Fréttir frá 2020

02 21. 2020

NÝ KÖNNUN - Mikill verðmunur milli matvöruverslana

ASI verdlagseftirlit rautt 

Mikill verðmunur milli matvöruverslana 

Í flestum tilfellum var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði milli matvöruverslana í verðkönnun verðlagseftirlitsins sem framkvæmd var þriðjudaginn 18. febrúar. Í um helmingi tilvika eða 58 tilfellum af 118 var munur á hæsta og lægsta verði yfir 40%. Lægsta verðið var oftast í Bónus en hæsta verðið var oftast í Iceland. 

Iceland oftast með hæstu verðin
Bónus var lang oftast með lægstu verðin í könnuninni eða í 78 tilfellum af 118 en Krónan var næst oftast með lægstu verðin, í 13 tilvikum. Fjarðarkaup var með lægstu verðin í 9 tilfellum og Nettó og Heimkaup í 7 tilfellum hvor fyrir sig. 

Iceland var oftast með hæstu verðin, í 58 tilfellum af 118 en Kjörbúðin næst oftast, í 26 tilvikum. Á eftir Kjörbúðinni kemur Hagkaup með hæstu verðin í 20 tilvikum og Heimkaup í 13 tilvikum. Sendingarkostnaður getur síðan bæst við hjá Heimkaup sem taka verður með í reikninginn. 

Það hvar hæstu og lægstu verðin eru segir ákveðna sögu og er afar líklegt að verðlag hjá verslun sem er mjög oft með lægstu verðin sé almennt lágt og að verðlag hjá verslun sem er mjög oft með hæstu verðin sé almennt hátt. Það getur þó verið erfitt að átta sig á hvernig verðlag er í þeim verslunum sem eru hvorki oft með lægstu verðin né oft með hæstu verðin og mælum við því með að fólk skoði hitaritið sem fylgir sem gefur betri tilfinningu fyrir verðlagi í þeim verslunum. Á hitaritinu eru hæstu verðin rauð og þau lægstu græn. Þar sem „e“ kemur fyrir í töflunni var varan ekki til en „em“ merkir að varan var ekki verðmerkt. 

Sjá hitarit yfir verð á matvöru (smella hér)

Yfir 40% munur á hæsta og lægsta verði í um helmingi tilvika
Almennt var mjög mikill verðmunur milli verslana í verðkönnuninni en í 31 tilviki var milli 40 og 60% munur á hæsta og lægsta verði og í 27 tilvikum var hann yfir 60%. Það þýðir að í um helmingi tilvika var munurinn yfir 40%. 

Aðeins oftar eða í 60 tilvikum af 118 var munurinn á hæsta og lægsta verði undir 40% og skiptist það þannig að í 45 tilvikum var hann 20-40%  en í 15 tilvikum var hann undir 20%. 

Munur á hæsta og lægsta verði Fjöldi skipta sem verðmunur var í könnun
<20% 15
20-40% 45
40-60% 31
60-80% 15
80-100% 6
100-120% 3
120-140% 2
140-160% 1
160-180% 2

 

179% munur á kílóverði af þvottaefni
Dæmi um verðmun í könnuninni var 179% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Neutral Storvask þvottaefni. Hæst var verðið í Nettó Granda, 1.214 kr. kg en lægst í Bónus, 435 kr. kg. 

Þá var mikll munur á hæsta og lægsta verði af Libresse daily fresh innleggjum, 61% en þau voru ódýrust í Bónus, 309 kr. en dýrust í Iceland, 499 kr. pakkinn. 

111% munur var á hæsta og lægsta verði af Hobnobs dark choc kexpakka sem kostaði minnst, 208 kr. í Fjarðarkaup en mest, 429 kr. á Heimkaup.is. 

Mikill munur var einnig á kattamat en 47% munur var á hæsta og lægsta verði af 1,75 kg poka af Wiskas þurrmat. Lægsta verðið var í Bónus, 879 kr. en það hæsta í Kjörbúðinni, 1.289 kr. 

Mjög mikill eða 168% munur var á hæsta og lægsta verði á bláberjum. Lægst var kílóverðið af frosnum bláberjum í Bónus, 758 kr. en hæst í Heimkaup, 2.033. kr. 

Að lokum má nefna 103% verðmun á frosnum ýsubitum sem kostuðu minnst, 1.298 í Bónus en mest, 2.639 kr. í Kjörbúðinni. 

Sendingarkostnaður bætist við hjá netverslunum
1.490 kr. sendingargjald bætist við hjá Heimkaup.is og Netto.is ef verslað er fyrir lægri upphæðir.
Verð í netverslunum er í þeim tilfellum ekki sambærilegt verði í öðrum verslunum.

Sendingarkostnaður ef upphæð heimsendingar er:

  0-8.899 kr. 8.900-14.899 kr. 14.900-14.999 kr. 15.000 kr. +
Heimkaup.is 1.490 490 0 0
Netto.is 1.490 1.490 1.490 0

 

Um könnunina
Í könnuninni var hilluverð á 118 vörum skráð niður en það er það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um þegar hann ákveður hvort hann ætli að kaupa viðkomandi vöru. Ef afsláttur er tekinn fram á hillu er hann tekinn til greina.

Litakóðinn í töflunni (hlekkurinn) gerir hæstu verðin rauðlituð en þau lægstu grænlituð og staðsetur þannig verslanir í verði. Til að fá fram röðunina á verslununum eru frávik frá lægsta verði reiknuð og raðast verslanirnar því eftir því hversu langt þær eru frá þeirri verslun sem er með lægstu verðin. Þar sem verð vantar eru meðalverð notuð.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Granda, Bónus Skeifunni, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Vesturbergi, Hagkaup í Kringlunni, Kjörbúðinni Sandgerði, Heimkaup.is og Netto.is. Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?