rafidnadarsambandid2Síðasta vika byrjaði á fundi formanna norrænna Rafiðnaðasambanda, (NEF, Nordisk el-federation). Fundurinn fór fram hér á Íslandi en farið er yfir stöðu félags og efnahagsmála í hverju landi fyrir sig. Vettvangurinn hefur skilað gríðarlegum ávinningi í gegnum tíðina, má þar nefna samræmda menntun landanna. Grunnur menntunar er sá sami sem við vinnum eftir. Við miðlum upplýsingum um framkomu fyrirtækja, sérstaklega þegar fyrirtækin brjóta á starfsmönnum og sýnum samstöðu. Fundurinn sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu þar sem kollegar okkar í Finnlandi berjast fyrir grundvallarrétti til að tilheyra verkalýðsfélögum í sinni starfsgrein. Formannafundurinn sendi því stuðningsyfirlýsingu til félaga okkar í Finnlandi. 

Fjöldi samningafunda voru í vikunni. Skrifað var undir kjarasamninga við Ríkið og Reykjavíkurborg. Samningarnir verða kynntir þeim félagsmönnum sem taka laun samkvæmt þeim kjarasamningum. Fundað var með fulltrúum Norðuráls, Alcoa og fundað var með fulltrúum ISAL á formlegum fundum hjá Ríkissáttasemjara.  

Í vikunni fundaði miðstjórn ASÍ en þar var farið yfir þau mál sem snúa að stjórnvöldum vegna kjarasamninganna sem í gildi eru. Ljóst er að enn á eftir að uppfylla í ýmis ákvæði úr yfirlýsingu stjórnvalda til þess að tryggt verði að forsendur kjarasamninga haldi þegar kemur að endurskoðun í haust. Unnið er að því að innleiða breytingar á fjármögnun fasteigna þegar snýr að fyrstu kaupum fólks sem er gríðarlega mikilvægt. Mikilvægar breytingar þarf að gera á lögum um lífeyrissjóði sem ekki fóru í gegnum Alþingi á réttum tíma en mjög mikilvægt er að málinu verði lokið áður en til endurskoðunar kemur. Á fundinum var jafnframt farið yfir málareksturs Neytendasamtakanna gegn smálánafyrirtækjum en það er ólíðandi að sjá hvernig þessi fyrirtæki halda fólki í heljargreipum oftar en ekki með ólögmætum kröfum. 

Dagur rafmagns var haldinn hátíðlegur á fimmtudag þar sem Rafmennt - fræðslusetur rafiðnaðarins var formlega opnuð með pompi og prakt. Húsið var opið fyrir gesti og gangandi þar sem starfsemin var sýnd en eins og fram hefur komið ávarpaði formaður RSÍ samkomuna auk þess sem Kristín Birna B. Fossdal, deildarstjóri rafbúnaðar og stjórnkerfa hjá ON sagði frá reynslu sinni úr starfi. Auk þess ávörpuðu Þór Pálsson, framkvæmdastjóri Rafmenntar og Hjörleifur Stefánsson, formaður SART, samkomuna.

rafidnadarsambandid

Ávarp formanns RSÍ á degi rafmagns þar sem formleg opnun á Rafmennt - fræðslusetri rafiðnaðarsins fór fram.

Ágætu félagar,

Í tilefni af degi rafmagns töldum við tilvalið að hafa þessa formlegu opnun á Rafmennt. Við höfum lengi staðið fyrir öflugri menntun rafiðnaðarfólks enda eru mikil tækifæri fólgin í því fyrir félaga okkar að vera í fremstu röð í nýjustu tækni. Við hjá RSÍ erum að sjálfsögðu mjög stolt af því að geta boðið okkar félagsmönnum upp á góða endurmenntun, öflugt meistaranám en síðast en ekki síst að hafa beina aðkomu að þeirri grunnmenntun sem boðið er upp á hér á landi.

Mig langar við þetta tækifæri að hvetja félaga okkar til þess að hika ekki við að sækja endurmenntunarnámskeið hér í húsi því víðsýni, ný sjónarmið og ný tækni eru atriði sem skipta einna mestu máli í störfum í dag. Það er ekki bara að með aukinni færni sé auðveldara að sækja hærri laun heldur þá opnast á sama tíma inn á þau miklu tækifæri sem felast í nýjum viðfangsefnum. Við höfum um áratugaskeið rekið einn öflugasta endurmenntarskóla fyrir okkar félaga, höfum lagt okkur fram um að styðja eins vel og kostur er við þá sem velja greinarnar meðal annars í formi námsefnis. Við köllum samt sem áður eftir því að þið ágætu félagar segið okkur hvað þið teljið skipta mestu máli í endurmenntun. 

Við viljum fá hugmyndir og sjónarmið að nýjum námskeiðum, hvernig getum við náð meiri árangri í sameiningu? Hvar liggja tækifærin að ykkar mati? Það er klárt mál að tækifærin með aukinni menntun eru gríðarlega mikil. Það er ykkar að sækja fram! 

Við höfum verið minnt allhressilega á það á undanförnum mánuðum hversu mikilvægt fagið okkar er í samfélaginu. Rafmagnsleysi vegna bilana í kjölfar óveðurs. Fjarskiptakerfi hafa legið niðri, mikilvægi samskipta hefur sjaldan verið jafn mikið! Það má því með sanni segja að við séum lykilstétt í samfélaginu! 

Við þurfum því að sjálfsögðu að vera á tánum hvað varðar menntamálin. En dagur rafmagns er í dag, gaman að sjá ykkur öll hér í dag og hvet ég ykkur til þess að skoða það sem Rafmennt býður upp á hér í húsinu.

Takk og eigið góðan dag.

Birta logo lit CMYK 1300 x 400 A

Valnefnd Birtu lífeyrissjóðs auglýsir eftir frambjóðendum til þess að taka sæti í stjórn sjóðsins kjörtímabilið 2020 til 2022.

Samkvæmt samþykktum Birtu lífeyrissjóðs (gr. 5.9) hefur valnefnd m.a. þann yfirlýsta tilgang að tryggja að stjórn sjóðsins endurspegli fjölbreytni og breidd í hæfni, reynslu og þekkingu stjórnarmanna sem og að tryggja gagnsæi í málum um tilnefningu stjórnarmanna.

Fulltrúaráð launamanna Birtu kýs tvo stjórnarmenn og einn varamann til tveggja ára í stjórn sjóðsins.

Áhugasamir geta gefið kost á sér með því að senda inn framboð á útfylltu framboðseyðublaði, sem er að finna á vefnum birta.is, á netfangið valnefnd@birta.is fyrir kl. 16.00 fimmtudaginn 13. febrúar 2020.

ÞEIR SEM GEFA KOST Á SÉR SKULU

  • vera launamenn sem greiða iðgjald í Birtu lífeyrissjóð.

  • ekki vera sjálfstætt starfandi atvinnurekendur/einyrkjar.

  • vera fjárhagslega sjálfstæðir og búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu skv. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 6. gr. reglna FME nr. 180/2013 og fullnægja að öðru leyti þeim kröfum sem gerðar eru um hæfi og hæfni stjórnarmanna skv. framangreindum lögum, reglum FME, samþykktum sjóðsins og starfsreglum valnefndar.

  • Skila inn útfylltu framboðseyðublaði með drengskaparyfirlýsingu um að þeir uppfylli skilyrði til slíkrar stjórnarsetu. Allar nánari upplýsingar um stjórnarkjörið, framboðseyðublaðið/yfirlýsinguna og sjóðinn má finna á vefnum birta.is

Allar nánari upplýsingar um stjórnarkjörið, framboðseyðublaðið/yfirlýsinguna og sjóðinn má finna á vefnum birta.is

rafidnadarsambandid2Kjaraviðræður halda áfram. Fundað var með félögum okkar sem starfa hjá Ríkinu þar sem farið var yfir stöðu viðræðna við ríkið. Ljóst er að viðræðurnar hafa gengið hægt á síðustu vikum en ljóst var að hugur er í félögum okkar og krafan um gerð kjarasamnings kom skýrt fram. 

Fundað hefur verið með fulltrúum ISAL, bæði í vinnuhópum og síðan á formlegum samningafundi hjá Ríkissáttasemjara sem hefur staðið yfir um helgina. Augljóst er að starfsfólk ISAL hefur fengið nóg af því hversu langan tíma viðræðurnar hafa tekið án þess að tekist hafi að undirrita kjarasamning. Fundað verður áfram í vikunni. Viðræður halda áfram hjá Norðuráli og Alcoa en sá síðarnefndi rennur út í lok febrúar eða nánar tiltekið 29. febrúar.

Víða er vinna hafin við að stytta vinnutíma á vinnustöðum en samkvæmt núgildandi kjarasamningi geta félagar okkar farið fram á viðræður við fyrirtækin um að gera breytingar á vinnutímanum og með því að taka upp virkan vinnutíma og fella út kaffihlé að hluta eða öllu leyti. Með því móti er hægt að stytta viðveru á vinnustað um 4 klst á viku þannig að unninn tími (virkur vinnutími) verði 36 klst á viku. Nauðsynlegt er að útfæra með hvaða hætti slíkt er gert á vinnustaðnum með samkomulagi aðilanna. Með þessu móti er raunverulegur vinnutími styttur um 65 mínútur á viku að viðbættum kaffihléum, sem eru 2 klst og 55 mínútur. Mögulegt er að útfæra þetta á ýmsan hátt. Starfsmenn á viðkomandi vinnustað verða að samþykkja útfærslur í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Kristján Þórður Snæbjarnarson

Formaður RSÍ

 

rafidnadarsambandid rautt

Dagbækur fyrir 2020 eru loksins komnar í hús. 

rafmenntlogo banner

Í tilefni dagsins ætlar RAFMENNT sem er í eigu Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) og Samtaka rafverktaka (SART) að vera með opið hús að Stórhöfða 27.
Á opna húsinu er ætlunin að kynna endurmenntun rafiðnaðarins ásamt því að skýra frá þeim verkefmun sem RAFMENNT sinnir fyrir rafiðnaðinn í landinu.

Dagskrá: 

16.15 Ávörp

Hjörleifur Stefánsson
Formaður SART og stjórnar RAFMENNTAR

Kristján Þórður Snæbjarnarson
Formaður RSÍ og stjórnarmaður RAFMENNTAR

Kristín Birna B. Fossdal
Deildarstjóri rafbúnaðar og stjórnkerfa hjá ON

Þór Pálsson
Framkvæmdastjóri RAFMENNTAR

Léttar veitingar í boði

Fimmtudag 23. janúar er dagur rafmagnsins á Norðurlöndum. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur að frumkvæði orkufyrirtækja á Norðurlöndum um nokkurra ára skeið.
Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á mikilvægi rafmagns í samfélaginu, í leik og starfi. Án rafmagns er ljóst að hér væru minni lífsgæði, hæg þróun og lágt menntunarstig.
Hingað til hefur verið lögð áhersla á að minna á hvað við höfum það gott; við höfum gott aðgengi að rafmagni og orkan okkar er ódýr og hrein, þar sem 99,99% raforku á Íslandi er framleidd með endurnýjanlegum hætti.
Eins og allir landsmenn vita vorum við rækilega minnt á mikilvægi þess að hafa rafmagn víða um land í þessum mánuði.

 

ASI verdlagseftirlit rauttVerðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman breytingar á fasteignagjöldum milli áranna 2019 og 2020 í 15 fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Breytingarnar eru reiknaðar í krónum miðað við meðal fasteigna- og lóðamat í ákveðnum hverfum hjá þeim sveitarfélögum sem eru til skoðunar en fasteignagjöld eru í flestum tilfellum lögð á miðað við fasteigna- og lóðamat. 

Gjöld á 100 fm íbúð í fjölbýli hækka mest á Sauðárkróki um 14,93% eða 36.991 kr. en næst mest á Egilsstöðum um 11,06% eða 29.515 kr. Ef miðað er við 200 fm einbýli hækka gjöldin mest á Egilstöðum, 10,3% eða um 46.756 og næst mest í Glerárhverfi á Akureyri um 7,7% eða 27.000 krónur. Þessar hækkanir eru langt umfram þau loforð sem gefin voru í tengslum við lífskjarasamningana en Samband íslenskra sveitarfélaga lýsti stuðningi við þau með tilmælum til sveitarfélaga um að  gjaldskrárhækkanir vegna ársins 2020 yrðu ekki umfram 2,5%.

Fasteignagjöldin lækkuðu mest í Keflavík sé miðað við 100 fm fjölbýli, -9,61% eða 28.722 kr. og næst mest í Njarðvík, -3,88% % eða um 10.223 kr. Sé miðað við 200 fm einbýli lækkuðu fasteignagjöldin mest á Ísafirði, -9,3% eða um 38.969 kr. og næst mest í Njarðvík, -4,4% eða um 24.364 kr. 

14,9% hækkun á fasteignagjöldum í fjölbýli á Sauðárkróki 

Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, fráveitugjöld, vatnsgjöld og sorphirðugjöld. Þau eru í flestum tilfellum reiknuð sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati nema sorphirðugjöld sem eru föst krónutala. Breytingar á fasteigna- og lóðamati hafa því áhrif á hina endalegu álagningu fasteignagjalda og er í samburðinum hér tekið tillit til þess. Þá eru vatnsgjöld og fráveitugjöld í sumum tilfellum reiknuð sem föst krónutala auk gjalds á hvern fermetra íbúðarhúsnæðis. Erfitt getur verið að átta sig á heildarbreytingu sveitarfélaga á fasteignagjöldum þar sem breytingar á hverjum lið vega misþungt. Þannig eru fasteignaskattar t.d. yfirleitt mun hærri krónutala en vatnsgjöld og vega hækkanir á fasteignasköttum því þyngra en á vatnsgjöldum. Til að varpa betra ljósi á hvernig breytingar sveitarfélaga á fasteignagjöldum milli ára koma út í heild hafa þær verið teknar saman og reiknaðar út í krónutölum fyrir mismunandi tegundir húsnæðis. 

Þegar allir liðir fasteignagjalda hafa verið lagðir saman og upphæðir frá árinu 2019 bornar saman við 2020 má sjá að fasteignagjöld hækka mest á Sauðárkróki, 14,93% eða 36.991 kr. miðað við 100 fm í fjölbýli. Rekja má hækkanir til þess að fasteigna- og lóðamat hækkaði mikið í fjölbýli á Sauðárkróki á milli ára á meðan álagningarprósentur sveitarfélagsins stóðu í stað auk þess sem sorphirðugjöldin hækkuðu. Næst mest hækka fasteignagjöld fyrir 100 fm. fjölbýli á Egilsstöðum,  11,06% eða 29.515 kr. en svipaða sögu er að segja þaðan þar sem fasteignamat hækkaði en álagningarprósentur voru ekki lækkaðar til að stemma stigu við hækkunum. Miklar hækkanir voru einnig á Reyðarfirði, 8,6%, Akureyri, 6,35- 6,57% og á Völlunum Hafnafirði, 6,20%. Sjá nánari upplýsingar um breytingar á álagningarprósentum og á fasteigna- og lóðamati (smella hér).

Fasteignagjöld miðað við 100 fm í fjölbýli lækkuðu um -9,61% eða 28.722 kr. í Keflavík og um 3,88% eða 10.223 kr. í Njarðvík. en þar var álagningarprósenta fasteignaskatts lækkuð auk álagningarprósentu vatnsgjalda og fráveitugjalda. Þá lækkuðu fasteignagjöld einnig í Kópavogi, um  -2,14% í Austurbænum og -0,93% í Lindum og Sölum en sökum þess að lóðaleiga er reiknuð á annan hátt þar en í öðrum sveitarfélögum var ekki unnt að birta krónutölur fyrir Kópavog. Álagningarhlutfall fasteignagjalda og fráveitugjalda var lækkað í Kópavogi milli ára auk þess sem sorphirðugjöld lækkuðu um 6,79%. Fasteignagjöld fyrir 200 fm einbýli lækkuðu einnig í miðbæ Reykjavíkur ( frá tjörn að Snorrabraut) um 0,64% og -0,61% á Selfossi. 

10,3% hækkun á fasteignagjöldum í sérbýli á Egilsstöðum

Í 200 fm. sérbýli hækkuðu fasteignagjöld mest á Egilsstöðum, 10,3% en það gerir 46.756 kr. hækkun. Næst mest hækkuðu þau í Glerárhverfi, Akureyri, 7,7% eða 27.000 kr. og jafn mikið í Vestmannaeyjum, 7,7% eða um 26.060 krónur. Eins og fyrr sagði hækkaði fasteignamat á Egilsstöðum á sama tíma og álagningarprósentur stóðu í stað auk þess sem sorphirðugjöld voru hækkuð sem útskýrir þessar hækkanir. Á Akureyri stóðu álagningarprósentur fasteignaskatta og lóðaleigu sömuleiðis í stað. Fasteigna- og lóðamat hækkaði á meðan vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld hækkuðu. Í Vestmannaeyjum lækkaði álagningarprósenta fasteignaskatts auk þess sem vatnsgjöld lækkuðu. Þrátt fyrir það hækkuðu fasteignagjöld í Vestmanneyjum þar sem þar sem álagningarhlutfall lóðaleigu stóð í stað á meðan lóðamat hækkaði mikið auk þess sem álagningarprósenta fráveitugjalda lækkaði ekki þrátt fyrir miklar hækkanir á fasteignamati. Þá voru sorphirðugjöld einnig hækkuð í Vestmannaeyjum.

Mestar lækkanir á fasteignagjöldum í sérbýli eru á Ísafirði (eldri byggð), -9,3% sem gerir 38.969 kr. lækkun. Það má rekja til 51% lækkunar á álagningarprósentu vatnsgjalda, lækkun sorphirðugjalda um 4,54% og lítilla hækkana á fasteigna- og lóðamati í sérbýli. Næst mest lækkuðu fasteignagjöld í Njarðvík, -4,4% eða 24.364 kr. og í Keflavík, -3,7% eða 21.473 kr. Þá lækkuðu gjöld í sérbýli í miðbæ Reykjavíkur (frá tjörn að Snorrabraut), -1,6% og í Austurbæ Kópavogs, -0,7%. 

Útsvarsprósentur stóðu í stað milli ára hjá öllum sveitarfélögum.

Til að glöggva sig betur á hvað liggur að baki breytingunum, þ.e. hvaða gjöld það voru sem hækkuðu og lækkuðu og hvort og/eða hversu mikið sveitarfélögin breyttu álagningarprósentum sínar, má nálgast töflur með þeim upplýsingum í viðhenginu fyrr í fréttinni.(smella hér)

Um úttektina

Fasteignagjöld eru lögð á allar fasteignir af sveitarfélögum landsins. Þau skiptast í fasteignaskatt, lóðaleigu, vatnsgjöld, fráveitugjöld og sorphirðugjöld. Í flestum tilfellum er upphæð gjaldanna ákveðið hlutfall af fasteigna- og lóðamati eignarinnar og hefur breyting á fasteignamati því áhrif á upphæð þeirra að öðru óbreyttu. Í ákveðnum tilfellum eru þau innheimt sem fast gjald og/eða gjald á fermeter. Sorphirðugjöld eru þó föst krónutala í öllum sveitarfélögum. Upplýsingar um fasteignagjöld má finna á heimasíðum sveitarfélaganna.

Fasteignagjöld eru ekki sérlega gegnsæ og erfitt og tímafrekt getur verið að átta sig á hversu miklar breytingar eru í krónum talið. Þá getur verið flókið að bera saman fasteignagjöld milli sveitarfélaga vegna þess hversu mikill munur er á fasteignamati. Álagning sveitarfélaganna er til að mynda töluvert hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu en þar er fasteignamat einnig mun lægra og þarf þess vegna ekki að þýða að fólk á landsbyggðinni borgi meira en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Til að gefa sem skýrasta mynd reiknar verðlagseftirlitið breytingar á fasteignagjöldum í krónum talið miðað við meðal fasteignamats fyrir ákveðnar stærðir af íbúðarhúsnæði í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Með þessum hætti má sjá raunhæf dæmi af því hvernig fasteignagjöld breytast milli ára. 

Fasteignagjöld voru reiknuð fyrir íbúðir í ákveðnum stærðarflokki og eiga fasteignagjöld í dæmunum hér því við um fleiri íbúðir en þær sem eru af þessari stærð. Þannig eru meðal fasteignagjöld fyrir 100 fm íbúð t.d. reiknuð af öllum 95-105 fm íbúðum í ákveðnu bæjarfélagi/hverfiog fasteignagjöld fyrir 200 fm sérbýli er meðaltal af íbúðum á stærðarbilinu 195-205 fm. Við útreikningana er stuðst við gögn frá Þjóðskrá um meðalfasteignamat og breytingar á fasteignamati milli ára.

asi rautt

Ef þú telur atvinnurekanda vera brjóta á þér er brýnt að bregðast strax við og hafa samband við stéttarfélagið þitt. Undanfarið hafa fallið dómar á svokölluðu tómlæti. Ábyrgðin á að greitt sé samkvæmt kjara- og ráðningasamningum er þannig sett yfir á félagsmenn og þeim ætlað að átta sig nógu snemma og reisa kröfur strax.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sendi formönnum stéttarfélaga innan ASÍ bréf í gær þar sem hún vekur athygli á þessari þróun mála. Þar segir hún m.a.: 
"Þessir dómar þýða breytt umhverfi fyrir félagsmenn og störf stéttarfélaga þar sem iðulega hefur verið reynt til þrautar að semja við atvinnurekendur áður en til formlegra málaferla kemur. Stefna ASÍ hefur verið að reyna að vernda það umhverfi sem við höfum starfað í og reyna að ná fram sáttum við Samtök atvinnulífsins um tillögu að lagabreytingum þannig að kröfur félagsmanna falli ekki á tómlæti, að félagsmenn og stéttarfélög hafi svigrúm til að innheimta vangoldin laun áður en til málaferla komi. Við höfum átt í viðræðum við SA um tillögu að slíkum lagabreytingum en nú er ljóst að þær tilraunir hafa borið lítinn árangur og takmarkaður vilji hjá atvinnurekendum að styrkja stöðu launafólks sem brotið er á."

Forseti ASÍ segir að verkalýðshreyfingunni sé nauðugur sá kostur að hvetja stéttarfélög til að reisa allar kröfur um vangoldin laun strax til að vernda félagsmenn sína og tryggja þá fyrir tjóni. Þetta sé best gert með því að styrkja ráðgjöf og lögfræðisþjónustu félaganna. Drífa Snædal endar bréf sitt til formannanna á þessum nótum.

"Kæru félagar. Dómstólar hafa gert okkur erfiðara fyrir að tryggja réttindi okkar félagsmanna og það er ekki óskastaða okkar að málin fari í þennan farveg. Við höfum viljað hafa svigrúm til að leita sátta og veita fyrirtækjum tækifæri til að leiðrétta vangoldin laun. Þess vegna reyndum við til þrautar að girða fyrir tómlætisáhrif í samtali og samstarfi við atvinnurekendur. Þeir eru ekki tilbúnir í þessa vegferð með okkur og bera því ábyrgð á harðari viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar og breyttu umhverfi í deilumálum.

Verndum okkar fólk, bregðumst við strax af hörku ef brotið er á kjara- eða ráðningasamningum, það er lítið svigrúm til tafa eða viðræðna."

Fréttin er af vef ASÍ 16.janúar (Snorri Már Skúlason)

rafidnadarsambandid2Árið fer af stað af krafti í félagsstarfinu. Síðasta vika var undirlögð af fundum vegna kjarasamninga. Ef við byrjum á að rifja upp það sem gerðist hjá okkur fyrir jól, frá því síðasti vikulegi pistill var birtur, þá var upplýst að allir kjarasamningar í orkugeiranum hjá RSÍ væru afgreiddir. Nokkrum dögum síðar var gengið frá vinnustaðasamningi við Marel en samningurinn nær til félagsmanna í RSÍ, VM og FIT en samningurinn er svokallaður 5. Kafla samningur aðalkjarasamninganna þar sem útfærsla á styttingu vinnutímans og launakerfi er útfært. Samningurinn var samþykktur í atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?