rafidnadarsambandid2Á undanförnum árum og áratugum hafa alþingismenn og ráðherrar svo gott sem keppst um að tala sem fallegast um eflingu iðnnáms. Núverandi ráðherra er þar á meðal og hefur hún staðið að því meðal annars að reyna að auka aðsókn í kennslufræði fyrir iðnmeistara (sem sagt búa til fleiri kennara til að kenna greinarnar okkar) sem er vel. Á síðasta ári sáum við verulega aukningu á aðsókn í iðnnám í framhaldsskólunum sem var verulega ánægjulegt. Sumir skólanna ef ekki flestir þurftu reyndar að vísa nemendum frá vegna fjölda takmarkana.

Nú heyrast af því fréttir, bæði á síðustu vorönn og nú haustönn, að enn fleiri nemendum hafi verið vísað frá sökum þess að fjármunir sem ríkið leggur til skólanna hafi klárast og í raun sú fjölgun sem varð síðasta haust hafi orðið til þess að skólarnir hafi mögulega notað fjármagn komandi anna til að taka á móti nemendum það árið. 

Þetta þýðir að sú aukna aðsókn sem kom dregur í raun úr fjölda nemenda á næstu önnum. Þetta getur ekki verið markmið ráðherra til eflingar á iðngreinum. Við þurfum á fleiri iðnmenntuðum einstaklingum út á vinnumarkaðinn og við þurfum að tryggja nemendum nám við hæfi, aðgang að námi sem skilar sér í auknum tekjum úti á vinnumarkaði, meira atvinnuöryggi en ekki síður auknum tækifærum í áframhaldandi menntun í framtíðinni. Það er bráðnauðsynlegt að stjórnvöld rýni betur í stöðuna og bregðist við með auknum fjármunum og geri skólunum kleyft að taka við fleiri nemendum í iðngreinarnar. Núverandi fyrirkomulag er ekki til þess fallið að stuðla aukinni aðsókn líkt og kallað er eftir. Látum raunverulegar aðgerðir fylgja í kjölfar ræðanna.

Kristján Þórður

Formaður RSÍ

 

rafidnadarsambandid bleikur

Vegna forfalla er hús 13 á Einarsstöðum laust frá 06.09-09.09.2019

 

rafidnadarsambandid2Helstu fréttir úr starfi RSÍ í síðustu viku eru þær að samningafundir hafa verið haldnir en viðræður við þá samningsaðila sem á eftir að ganga frá kjarasamningum eru að komast á fullt skrið. Í þar síðustu viku var skrifað undir kjarasamning við Já fyrir hönd RSÍ/FÍS. Í vikunni var sá kjarasamningur kynntur fyrir félagsmönnum og atkvæðagreiðsla hófst en hún stendur fram í næstu viku. Samningafundir voru haldnir hjá Rarik og Landsvirkjun. Samtöl og fundir hafa verið í gangi við Ríkið um endurnýjun þess kjarasamnings. Viðræðurnar hafa farið mjög hægt af stað af hálfu viðsemjanda okkar. Fundir hafa verið við Reykjavíkurborg á síðustu vikum. Vinnufundir hafa farið fram varðandi ýmis mál þessu tengt.

Fundur var haldinn í trúnaðarráði ISAL þar sem farið var yfir stöðu mála hjá fyrirtækinu. Eins og sást í fréttum um helgina er uppkeyrsla kerskála 3 hafin. Það er virkilega jákvætt að starfsemin sé að fara í rétta átt. Viðræður við samninganefnd fyrirtækisins fara fljótlega af stað en eins og fram kom í sumar þá var viðræðum við flesta samningsaðila frestað fram í september. Stefnt er að því að koma viðræðum vegna annarra kjarasamninga af stað í næstu viku en þegar er búið að ganga frá 7 kjarasamninga hjá RSÍ.

Miðstjórnarfundur var haldinn 23. ágúst síðastliðinn en fundurinn var sá fyrsti eftir sumarleyfistímabilið. Á fundinum var staða kjaraviðræðna til umræðu og samskipti við stjórnvöld í tengslum við þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið. Virklega jákvætt er að frá því kjarasamningar voru gerðir í byrjun apríl og maí þá hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands lækkað um 1 prósentustig. Fyrir skuldsett heimili þá er þetta gríðarlega mikilvægt en tökum dæmi um lán með breytilegum vöxtum og jafnar afborganir þá geta greiðslur hafa lækkað um allt að tæpar 17.000 kr. á mánuði eða á ársgrundvelli um 200.000 kr. Slík lækkun vaxtastigs skiptir gríðarlegu máli fyrir heimili landsins. Það er því tilvalið fyrir félagsmenn að fylgjast vel með þeim vaxtakjörum sem þeir njóta og endurskoða lán ef þannig ber undir. Birta lífeyrissjóður býður upp á mjög hagstæð vaxtakjör svo dæmi sé nefnt.

Á fundi í miðstjórn ASÍ var lagt til að krefjast þess að Alþingi tæki upp breytt fyrirkomulag á framlagningu álagninaskrár og það yrði gert með rafrænum hætti og aðgengilegt fyrir landsmenn öllum stundum. Þar yrðu allir álagðir skattar birtir. Þetta er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt til þess að opinbera þá miklu misskiptingu sem við búum við.

Í lok vikunnar var fundur haldinn í stjórn Norræna Rafiðnaðarsambandsins þar sem formaður RSÍ fór yfir stöðu mála hér á landi en fundirnir eru haldnir með nokkuð reglubundnum hætti og staðan reifuð í hverju landi fyrir sig.

Um helgina var haldið golfmót iðnaðarmanna á Akureyri sem tókst að vanda virkilega vel til og var ekki annað að heyra en að ánægja hefði verið með mótið. hátt í 70 manns tóku þátt í mótinu og fór Guðmundur Helgi formaður VM holu í höggi á holu 18. Virkilega vel gert.

Á þriðjudag í næstu viku hefst þing NFS, Norrænu verkalýðssamtakanna, sem fram fer í Malmö í Svíþjóð. Ísland sinnir formennsku NFS og hefur jafnframt það verkefni að halda fundinn þó svo hann fari fram í Svíþjóð. Alþýðusamband Íslands er aðili að NFS auk BSRB og BHM. Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður NFS fyrir hönd Íslands. Það hefur sennilega ekki framhjá mörgum að forsætisráðherra Íslands mun sækja fundinn og ávarpa fundinn.  

Í lok næstu viku verður LÝSA, rokkhátíð samtalsins haldin í Hofi á Akureyri. RSÍ ásamt aðildarfélögum og önnur félög iðnaðarmanna standa saman að samtali um ýmis málefni og hvetjum við félagsmenn til þess að kíkja við í Hofi frá kl. 12 á föstudeginum til kl. 16 á laugardeginum. Þetta er kjörinn vettvangur til þess að ræða allt á milli himins og jarðar.

Kristján Þórður

asiMiðstjórn ASÍ sendi frá ssér ályktun í dag um launamál og misskiptingu í samfélaginu. Þetta er klárlega komið úr öllu hófi eins og bent hefur verið á árvisst á undanförnum áratugum. Ályktun miðstjórnar ASÍ hljóðar svo:

"Komið hefur í ljós að sú aðgerð að leggja niður kjararáð hefur valdið launaskriði hjá þeim hæstlaunuðu hjá ríkinu. Það var engin umræða um sanngjörn laun í tengslum við þá aðgerð. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Á meðan við leggjum ekki skýrar línur í þessum málum skiptir engu máli hverjir ákveða launin. Einföld aðgerð eins og að breyta því hverjir ákveða laun þeirra launahæstu skilar engu réttlæti í sjálfu sér án skýrra reglna um launaákvarðanir. Tilhneigingin er alltaf sú að þeir sem hafa meira fá meira og þeir sem minna hafa fá minna.

Það er löngu tímabært að mótuð verði skýr og sanngjörn launastefnu hjá ríkinu og í stjórnum fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Festa þarf í lög að fyrirtæki geri grein fyrir launabili í ársreikningum og stjórnvöld þurfa að setja skýra launastefnu þar sem tilgreint er hvert launabilið megi vera á milli þeirra hæst launuðu og lægst launuðu. 

Við þurfum að bregðast við þeirri móðgun og augljósu stéttaskiptingu sem birtist okkur í hvert sinn sem skattskrár eru gerðar opinberar. Það er ekki nóg að fordæma ofurlaun einu sinni á ári án þess að aðhafast nokkuð. Það er kominn tími til aðgerða.

Miðstjórn ASÍ hvetur fulltrúa í stjórnum, trúnaðarmenn á vinnustöðum, stjórnmálafólk, starfsfólk og stjórnendur til að ræða launamun innan þeirra fyrirtækja og stofnana sem og innan samfélagsins alls. Móta þarf stefnu sem byggir á niðurstöðu þess samtals.

Það er afar brýnt að allir landsmenn greiði skatta og gjöld til samfélagsins óháð uppruna tekna, svo sem arðgreiðslur úr fyrirtækjum eða fjármagnstekjur. Upplýsingar um slíkt þurfa að vera aðgengilegar  og gagnsæjar. Miðstjórn ASÍ hvetur Alþingi jafnframt til að samþykkja að birta álagningarskrár með rafrænum hætti, þar sem birtir eru allir álagðir skattar, þannig að aðgengi að þessum samfélagslega mikilvægu upplýsingum sé tryggt."

asi rautt

Frá vormánuðum hefur verkalýðshreyfingin ítrekað kallað eftir tillögum ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir fyrir lágtekjufólk. Miðstjórn ASÍ hefur nú þrotið þolinmæðin og krefst þess að ríkisstjórnin sýni á spilin.

Í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga sem undirritaðir voru 4. apríl segir:

  1. Komið verði á fót þriggja þrepa skattkerfi með nýju lágtekjuþrepi. Miðað er við að sú aðgerð auki ráðstöfunartekjur tekjulægsta hópsins um tíu þúsund krónur á mánuði. 

  2. Skattleysismörk haldist föst að raunvirði á innleiðingartímabilinu og að því loknu hækki persónuafsláttur og skattþrep umfram verðbólgu sem nemi framleiðniaukningu. 

Nú tæpum 5 mánuðum eftir undirritun kjarasamninga eru einu skattatillögur stjórnvalda áform um breytingar á fjármagnstekjuskatti þannig að fjármagnseigendur þurfi ekki að greiða skatt af öllum fjármagnstekjum heldur einungis raunvöxtum. Það virðist því forgangsatriði hjá ríkisstjórninni að hlífa fjármagnseigendum við að greiða sitt til samfélagsins eins og launafólki ber að gera. Á meðan bólar ekkert á áðurnefndum skattalækkunum fyrir lágtekjufólk. 

Við undirritun samninga var lögð mikil áhersla á þetta atriði og var það forsenda þess að kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins voru undirritaðir og síðar samþykktir af félögum stéttarfélaganna. Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um að sjá tillögurnar eru þær ekki enn komnar fram og krefst miðstjórn ASÍ þess að þær líti dagsins nú þegar. 

 

rafidnadarsambandid2

Í gær var skrifað undir kjarasamning við Já. Samningurinn byggir á þeim samningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði, kauptaxtar hækka um 90.000 kr á samningstímanum, almenn launahækkun til þeirra sem ekki taka laun samkvæmt kauptöxtum er 68.000 kr. á samningstímanum. Stytting vinnutímans verður framkvæmd með þeim hætti að vinnutími styttist um 10 mínútur á dag eða samtals 50 mínútur á viku. Nánari útfærsla á framkvæmdinni verður í höndum starfsmanna og fyrirtækis.

Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn hefst þriðjudaginn 27. ágúst og lýkur 5. september. Kjarasamningurinn verður kynntur starfsmönnum og verða kynningarfundi auglýstir sérstaklega. 

golf ak 2019

Framundan er golfmót á Norðurlandi fyrir félagsmenn iðnaðarmannafélaganna, félagmenn aðildarfélaga Rafiðnaðarsambandsins eru þar á meðal að sjálfsögðu. Mótið fer fram laugardaginn 31. ágúst á Jaðarsvelli á Akureyri. Mæting á mótið er kl. 12:00. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á skrifstofa@gagolf.is og taka ber fram frá hvaða félagi viðkomandi er auk þess þarf að skrá maka ef hann spilar líka. Þeir sem vilja spila saman verða að taka það fram við skráninguna.


Mótsgjald er kr. 5.000 og innifalið í því er teiggjöf, spil á vellinum og matur að loknu spili. Vegleg verðlaun verða í boði!

Veitt verða verðlaun fyrir: höggleik án forgjafar, punktakerfi, nándarverðlaun, lengsta teighögg og einnig verður dregið úr skortkortum. Það eiga því allir möguleika á verðlaunum en fyrst og fremst verður þetta mikil skemmtun!

regnbogi2

Vegna forfalla er hús 30 á Einarsstöðum laust vikuna 16.-23. ágúst. (Smella hér til að bóka) 

 

rafidnadarsambandid bleikur

Vegna forfalla eru lausar tvær vikur á Spáni frá 20. ágúst til 3. september. Um er að ræða frábærar íbúðir á skemmtilegum stað, fyrstur kemur fyrstur fær.

wIMFR Nysveinar 090219 JSX2626 bannerÁrið 2014 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) að halda upp á alþjóðadag ungs fólks sem meðal annars hefur iðnmenntun og hefur 15. júlí verið haldinn hátíðlegur síðan. Í kjölfarið fylgdu samtökin World Skills í fótspor SÞ og taka þátt í þessum degi ungra iðnaðarmanna. Það er ljóst að áskoranir vinnumarkaðarins verða miklar á komandi árum og við erum í dag raunverulega farin að sjá áhrif alþjóðavæðingar á þróun ýmissa starfa. Sjálfvirknivæðing starfa felur í sér áskoranir einar og sér en gefur okkur líka gríðarleg tækifæri á að sækja fastar fram til að tryggja góð og vellaunuð störf. Rafiðnaðarmenn munu verða í framlínu í þessari tækniþróun. Störf rafiðnaðarmanna munu gegna lykilhlutverki í innleiðingu nýrrar tækni og jafnframt til að viðhalda tækninýjungum. 

Það er því ljóst að á komandi árum verða iðnaðarmenn eftirsóttir starfskraftar og við þurfum að tryggja að öllum standi til boða að sækja sér þá menntun sem hentar hverjum og einum. Í rafiðnaði eru fjölmargar mismunandi greinar í boði og bjóða allar upp á mikil tækifæri. Við hvetjum ungt fólk því til að kynna sér námsframboð í rafiðngreinum sem meðal annars má nálgast upplýsingar um á www.straumlina.is

Endilega kíktu á þetta myndband sem WorldSkills hefur tekið saman í tilefni dagsins. Við viljum efla iðnaðinn á Íslandi og bjóða ungt fólk velkomið í rafiðngreinarnar. #WYSD2019

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?