. Við þurfum hins vegar sem samfélag að huga að því að stuðningurinn þarf að vera skilyrðum háður. Fyrst er að huga að því að fyrirtæki sem hafa borð fyrir báru eiga að leggja sitt af mörkum. Fyrirtæki sem þurfa stuðning, fyrirtæki sem hafa verið vel og skynsamlega rekin, eiga að fá stuðning en ríkið ætti svo sannarlega að setja skilyrði fyrir stuðningi til fyrirtækja við að störf séu tryggð, að laun séu tryggð. Sé hins vegar ekki farið að skilyrðum þá greiði fyrirtækin fyrir slíkt t.d. með sektargreiðslum, endurgreiðslu á stuðningi eða þá hreinlega að ríkið eignist hlut í fyrirtækjum sem stuðningur er veittur við. Slíkt væri hægt að greiða til baka á komandi árum þegar betur fer að ára aftur.

Að lokum er mikilvægt að við tökum áfram höndum saman í baráttunni við þessa óværu sem herjar á heiminn. Þó svo okkur sé að takast að draga verulega úr smiti hér á landi þá hefur líklega sjaldan verið jafn mikilvægt að við stöndum saman og fylgjum sóttvarnarlögum og reglum til að tryggja að vírusinn komist ekki aftur á skrið í samfélaginu. Við þurfum að halda áfram baráttunni við að draga úr smithættunni. Þó þróunin sé jákvæð þá hefur það sýnt sig erlendis að ef það er farið of geyst af stað aftur þá getur smitum fjölgað hratt aftur. Hlýðum Víði - áfram!

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

 

rafidnadarsambandid rautt

Á upplýsingafundi Almannavarna 1. apríl síðastliðinn svaraði Víðir játandi þeirri spurningu hvort stéttarfélög ættu að afturkalla leigu á orlofshúsum sínum. 

Þar sem samkomubannið mun gilda til 4.maí næstkomandi þá hefur RSÍ ákveðið að loka öllum orlofshúsum og íbúðum og afturkalla leigur frá 06.04.2020-04.05.2020. 

Leigur vegna þessa verða allar endurgreiddar að fullu og orlofspunktar bakfærðir. Leiguupphæð verður bakfærð á það kort sem leigan var greidd með. 

 

 

 

rafis bordar 1300x400 09Opnuð hefur verið síða hjá RSÍ sem heldur utan um málefni sem tengjast íslenskum vinnumarkaði og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Hvetjum félaga okkar til að kynna sér síðuna og þau málefni sem þar er að finna.

www.rafis.is/2020

ASI Verdlagseftirlit

Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á páskaeggjum 7. apríl og þar vekur athygli að í öllum þeim tilvikum sem páskaegg fengust bæði í Bónus og Krónunni, voru þau einni krónu ódýrari í Bónus eða í alls 20 tilvikum. 

Bónus var oftast með lægstu verðin í könnuninni, í 25 tilvikum en Krónan næst oftast, í fimm tilvikum. Hagkaup og Nettó voru oftast með hæstu verðin eða í 15 tilvikum hvor verslun. Hagkaup.is var með hæstu verðin í átta tilvikum, Iceland í sex og Netto.is í fimm tilvikum. Athygli vekur að verð á páskaeggjum er ívið hærra í Nettó en á Netto.is. 

Jafn algengt var að verðmunurinn í könnuninni væri á bilinu 0-20% og að hann væri 20-40% eða 15 sinnum í báðum tilvikum. Í einu tilviki var munur á hæsta og lægsta verði á bilinu 40-60% og í einu tilviki 60-80%. 

Mesti munur á hæsta og lægsta verði var á Freyju Rís Dessert eggjum, fjórum saman í pakka, 65,2% en hæst var verðið í Hagkaup, 659 en lægst var verðið í Krónunni, 399 kr. Næst mesti munur á hæsta og lægsta verði var á litlum páskaeggjum frá Góu en 54,4% munur var á eggjunum sem kostuðu minnst 349 kr. í Bónus en mest, 539 kr. í Hagkaup. 

Ef stærri eggin eru skoðuð má sjá að mestur munur var á hæsta og lægsta verði af Nóa Siríus dökku páskaeggi nr. 4 eða 34,7% en lægsta verðið mátti finna í Bónus,  2.895 kr. en það hæsta í Hagkaup 3.899 kr. Mikill munur eða 31,4% var á hæsta og lægsta verði af Góu Lindor hvítu súkkulaði páskaeggi sem kostaði minnst 1.598 kr. í Bónus en mest 2.099 kr. í Nettó. Þá var 32,6% munur á hæsta og lægsta verði af Nóa Siríus Perlu hnappa páskaeggi sem kostaði minnst 1.809 kr. í Bónus en mest 2.399 kr. í Hagkaup. Sami verðmunur var á Nóa Siríus páskaeggi með kremkexi sem kostaði minnst 1.809 kr. í Bónus en mest 2.399 kr. í Hagkaup. 

Minnsta úrvalið var á Heimkaup.is en þegar könnunin var framkvæmd voru einungis fimm páskaegg til af þeim 32 sem könnunin náði til. Mesta úrvalið var í Iceland en fengust öll páskaeggin sem könnunin náði til.

Sjá nánar niðurstöður í töflu (smella hér)

Verðkönnunin nær til 32 algengra páskaeggja frá íslenskum framleiðendum.

Könnunin var gerð þriðjudaginn 7. apríl í eftirfarandi verslunum: Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaupum, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Netto.is, Hagkaup.is og Heimkaup.is

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

rafis bordar 1300x400 04Miðstjórn RSÍ sendir öllum þeim sem standa í framlínustörfum baráttukveðjur, ykkar þáttur í að halda samfélaginu gangandi skiptir sköpum fyrir samfélagið. Á þessum tímum skiptir jafnframt gríðarlega miklu máli að kjarasamningar séu í gildi hjá öllum landsmönnum. Við skorum á stjórnvöld og aðra þá launagreiðendur sem ekki hafa gengið frá kjarasamningum við sína starfsmenn að gera það tafarlaust.

Miðstjórn RSÍ hefur sérstakar áhyggjur af stöðu heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir grundvallarþjónustu á þessum tímum, líkt og áður. Fleiri hópar, líkt og lögreglumenn, búa við óþarfa óvissu á þessum tímum og afar brýnt að draga úr þeirri óvissu. Tökum höndum saman, stöndum vörð um réttindi landsmanna, skrifið undir kjarasamninga! Við komumst saman í gegnum þessar tímabundnu áskoranir með samstöðunni, “hlýðum Víði” og okkar frábæra þríeyki í einu og öllu.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?