Fréttir frá 2019

03 29. 2019

Vegna gjaldþrots WOW air

rafidnadarsambandid bleikur

Í ljósi frétta síðustu daga um gjaldþrot WOW air hvetjum við félagsmenn sem störfuðu hjá WOW air að huga að sínum rétti og hafa samband við skrifstofu Rafiðnaðarsambandsins til þess að fá aðstoð með sín mál. Upplýsingar er að finna hjá Vinnumálastofnun um það hvernig sækja á um atvinnuleysisbætur en mikilvægt verður ef það kemur til skipta á þrotabúi félagsins að lýsa kröfum í búið vegna launa.

Sími hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands er 5 400 100 og hægt er að senda tölvupóst á rsi@rafis.is

 

Uppsögn á ráðningarsamningi – hagnýtar upplýsingar

Gjaldþrot WOW air og erfiðleikar í ferðaþjónustunni hafa því miður leitt til þess að töluvert af fólki sem starfar við tengda starfsemi hefur fengið tilkynningu um uppsögn á ráðningarsamningi. Um leið og ASÍ sendir stuðnings- og baráttukveðjur og hvetur félagsmenn til að leita aðstoðar stéttarfélags síns, eru hér samateknar hagnýtar upplýsingar um réttarstöðu einstaklinga sem sagt hefur verið upp störfum:

- Uppsögn ráðningarsamnings skal vera skrifleg og á sama tungumáli og ráðningarsamningur viðkomandi.

- Allir eiga rétt á uppsagnarfresti en lengd hans er í flestum tilfellum mismunandi eftir atvinnugrein og starfsaldri. Að jafnaði eiga flestir 1-3 mánaða uppsagnarfrest en allir sem eru óvissir um rétt sinn eru hvattir til að leita nákvæmari upplýsinga hjá stéttarfélagi sínu.

- Meginreglan er sú að efni ráðningarsamnings (þ.á.m. vinnuskylda) helst óbreytt út uppsagnarfrest. Starfsmaðurinn á rétt á launum í uppsagnarfresti skv. ráðningarsamningi þótt atvinnurekandi kjósi að nýta ekki vinnuframlag hans. Mikilvægt er að hafa í huga að einstaklingur sem neitar að vinna uppsagnarfrest sinn fyrirgerir jafnframt rétti sínum til launa.

- Hafi vinnuframlagi á uppsagnarfresti verið hafnað geta tekjur einstaklings í nýrri vinnu komið til frádráttar rétti til greiðslu uppsagnarfrests frá fyrri atvinnurekanda.

- Trúnaðarmönnum stéttarfélaga má ekki segja upp störfum nema það sé rökstutt sérstaklega og að sýnt sé fram á að ekki sé hægt að flytja viðkomandi til innan fyrirtækis enda sé hann hæfur til starfanna. Jafnframt er rétt að hafa hugfast að einstaklingar á leið í fæðingarorlof eða sem nýverið hafa eignast barn má ekki segja upp nema gildar ástæður séu fyrir hendi.

- Við starfslok skal samhliða síðustu launagreiðslu gera upp áunnið orlof, uppsafnaðan frítökurétt og áunnar orlofs- og desemberuppbætur (hlutfallslega ef við á).

- Ekki er hægt að skikka starfsfólk á uppsagnarfresti til að klára sitt orlof áður en uppsagnarfresti lýkur.

- Sé uppsögn það fjölmenn að hún teljist hópuppsögn í skilningi samnefndra laga (10 starfsmönnum eða fleiri sagt upp) er uppsagnarfrestur aldrei styttri en 30 dagar. Í tilviki hópuppsagna er jafnframt skylda fyrir fyrirtæki að eiga samráð við fulltrúa starfsfólks og veita ákveðnar ópersónugreinanlegar upplýsingar um framkvæmd uppsagna áður en hinar eiginlegu uppsagnir eiga sér stað.

- Einstaklingar eiga rétt á atvinnuleysisbótum frá þeim tíma er uppsagnarfresti og nýtingu áunnins orlofs lýkur (ath. hægt er að sækja um töku orlofs síðar). Hvatt er til þess að sótt sé um bætur um leið og uppsagnarfresti lýkur, afgreiðsla umsókna getur tekið 4-6 vikur.

- Grunnatvinnuleysisbætur eru kr. 279.720 á mánuði m.v. 100% starfshlutfall en umsækjandi getur þó átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði sem eru að hámarki kr. 440.970 á mánuði. Tekið skal þó fram að í öllum tilvikum eru grunnatvinnuleysisbætur greiddar fyrstu 2 vikurnar áður en tekjutengingin tekur við.

- Komi til gjaldþrots skal haft í huga að vinnulaun að hámarki kr. 633.000 á mánuði eru tryggð af Ábyrgðasjóði launa. Í tilviki gjaldþrots er eindregið mælt með því að einstaklingur leiti til stéttarfélags síns eftir aðstoð.

- Stéttarfélögin munu aðstoða einstaklinga og fylgjast með hvort ákvæðum laga og kjarasamninga sé fylgt varðandi forgangsrétt til vinnu fyrir fólk í stéttarfélögum, koma í veg fyrir aukna gerviverktöku o.s.frv.

Ítarlegri upplýsingar um lok ráðningarsambands má finna á vinnuréttarvef ASÍ

Heimasíða Vinnumálastofnunar

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?