Fréttir frá 2019

12 2. 2019

Samningar kynntir, lífeyrismál og miðstjórn RSÍ

rafidnadarsambandid2Staða kjaraviðræðna er þannig að búið er að skrifa undir kjarasamninga við RARIK og HS Veitur og hefur samningur við HS Veitur þegar verið samþykktur og greitt var út í samræmi við samninginn um mánaðarmótin. Kjarasamningur við RARIK var kynntur fyrir starfsfólki í morgun. Kjarasamningarnir byggja á sama grunni og þeir samningar sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum. 

Á föstudag var haldinn miðstjórnarfundur hjá RSÍ þar sem farið var yfir stöðu kjaraviðræðna, skipað var í Félagsdóm iðngreina en dómurinn er hluti af Félagsdómi og er kallaður til þegar málefni tengist viðkomandi greinum. Farið var yfir stöðu ýmissa verkefna sem eru í gangi hjá RSÍ en má þar nefna að nú stendur yfir stefnumótunarvinna hjá sambandinu þar sem horft verður fram á veginn, hvernig við viljum sjá RSÍ á næstu 5-10 árum. Vinnan er rétt að fara af stað og stefnt er að því að henni ljúki í byrjun maí á næsta ári. 

Innan verkalýðshreyfingarinnar eru miklar umræður um stöðu lífeyrismála en í tengslum við síðustu kjarasamninga lögðum við mikla áherslu á að styrkja stöðu félaga okkar þegar kemur að lífeyrisréttindum. Lögfesting á hærra framlagi í sjóðina með þeim mikilvæga möguleika á að velja hvort viðbótin fari í samtryggingarsjóð eða í tilgreinda séreign. Það er gríðarlega mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því hvaða áhrif það hefur að ákveða að ráðstafa iðgjaldinu að hluta úr samtryggingarsjóðnum því slíkt hefur áhrif á þau réttindi sem sjóðurinn greiðir til æviloka. Slíkt getur jafnframt haft veruleg áhrif missi starfsfólk starfsgetuna á starfsferlinum. Þegar örorkubætur eru greiddar þá er tekið tillit til uppreiknaðs framlags til loka starfsævinnar og getur því skipt sköpum verði fólk fyrir skakkaföllum sem þessum.

Það er ljóst að nauðsynlegt verður fyrir verkalýðshreyfinguna að taka stefnumarkandi umræðu innan okkar raða um það með hvaða hætti við sjáum lífeyriskerfið og samspil við almannatryggingar til frambúðar. Þriggja stoða kerfi samtryggingar, almannatryggina og séreignarsparnaðar var uppleggið að því kerfi sem við búum við í dag þó svo að ríkið hafi dregið verulega úr vægi framlags TR í þessu verkefni. Því þarf að breyta! En hvernig viljum við sjá þetta til framtíðar þegar við erum komin á hálfrar aldar afmælisár lífeyriskerfisins.

Í vikunni halda kjaraviðræður áfram, fundað verður með fulltrúum Landsnets, OR og Ríkisins. 

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?