Fréttir frá 2008

12 4. 2008

Minningarorð um Sigrúnu Magnúsdóttir

  Sigrún Magnúsdóttir ? F. 29. jan. 1954 . Jarðsett Bústaðakirkju 5. des. 2008   Þegar ég hóf störf hjá eftirmenntun rafiðna lá leið mín oft á skrifstofur Rafiðnaðarsambandsins. Þar starfaði Sigrún sem ritari. Það var æði víðfeðm skilgreining á starfinu miðað við það sem gengur og gerist í dag. Þá var ekki hafin notkun tölva og ritvinnslur með sínum hraðvirku prenturum svo maður tali nú ekki um ljósritunarvélum, þekktust ekki. Það voru ritvélar og ef þurfti að fjölfalda efni fyrir fundi eða senda út efni til félagsmanna voru útbúnir stenslar í ritvélinni og þeir svo settir í fjölfaldara með sinni prentsvertu og öllu því sem þeim fylgdi.   Ritari gerði meira en að hreinrita tilbúið efni. Hlutskipti hennar var að taka allt sem á borði hennar lenti allskonar minnispunktar hripaðir á blaðsnifsi, stundum servéttur eða jafnvel krossviðsplötur. Sundurlaust efni það var síðan hlutverk ritara að stilla þessu upp á skilmerkilegan hátt svo senda mætti virðulegt bréf í ráðuneyti eða til annarra stofanna. Þá voru ekki til leiðréttingarforrit, oft þurfti að skrifa allt á ritvélina upp á nýtt frá upphafi til enda.   Kaffi var lagað með handafli og engar voru uppþvottavélarnar. Færa þurfti dagbækur og fundargerðarbækur með penna. Allt var í belg og biðu og gögn sett upp í geymslu eftir minni. Það var síðan hlutverk ritarans að finna strax til efni sem til var um viðkomandi mál. Finna bréf og minnispunkta, ekki á morgun heldur strax vegna þess að skyndilega var skollin á fundur. Vinnutími starfsmanna stéttarfélaga réðst af því hvað var í gangi og það eina sem var í sambandi við klukku var að skrifstofan opnaði klukkan átta á hverjum morgni oft einnig um helgar. Þetta fyrirkomulag var ekki ofvaxið skilning Sigrúnar, hún hafði alist upp við það á sínu æskuheimili. Faðir hennar var einn ötulasti verkalýðsforinginn á þessum tíma.    Sigrún hafði félagslegan þroska og með góða útgeislun. Aflaði sér vinsælda og virðingar meðal félagsmanna. Áhugamaður um þjóðmál og fylgdist vel með. Hún átti sitt skap og sínar hugsjónir mótaðar í umhverfi félagshyggju og jöfnuðar. Það tókust góð kynni með okkur Sigrúnu, hún fluttist síðar yfir til lífeyrissjóðsins, en hann hefur alltaf verið tengdur starfsemi Rafiðnaðarsambandsins þannig að hún var í raun alltaf í starfsmannahóp sambandsins Traustur og góður vinur, góður drengur eins við segjum. Hún hefur undanfarin ár barist hetjulegri baráttu við illvígan sjúkdóm, gerði það af fullri reisn til síðasta dags.   Fyrir hönd Rafiðnaðarsambands Íslands færi ég Gulla og börnum, ásamt Magnúsi, Bryndísi og systkynum Sigrúnar hugheilar samúðaróskir. Sigrúni þakka ég fyrir mikil og óeigingjörn störf fyrir rafiðnaðarmenn.   Guðmundur Gunnarsson

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?