Fréttir frá 2018

11 8. 2018

Aníta útskrifaðist sem rafvirki og hafði Kristínu sem meistara

Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir t.v. og Kristín Birna Fossdal.  Morgunblaðsmynd: Gunnar Svanberg.

Aníta Sigurbjörg Emilsdóttir útskrifaðist á dögunum sem rafvirki eftir að hafa lokið námi á methraða. Hún bættist þar með í hóp um fimmtíu kvenna sem öðlast hafa fagréttindi í rafiðngreinum hérlendis. Það sem hins vegar sætir sérstökum tíðindum er að meistari hennar í starfsnáminu er líka kona, Kristín Birna Fossdal. Slíkt hefur ekki gerst áður á Íslandi að því er við hjá Rafiðnaðarsambandinu vitum best. Og það sem meira er: Aníta og Kristín eru nú vinnufélagar hjá Orku náttúrunnar – ON og brosa breitt yfir vinnunni, vinnustaðnum og samverunni!

Morgunblaðið fjallaði í máli og myndum um rafvirkjana okkar tvo sunnudaginn 4. nóvember 2018. Þar kemur fram að Anítu hafi aldrei leitt hugann að því að læra rafvirkjun fyrr en eftir að hafa glímt við bilaðan farsíma sem hún vildi gjarnan geta lagfært sjálf. Skemmst er frá því að segja að hún lærði að gera við símann sinn og miklu, miklu meira til. 

Á vordögum 2019 er stefnan sett á háskólanám í Danmörku til að læra rafmagnstæknifræði. 

Svona geta nú bilaðir símar spunnið slungna örlagavefi.

Haft er eftir Kristínu rafvirkjameistara í Morgunblaðinu að hending hafi líka ráðið því að hún lærði rafvirkjun. Það gerðist eftir starfskynningu í tíunda bekk grunnskóla. Hún tók sveinspróf 2001 og varð rafvirkjameistari 2010.

Aníta:
„Rafmagnið er svo skemmtilegt og fjölbreytt. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvað rafmagnið er stór hluti af okkar lífi. Rafmagnið er hvar sem við erum, allar byggingar, tæknin, skólarnir, bílarnir – allt er háð rafmagni. Þú getur unnið við svo margt. En rafmagn er aldrei einfalt. Maður þarf alltaf að einbeita sér og hugsa um hvað maður er að gera.“

Kristín:
„Ég held kannski að of margar stelpur sjái rafvirkjun fyrir sér sem eitthvert „skítadjobb“ og að þær þurfi að vera á skítugu verkstæði. En þetta er alls ekki þannig. Starfið er mjög fjölbreytt og það hentar konum ekki síður en körlum. Þetta er alls ekki bara karlastarf.“

Morgunblaðsviðtalið við Anítu og Kristínu í heild (smella)

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?