rafidnadarsambandid2Nýjustu fréttir úr starfi RSÍ þær helstar að í vikunni sem er að líða héldu áfram fjöldi samningafunda. Því miður hefur ekki tekist að ljúka gerð nýrra kjarasamninga í þessari viku en nú er verulegrar óþreyju farið að gæta með að ljúka gerð allra kjarasamninga. Tíundi mánuðurinn án þess að endurnýjun sé lokið er ekki ásættanlegt. Frestun kjarasamninga í sumar þar sem fyrirframgreiðsla á launahækkunum var greidd út gerir það þó að verkum að sá tími stendur ekki að öllu leyti óbættur en það getur ekki gengið mikið lengur með óbreyttu sniði. 

Fundað var með samninganefndum Landsvirkjunar, Rarik, OR auk þess sem óformlegir fundir og samtöl um hina ýmsu kjarasamninga. Nú styttist í að fleiri samningar renni út en má þar nefna að kjarasamningur RSÍ og annarra stéttarfélaga við Norðurál sem og kjarasamningur við Elkem gilda til loka þessa árs. Kjarasamningur RSÍ og Afls við Alcoa gildir til 29. febrúar 2020. 

Skrifstofa RSÍ fékk heimsókn frá trúnaðarmönnum sem vinna hjá fyrirtækinu Aker Solutions í Noregi. Trúnaðarmennirnir koma frá fimm stéttarfélögum sem eru innan norska Alþýðusambandsins (LO) og vildu fræðast um íslenskt samfélag og stöðu mála hér á landi. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ fór yfir uppbygginguna hjá okkur auk þess sem formaður RSÍ fór yfir starfsemi RSÍ og aðildarfélaga. Uppbygging sjúkrasjóða hér á landi þótti þeim mjög áhugaverð sem og hversu fjölbreytt starf stéttarfélaga er og mikil þjónusta við félagsmenn á ýmsum sviðum. Það var virkilega ánægjulegt fyrir okkur að fá heimsókn frá félögum okkar í Noregi.

Í tengslum við kjarasamninga sem samþykktir voru í sumar þá var fjöldi þátta sem stjórnvöld komu með að samningaborðinu til að liðka fyrir kjarasamningum. Í vikunni héldu áfram fundir þar sem farið var yfir stöðu mála. Það var verulega ánægjulegt að Seðlabanki Íslands ákvað að lækka stýrivexti í vikunni um 0,25% en þá hafa stýrivextir lækkað um 1,25% frá því kjarasamningar voru undirritaðir. Þessi lækkun getur haft verulega jákvæð áhrif á skuldsett heimili þar sem vaxtakjör eru breytileg. Þetta veitir jafnframt svigrúm til þess að endurfjármagna íbúðalán ef vaxtakjör hafa ekki lækkað eða eru óhagstæð. 

Á föstudag var haldinn sameiginlegur félagsfundur RSÍ og FÍR á Reyðarfirði. Ástæða fundarins var að fulltrúar RSÍ voru á leið á Tæknidag fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands á Norðfirði. Fundurinn var ágætlega sóttur en á milli 20 og 30 manns voru á staðnum. Á tæknidegi fjölskyldunnar voru störf í rafiðnaði kynnt auk þess sem fulltrúar Rafmenntar afhentu nýnemum í rafiðngreinum í skólanum spjaldtölvur til þess að nota í skólanum. En RSÍ og SART hafa staðið fyrir útgáfu rafræns námsefnis nemendum að kostnaðarlausu. Almenn ánægja er með framtakið á meðal nemenda og kennara.

KÞS

rafidnadarsambandid rautt

rsi reyðarfj

asi rautt

Kæru félagar,

Umhverfismálþing ASÍ; „Engin störf á dauðri jörð“ verður haldið þann 3. október kl. 08:30-11:30 (morgunmatur frá 08:00).

Á málþinginu verður fjallað um þau áhrif sem loftslagsbreytingar munu hafa á vinnumarkaðinn og hvernig verkalýðshreyfingin geti brugðist við.

Endilega takið þátt í þessari mikilvægu umr!æðu

Málþinginu verður streymt á vef ASÍ – www.asi.is

Skráning á asta@asi.is

Umhverfisþing ASI

rafidnadarsambandid2Fjöldi funda vegna kjarasamninga fóru fram í vikunni. Fundað var með Landsvirkjun, Rarik, Orkuveitu Reykjavíkur og ISAL. Það er ljóst að hraði viðræðna þarf að vera mikið meiri til þess að árangur fari að sjást úr þessum viðræðum. Það er ljóst að óþreyju er farið að gæta í baklandi okkar innan fyrirtækjanna og því nauðsynlegt að koma hreyfingu á málin. Viðræður eru lengst komnar hjá Landsvirkjun og bundum við vonir við að geta komist langt með viðræðurnar þar í vikunni. 

Í vikunni sem leið var haldið málþing á vegum menntanefndar ASÍ um tæknibreytingarnar sem tengjast hinni svokölluðu fjórðu iðnbyltingu. Miklar og hraðar tæknibreytingar hafa sífellt meiri áhrif á störf í heiminum og augljóst að í rafiðnaði verða til ný og mjög spennandi verkefni fyrir okkar félagsmenn. Rafiðnaðarstéttin ætti að vera sú stétt sem leiðir nýjan tæknibúnað inn á íslenskan markað. Það er meðal annars þess vegna sem við verðum að fylgja málum eftir með eftirmenntun í okkar greinum. 

Í vikunni náðust mjög áhugaverðir kjarasamningar í Noregi. Félagsmenn Fellesforbundet (samtök marga iðngreina þar í landi) sem vinna fyrir fyrirtækið Foodora náðu því markmiði sínu að gera kjarasamning um störf sem höfðu áður fallið á milli skips og bryggju. Starfsmenn sem vinna mjög nátengt hinu svokallaða tengihagkerfi (e. Platform economy). Starfsmenn fyrirtækisins, sem eru oftar en ekki skólafólk hafði verið ráðið til starfa eftir óhefðbundnum leiðum, ráðningarkjör og réttindi óljós, gripu til þess ráðs að leggja niður störf með því að beita verkfallsvopninu. Baraáttan skilaði kjarasamningi vegna þessara starfa. Virkilega vel gert!

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hjá okkur þá fór fram afhending sveinsbréfa á laugardaginn þar sem 49 nýsveinar fengu sveinsbréfin afhent. Það er alltaf jafn gaman að koma að þessum merka viðburði í lífi þeirra sem ná þessum áfanga. Sveinsbréfin veita bæði aðgang að því að starfa sem rafvirki, rafeindavirki eða í þeirri grein sem lokið er. Sveinsbréfið veitir því rétt til þess að vinna í greininni en auk þess eru atvinnumöguleikar gríðarlega miklir enda skortur á iðnaðarmönnum hér á landi. 

Sveinsbréf og starfsreynslan veitir jafnframt aðgang að frekara námi og tala nú ekki um ljúki nemendur stúdentsprófi frá iðn- eða verknámsskóla samhliða iðnnáminu (sem er ekki veruleg viðbót í tíma) þá opnast fjölmargar leiðir til frekara náms og þeir einstaklingar sem það velja verða iðulega mjög eftirsóttir í atvinnulífinu að því loknu enda með einkar dýrmæta reynslu í farteskinu hvort sem valið verður að hefja störf sem iðnaðarmaður eða sækja meiri menntun. Hvetjum þó sem flesta að fara beint út á vinnumarkaðinn enda góð staða þar.

 

Til hamingju með sveinsbréfin nýsveinar!

KÞS

 

Sveinsbrefaafhending 2Í gær voru sveinsbréf afhent í Reykjavík og voru það nýsveinar í rafvirkjun, rafveituvirkjun og rafeindavirkjun sem luku sveinsprófi. Alls voru það 45 rafvirkjar, 3 rafveituvirkjar og einn rafeindavirki sem fengu boð um að taka á móti sveinsbréfum í Reykjavík en næst verða sveinsbréf afhent á Akureyri um miðjan október.

 

Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá var föngulegur og ánægður hópur sem var með okkur. Í kjölfar formlegrar afhendingar var boðið upp á veitingar. Að því loknu sátu eftir nokkrir nýsveinar og gestir þeirra og tóku þátt í fögnuði RSÍ-UNG þar sem fram fór meðal annars Pöbb-Quiz. Mikil baraátta var um efsta sætið þar en fór svo að nýsveinarnir Hrafn Ingi og Júlíus Þór hrepptu fyrstu verðlaun, ásamt þeirra liðsmönnum. Fengu þeir gjafabréf og fjölsviðsmæla. Við óskum öllum nýsveinum innilega til hamingju með þennan stóra áfanga!

rafidnadarsambandid2

Löng hefð er fyrir því hjá Byggiðn og FIT að spila bridge annan hvern fimmtudag yfir vetrartímann og er nú félögum í Rafiðnaðarsambandinu og MATVÍS boðið að taka þátt.  

Spilað verður í matsal á  Stórhöfða 31 (gengið inn Grafaravogsmegin) og hefst spilamennskan stundvíslega kl. 19:30.

 

Fimmtudaginn 26. september er upphitun fyrir spilamenskuna og eru félagar Rafiðnaðarsambandsins og MATVÍS boðnir sérstaklega velkomnir.

 

Mótaröð til jóla:

26.sept. Upphitun

10.okt.   FIT-bikarinn tvímenningur

24.okt.   FIT-bikarinn tvímenningur

07.nóv.  Hraðsveitakeppni

21.nóv.  Hraðsveitakeppni

05.des.   Hraðsveitakeppni

18.des.   Jólamót (miðvikudagur)  

rafidnadarsambandid bleikur

Skrifstofa RSÍ verður lokuð frá kl 12:00 föstudaginn 27. september vegna óvissuferðar starfsfólks. 

rafidnadarsambandidEnn halda kjaraviðræður áfram. Í vikunni var fundað með fulltrúum Landsvirkjunar, ISAL, Orkuveitu Reykjavíkur og fulltrúum ríkisins svo eitthvað sé nefnt. Viðræður ganga misvel en er það von fulltrúa RSÍ að tíðinda fari að vænta innan skamms. 

Miðstjórn RSÍ var með vinnufund á Selfossi undir lok vikunnar þar sem unnið var með stefnumótun innra starfsins auk þess sem unnið var með hin ýmsu mál sem tengjast starfi sambandsins og aðildarfélaga. Skipað var í starfsnefndir miðstjórnar, siðareglur RSÍ ræddar auk fleiri málefna.

Í vikunni var stór ráðstefna í Hörpu þar sem fjallað var um #MeToo en ráðstefnan var sótt m.a. af fulltrúum úr verkalýðshreyfingunni. Á þingi RSÍ var haldin rakarastofa þar sem jafnréttismál voru rædd en eins og fram hefur komið þá ákvað þing RSÍ að RSÍ verði bakhjarl UN Women á Íslandi næstu fjögur árin. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálar jafnréttis.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Norrænt tengslanet um fullorðinsfræðslu stóðu fyrir ráðstefnu um raunfærnimat í atvinnulífinu. Fjallað var um tilraunaverkefnið “Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins”.

 

Fundur var haldinn í miðstjórn ASÍ en rétt er að vekja sérstaka athygli á ályktun sem send var frá miðstjórninni um þær skattkerfisbreytingar sem komu fram í fjárlagafrumvarpinu. 

ASI ung rautt

Alþjóðlega loftslagsaðgerðavikan 20. - 27. september 2019

Áskorun frá ASÍ-UNG og Evrópusambandi verkalýðsfélaga/ETUC
ASÍ-UNG hvetur aðildarfélög ASÍ til að grípa til aðgerða vegna hamfarahlýnunar í tengslum við alþjóðlegu viku loftslagsaðgerða frá 20. - 27. september. Heimsátakið er skipulagt vegna umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldinn verður í New York þann 23. september.

Á þingi ETUC fyrr á þessu ári í Vín var samþykkt ályktun um mikilvægi þess að virkja stéttarfélög og félagsmenn til aðgerða næstu fjögur árin vegna hamfarahlýnunar af mannavöldum. Í aðgerðaáætlun ETUC 2019-2023 skuldbinda samtökin sig til að vinna markvisst að róttækum loftslagsaðgerðum.

Á undanförnum misserum höfum við meðal annars upplifað fordæmalausa skógarelda í Amazon og Síberíu, bráðnun jökla á norðurslóðum, banvæna monsúnvinda á Indlandi og hitabylgjur um alla Evrópu. Þetta hefur allt haft mikil áhrif á líf og störf fólks. 

Allt síðasta ár hefur ungt fólk vakið athygli á þeirri vá sem hamfarahlýnun af mannavöldum er með vikulegum loftlagsverkföllum þar sem krafist er aukinna aðgerða stjórnvalda í loftlagsmálum.

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna svarar ákalli unga fólksins og hefur boðað leiðtoga heims til loftlagsráðstefnu í New York. Af því tilefni hvetur unglingahreyfingin til loftlagsverkfalla og vitundarvakningar vikuna 20. - 27. september (sjá: https://globalclimatestrike.net/).

Við hvetjum aðildarfélög til þess að vera virk í baráttunni gegn hamfarahlýnun og standa vörð um félagslegt réttlæti (e. Just Transition) í þeim breytingum sem fram undan eru á vinnumarkaði.

ASÍ-UNG hvetur öll aðildarfélög ASÍ til þess að taka virkan þátt í aðgerðavikunni 20.-27. september. Loftslagsverkfall – Ísland hefur meðal annars boðað til loftlagsverkfalls á föstudaginn kemur, 20. september. Á Facebook síðu þeirra má svo einnig sjá lista fyrir fjölda annarra viðburða sem skipulagðir hafa verið í tengslum við aðgerðavikuna.

Hægt er að leggja málefninu lið með því að vekja athygli á vefsíðum og samfélagsmiðlum auk þess að taka þátt í skipulögðum viðburðum.

Sýnum samstöðu gegn hamfarahlýnun af mannavöldum!

Stjórn ASÍ-UNG

rafidnadarsambandid2Helst er það að frétta af starfi síðustu viku að fundir voru haldnir vegna endurnýjunar kjarasamninga RSÍ við Rarik, ISAL sem og fleiri vinnufundir vegna annarra kjarasamninga. 

Vinnustaðaeftirlit hefur verið eflt hjá RSÍ og öðrum iðnfélögum á Stórhöfða á undanförnum mánuðum með ráðningu sameiginlegs eftirlitsfulltrúa. RSÍ tekur auk þess þátt í sameiginlegu eftirliti víðar um landið í samstarfi við önnur stéttarfélög innan ASÍ. Eftirlitið fer því fram víðsvegar um landið. Af eftirlitsferðum vikunnar má nefna að fulltrúar okkar fóru víða um Höfuðborgarsvæðið en auk þess var farin ferð á Suðurlandið, Vestamannaeyjar svo dæmi séu nefnd. 

Æfingar til undirbúnings EuroSkills keppni næsta árs eru hafnar enda krefst þátttaka í keppni sem þessari mikils undirbúnings. 

Fundur var með fulltrúum ríkisstjórnarinnar þar sem farið var yfir stöðu málefna sem ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess að vinna framgang í tengslum við kjarasamningana í sumar. 

Í morgun var síðasta golfmót sumarsins þar sem Minningarmót Stefáns Ó. Guðmundssonar var haldið á Kálfatjarnarvellinum á Vatsnleysuströnd. Stefán Ó. heitinn var mikill golfunnandi og var mikill drifkraftur hvað varðaði að halda skemmtileg golfmót fyrir félagsmenn RSÍ, Spennugolfið sem og haustmót RSÍ. Mótinu hefur verið stýrt af Guðbirni Ólafssyni og Helga Einarssyni um árabil og ætíð af mikilli fagmennsku. Mótið í dag var engin undantekning frá því, vel heppnað og skemmtilegt. Veðrið setti þó strik í reikninginn en úrhellisrigning var í morgun en stytti upp á meðan á leik stóð, að mestu.

 Minningarmot 2019 3

Í næstu viku verða  að minnsta kosti samningafundir vegna kjarasamninga við Landsvirkjun, Landsnet OR (og dótturfélög), ISAL. 

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?