Fréttir frá 2018

10 5. 2018

Vinnustaðaeftirlit

rafidnadarsambandid2Eins og glöggt sást í umfjöllun Kveiks, á RÚV í vikunni, þá eru málefni erlendra starfsmanna okkur mjög hugleikin. Staðan á vinnumarkaði er þannig að næga vinnu er að hafa enn sem komið er og skortur er á starfsmönnum. Fyrirtækin hafa þá æði oft gripið þeirra ráða að sækja erlenda starfsmenn og ráða þá til vinnu. Oft eru þeir ráðnir inn í gegnum starfsmannaleigur en í einhverjum tilvikum er um beinar ráðningar að ræða.

Staðan sem starfsmenn eru í er æði oft skelfileg og er það ástæða þess að Rafiðnaðarsamband Íslands stendur fyrir vinnustaðaeftirliti og á undanförnum árum höfum við unnið að verulegri eflingu á eftirlitinu og stefnir í að enn verði aukið við starfskrafta í þessum efnum.

Blekkingarleikur fyrirtækja er ansi oft mikill því fulltrúar fyrirtækjanna eru oft farnir að leita nýrra leiða til að svívirða starfsmenn, greiða ekki rétt laun fyrir unninn vinnutíma. Oft er það þannig að vinnutími sem greiddur er er eingöngu dagvinnutími þó svo að starfsmenn þurfi að vinna marga yfirvinnutíma á dag. Þetta sættum við okkur ekki við og samfélagið í heild á ekki að sætta sig við slíka framkomu! Við þurfum að taka höndum saman til að stöðva slík brot.

Starfsmenn eru í sífellt meiri mæli ráðnir inn sem verktakar í störf sem eru ekkert annað en störf sem hefðbundið ráðningarform á við. Með þessu eru fyrirtækin að setja alla ábyrgð á þann aðila sem ekki getur varið sig. Viðkomandi starfsmaður þarf að standa straum á öllum kostnaði vegna ófyrirséðra atriða. Þessi þróun er því miður víða í Evrópu en verkalýðsfélög vinna að því að stöðva þessa þróun.

Samkvæmt jafnréttislögum þá ber fyrirtækjum að greiða sömu laun fyrir sömu vinnu óháð stöðu eða uppruna fólks.

Það er jafnframt vert að þakka RÚV og starfsmönnum Kveiks fyrir góða umfjöllun um þau verkefni sem við hjá RSÍ og stéttarfélögum innan ASÍ vinnum að en eru ekki alltaf sýnileg.

Kristján Þórður
Formaður RSÍ

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?