Fréttir frá 2020

03 22. 2020

Vikulegur pistill formanns

rafidnadarsambandid2Síðustu vikur hafa verið annasamar vegna þeirrar stöðu sem uppi er í samfélaginu og víðast hvar í heiminum. Mikil vinna hefur verið lögð í samstarf innan ASÍ vegna aðgerða stjórnvalda vegna tímabundins samdráttar. Samninganefnd ASÍ hefur fundað daglega, í fjarfundi, og hefur ASÍ staðið vaktina fyrir okkur öll, með virkum samskiptum við baklandið. Verulega mikilvæg skref hafa verið stigin á Alþingi við að tryggja launafólki tekjur þrátt fyrir þau áföll sem dynja á okkur, hlutaatvinnuleysi stendur til boða þegar verulegur samdráttur hefur orðið í rekstri fyrirtækja en það þýðir að með lækkuðu starfshlutfalli og vinnuframlagi launafólks er viðkomandi tryggðar bætur á móti upp að ákveðnu hámarki. Það er þó þannig að fullar tekjur eru ekki tryggðar sem er miður. Úrræðið er tímabundið enda um tímabundið ástand að ræða.

Ákveðið hefur verið að útvíkka verkefnið “Allir vinna” en þar hefur endurgreiðsluhlutfall af virðisaukaskatti af vinnu verið hækkað upp í 100% vegna endurbóta við ýmis verkefni. Þetta mun skipta verulega miklu máli fyrir okkar greinar. 

Vegna smithættu vegna Covid-19 hefur skrifstofa RSÍ breytt starfsháttum til að tryggja áframhaldandi þjónustu við félagsmenn, við nýtum tæknina í enn meiri mæli en áður, fjarfundir eru nýttir oft á dag til að eiga samskipti. Miðstjórn RSÍ fundaði á föstudag og voru allir fundarmenn í fjarfundi. Það er mikilvægt að geta haldið starfseminni áfram með þessum hætti enda koma upp ýmis mál sem þörf er á að finna lausnir á. 

Nú er það svo að við höfum jafnframt hvatt félaga okkar til þess að mæta ekki á skrifstofuna heldur að nýta aðrar leiðir, síminn er opinn en auk þess er mjög einfalt að sækja um alla styrki í gegnum “mínar síður” en þar er hægt að skila öllum gögnum með rafrænum hætti. Það er með einföldum hætti hægt að “hitta” félaga sem þurfa ráðleggingar í gegnum fjarfundi ef þörf krefur. Við höfum skipt starfsfólki upp og nú þegar vinna margir að heiman frá sér enda er það gert til að tryggja þjónustu við félagsmenn.

Fastlega má gera ráð fyrir að aðgerðir stórnvalda verði hertar í dag eða á næstu dögum og þá gefur auga leið að móttaka skrifstofunnar mun loka fyrir utanaðkomandi, þ.e.a.s. ekki verður boðið upp á að félagsmenn geti mætt á skrifstofuna til að sækja þjónustu. Þegar það verður gert þá er rétt að ítreka að þjónusta verður áfram í boði í gegnum allar rafrænar leiðir (síma og tölvu). Það verða leiðir fyrir neyðarúrræði.

Þess ber að geta að í vikunni var skrifað undir kjarasamning við ISAL, álverið í Straumsvík. Gríðarlega jákvæðar fréttir en þar gefur auga leið að þær boðuðu aðgerðir höfðu þau áhrif að svo varð, samstaða starfsfólks skiptir öllu máli! Kjarasamningurinn verður kynntur fyrir félagsmönnum RSÍ í vikunni, í gegnum fjarfund eða þeim leiðum sem mögulegt er að nota við þær aðstæður sem uppi eru. 

Að lokum er rétt að ítreka og hvetja alla til þess að virða tilmæli Sóttvarnar-, Landlæknis sem og Almannavarnardeild Ríkislögreglustjórans. Allar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til er til þess að tefja útbreiðslu veirunnar og kemur okkur til hagsbóta sé farið eftir þeim tilmælum og bönnum sem sett hafa verið. Förum vel með okkur og hugum fyrst og fremst að hreinlæti. 

Þess má geta að atvinnurekendum ber að tryggja ykkur aðgengi að hreinlætisaðstöðu, aðstöðu fyrir handþvott, heitt rennandi vatn ásamt handsápu, auk þess sem aðgengi að handspritti þarf að vera til staðar. Þetta á að sjálfsögðu við um alla vinnustaði, einnig vinnustaði eins og á byggingarsvæðum eða í húsnæði þar sem breytingar standa yfir. Þetta snýst um ykkar öryggi og ekki hika við að gera athugasemdir ef þessu er ábótavant!

Kristján Þórður

Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?