Fréttir frá 2019

09 1. 2019

Fréttir líðandi viku

 

rafidnadarsambandid2Helstu fréttir úr starfi RSÍ í síðustu viku eru þær að samningafundir hafa verið haldnir en viðræður við þá samningsaðila sem á eftir að ganga frá kjarasamningum eru að komast á fullt skrið. Í þar síðustu viku var skrifað undir kjarasamning við Já fyrir hönd RSÍ/FÍS. Í vikunni var sá kjarasamningur kynntur fyrir félagsmönnum og atkvæðagreiðsla hófst en hún stendur fram í næstu viku. Samningafundir voru haldnir hjá Rarik og Landsvirkjun. Samtöl og fundir hafa verið í gangi við Ríkið um endurnýjun þess kjarasamnings. Viðræðurnar hafa farið mjög hægt af stað af hálfu viðsemjanda okkar. Fundir hafa verið við Reykjavíkurborg á síðustu vikum. Vinnufundir hafa farið fram varðandi ýmis mál þessu tengt.

Fundur var haldinn í trúnaðarráði ISAL þar sem farið var yfir stöðu mála hjá fyrirtækinu. Eins og sást í fréttum um helgina er uppkeyrsla kerskála 3 hafin. Það er virkilega jákvætt að starfsemin sé að fara í rétta átt. Viðræður við samninganefnd fyrirtækisins fara fljótlega af stað en eins og fram kom í sumar þá var viðræðum við flesta samningsaðila frestað fram í september. Stefnt er að því að koma viðræðum vegna annarra kjarasamninga af stað í næstu viku en þegar er búið að ganga frá 7 kjarasamninga hjá RSÍ.

Miðstjórnarfundur var haldinn 23. ágúst síðastliðinn en fundurinn var sá fyrsti eftir sumarleyfistímabilið. Á fundinum var staða kjaraviðræðna til umræðu og samskipti við stjórnvöld í tengslum við þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið. Virklega jákvætt er að frá því kjarasamningar voru gerðir í byrjun apríl og maí þá hafa stýrivextir Seðlabanka Íslands lækkað um 1 prósentustig. Fyrir skuldsett heimili þá er þetta gríðarlega mikilvægt en tökum dæmi um lán með breytilegum vöxtum og jafnar afborganir þá geta greiðslur hafa lækkað um allt að tæpar 17.000 kr. á mánuði eða á ársgrundvelli um 200.000 kr. Slík lækkun vaxtastigs skiptir gríðarlegu máli fyrir heimili landsins. Það er því tilvalið fyrir félagsmenn að fylgjast vel með þeim vaxtakjörum sem þeir njóta og endurskoða lán ef þannig ber undir. Birta lífeyrissjóður býður upp á mjög hagstæð vaxtakjör svo dæmi sé nefnt.

Á fundi í miðstjórn ASÍ var lagt til að krefjast þess að Alþingi tæki upp breytt fyrirkomulag á framlagningu álagninaskrár og það yrði gert með rafrænum hætti og aðgengilegt fyrir landsmenn öllum stundum. Þar yrðu allir álagðir skattar birtir. Þetta er gríðarlega mikilvægt og nauðsynlegt til þess að opinbera þá miklu misskiptingu sem við búum við.

Í lok vikunnar var fundur haldinn í stjórn Norræna Rafiðnaðarsambandsins þar sem formaður RSÍ fór yfir stöðu mála hér á landi en fundirnir eru haldnir með nokkuð reglubundnum hætti og staðan reifuð í hverju landi fyrir sig.

Um helgina var haldið golfmót iðnaðarmanna á Akureyri sem tókst að vanda virkilega vel til og var ekki annað að heyra en að ánægja hefði verið með mótið. hátt í 70 manns tóku þátt í mótinu og fór Guðmundur Helgi formaður VM holu í höggi á holu 18. Virkilega vel gert.

Á þriðjudag í næstu viku hefst þing NFS, Norrænu verkalýðssamtakanna, sem fram fer í Malmö í Svíþjóð. Ísland sinnir formennsku NFS og hefur jafnframt það verkefni að halda fundinn þó svo hann fari fram í Svíþjóð. Alþýðusamband Íslands er aðili að NFS auk BSRB og BHM. Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður NFS fyrir hönd Íslands. Það hefur sennilega ekki framhjá mörgum að forsætisráðherra Íslands mun sækja fundinn og ávarpa fundinn.  

Í lok næstu viku verður LÝSA, rokkhátíð samtalsins haldin í Hofi á Akureyri. RSÍ ásamt aðildarfélögum og önnur félög iðnaðarmanna standa saman að samtali um ýmis málefni og hvetjum við félagsmenn til þess að kíkja við í Hofi frá kl. 12 á föstudeginum til kl. 16 á laugardeginum. Þetta er kjörinn vettvangur til þess að ræða allt á milli himins og jarðar.

Kristján Þórður

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?