Fréttir frá 2020

01 24. 2020

Dagur rafmagns - ræða formanns RSÍ við opnun á Rafmennt

rafidnadarsambandid

Ávarp formanns RSÍ á degi rafmagns þar sem formleg opnun á Rafmennt - fræðslusetri rafiðnaðarsins fór fram.

Ágætu félagar,

Í tilefni af degi rafmagns töldum við tilvalið að hafa þessa formlegu opnun á Rafmennt. Við höfum lengi staðið fyrir öflugri menntun rafiðnaðarfólks enda eru mikil tækifæri fólgin í því fyrir félaga okkar að vera í fremstu röð í nýjustu tækni. Við hjá RSÍ erum að sjálfsögðu mjög stolt af því að geta boðið okkar félagsmönnum upp á góða endurmenntun, öflugt meistaranám en síðast en ekki síst að hafa beina aðkomu að þeirri grunnmenntun sem boðið er upp á hér á landi.

Mig langar við þetta tækifæri að hvetja félaga okkar til þess að hika ekki við að sækja endurmenntunarnámskeið hér í húsi því víðsýni, ný sjónarmið og ný tækni eru atriði sem skipta einna mestu máli í störfum í dag. Það er ekki bara að með aukinni færni sé auðveldara að sækja hærri laun heldur þá opnast á sama tíma inn á þau miklu tækifæri sem felast í nýjum viðfangsefnum. Við höfum um áratugaskeið rekið einn öflugasta endurmenntarskóla fyrir okkar félaga, höfum lagt okkur fram um að styðja eins vel og kostur er við þá sem velja greinarnar meðal annars í formi námsefnis. Við köllum samt sem áður eftir því að þið ágætu félagar segið okkur hvað þið teljið skipta mestu máli í endurmenntun. 

Við viljum fá hugmyndir og sjónarmið að nýjum námskeiðum, hvernig getum við náð meiri árangri í sameiningu? Hvar liggja tækifærin að ykkar mati? Það er klárt mál að tækifærin með aukinni menntun eru gríðarlega mikil. Það er ykkar að sækja fram! 

Við höfum verið minnt allhressilega á það á undanförnum mánuðum hversu mikilvægt fagið okkar er í samfélaginu. Rafmagnsleysi vegna bilana í kjölfar óveðurs. Fjarskiptakerfi hafa legið niðri, mikilvægi samskipta hefur sjaldan verið jafn mikið! Það má því með sanni segja að við séum lykilstétt í samfélaginu! 

Við þurfum því að sjálfsögðu að vera á tánum hvað varðar menntamálin. En dagur rafmagns er í dag, gaman að sjá ykkur öll hér í dag og hvet ég ykkur til þess að skoða það sem Rafmennt býður upp á hér í húsinu.

Takk og eigið góðan dag.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?