Fréttir frá 2019

10 6. 2019

Kjarasamningar, tæknidagur fjölskyldunnar og spjaldtölvur

rafidnadarsambandid2Nýjustu fréttir úr starfi RSÍ þær helstar að í vikunni sem er að líða héldu áfram fjöldi samningafunda. Því miður hefur ekki tekist að ljúka gerð nýrra kjarasamninga í þessari viku en nú er verulegrar óþreyju farið að gæta með að ljúka gerð allra kjarasamninga. Tíundi mánuðurinn án þess að endurnýjun sé lokið er ekki ásættanlegt. Frestun kjarasamninga í sumar þar sem fyrirframgreiðsla á launahækkunum var greidd út gerir það þó að verkum að sá tími stendur ekki að öllu leyti óbættur en það getur ekki gengið mikið lengur með óbreyttu sniði. 

Fundað var með samninganefndum Landsvirkjunar, Rarik, OR auk þess sem óformlegir fundir og samtöl um hina ýmsu kjarasamninga. Nú styttist í að fleiri samningar renni út en má þar nefna að kjarasamningur RSÍ og annarra stéttarfélaga við Norðurál sem og kjarasamningur við Elkem gilda til loka þessa árs. Kjarasamningur RSÍ og Afls við Alcoa gildir til 29. febrúar 2020. 

Skrifstofa RSÍ fékk heimsókn frá trúnaðarmönnum sem vinna hjá fyrirtækinu Aker Solutions í Noregi. Trúnaðarmennirnir koma frá fimm stéttarfélögum sem eru innan norska Alþýðusambandsins (LO) og vildu fræðast um íslenskt samfélag og stöðu mála hér á landi. Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ fór yfir uppbygginguna hjá okkur auk þess sem formaður RSÍ fór yfir starfsemi RSÍ og aðildarfélaga. Uppbygging sjúkrasjóða hér á landi þótti þeim mjög áhugaverð sem og hversu fjölbreytt starf stéttarfélaga er og mikil þjónusta við félagsmenn á ýmsum sviðum. Það var virkilega ánægjulegt fyrir okkur að fá heimsókn frá félögum okkar í Noregi.

Í tengslum við kjarasamninga sem samþykktir voru í sumar þá var fjöldi þátta sem stjórnvöld komu með að samningaborðinu til að liðka fyrir kjarasamningum. Í vikunni héldu áfram fundir þar sem farið var yfir stöðu mála. Það var verulega ánægjulegt að Seðlabanki Íslands ákvað að lækka stýrivexti í vikunni um 0,25% en þá hafa stýrivextir lækkað um 1,25% frá því kjarasamningar voru undirritaðir. Þessi lækkun getur haft verulega jákvæð áhrif á skuldsett heimili þar sem vaxtakjör eru breytileg. Þetta veitir jafnframt svigrúm til þess að endurfjármagna íbúðalán ef vaxtakjör hafa ekki lækkað eða eru óhagstæð. 

Á föstudag var haldinn sameiginlegur félagsfundur RSÍ og FÍR á Reyðarfirði. Ástæða fundarins var að fulltrúar RSÍ voru á leið á Tæknidag fjölskyldunnar í Verkmenntaskóla Austurlands á Norðfirði. Fundurinn var ágætlega sóttur en á milli 20 og 30 manns voru á staðnum. Á tæknidegi fjölskyldunnar voru störf í rafiðnaði kynnt auk þess sem fulltrúar Rafmenntar afhentu nýnemum í rafiðngreinum í skólanum spjaldtölvur til þess að nota í skólanum. En RSÍ og SART hafa staðið fyrir útgáfu rafræns námsefnis nemendum að kostnaðarlausu. Almenn ánægja er með framtakið á meðal nemenda og kennara.

KÞS

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?