Fréttir frá 2019

03 26. 2019

Lögfræðingur ASÍ kjörinn í stjórn ILO

asi rautt

Magnús M. Norðdahl hrl., lögfræðingur ASÍ var þann 18. mars sl. kjörinn í stjórn Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) fyrstur Íslendinga. Magnús var Maggi Nordtilnefndur af norræna verkalýðssambandinu, NFS, studdur af alþjóðasambandi verkafólks, ITUC og einróma kjörinn af fulltrúum alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar til þessa embættis. Magnús hefur verið fulltrúi íslenskrar verkalýðshreyfingar á þingum ILO sl. 20 ár og tekið þátt í fjölmörgum samninganefndum á vettvangi stofnunarinnar. Hann leiddi m.a. slíka nefnd f.h. verkafólks á árinu 2016. 

ILO var stofnuð 1919 á grundvelli Versalasamninganna og varð við stofnun Sameinuðu þjóðanna fyrsta sérstaka stofnun þeirra. Ísland hefur átt aðild að Alþjóðavinnumálastofnuninni síðan 19. október 1945. ILO er sérstök fyrir það að vera sú alþjóðastofnun sem að jöfnu er stjórnað af ríkisstjórnunum og aðilum vinnumarkaðarins en slíkt er einsdæmi innan alþjóðakerfisins. 

Hlutverk ILO er annars vegar setning alþjóðalaga á sviði vinnuréttar og félagsmála og eftirlit með framkvæmd þeirra laga. Hins vegar snýr hlutverk þess að aðstoð við aðildarríki stofnunarinnar við framkvæmd þessara laga. Umfangsmikið eftirlitskerfi er rekið af stofnuninni og sérstök sjálfstæð 9 manna nefnd, Félagafrelsisnefndin (Committee on Freedom of Associaton - CFA) starfar til þess að taka við og úrskurða kærur um brot gegn alþjóðlega viðurkenndu og vernduðu félagafrelsi og kjarasamningsrétti. Stjórn ILO kaus Magnús einróma þann 25. mars, skv. tilnefningu verkafólks, sem aðalfulltrúa í þessa nefnd en Ísland hefur aldrei áður átt fulltrúa í henni.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?