Fréttir frá 2005

12 27. 2005

Jóla- og áramótahugleiðing 2005. Af hverju reddar Guð þessu ekki?

Boðskapur aðventunnar hvetur okkur til að sýna samstöðu með náunganum. "Allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér." Tæplega þrjár milljónir Afríkubúa munu deyja úr alnæmi á þessu ári. Um stræti Reykjavíkur ráfar ungt fólk sem hefur glatað stefnunni í lífi sínu. Í skjóli öfgatrúar eyða ráðamenn USA billjónum króna í vopn í stað þess að verja þeim fjármunum í að byggja upp atvinnulif. Um þetta fjallar árleg jóla- og áramótahugleiðing formanns Rafiðnaðarsambandsins.  Boðskapur aðventunnar hvetur okkur til að sýna samstöðu með náunganum. "Allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér." Tæplega þrjár milljónir Afríkubúa munu deyja úr alnæmi á þessu ári. Ótölulegur fjöldi barna á fyrir örstutt líf vegna hungurs. Ef við ætlum öll að lifa og búa saman hér á jörð, þá verðum við að taka ábyrgð. Við eigum að elska náungann eins og okkur sjálf, það er ekki heilræði heldur grundvallarboð allra trúarbragða. Við getum flest lagt eitthvað að mörkum og stuðlað að betri lífsafkomu okkar minnstu bræðra.   Utangarðs hjá okkur hér heima liggja nokkrir týndir þjóðfélagsþegnar. Ungt fólk sem lenti á rangri slóð, vegna þess að það varð fyrir aðkasti og einelti. Það varð minnimáttar og útskúfað. Við höfum búið okkur svo miklar þverstæður. Ef einhver lendir í vandræðum í óbyggðum, þá höfum við fljótvirkt kerfi til þess að finna viðkomandi og koma honum til hjálpar. Ekki er horft í kostnað eða mannafla.   Það er auðvelt að finna hina ungu villuráfandi sauði okkar. Það kostar ekki mikið sé litið til eyðileggingarinnar og hinnar stuttu framtíðar þeirra. Þó svo þetta fólk steli tölvunni okkar og bílnum megum við aldrei útskúfa og neita tilvist þeirra sem lenda undir og týnast. Við eigum að hafa tiltæka leitarflokka og finna hina týndu samborgara okkar og hlúa að þeim.   Bush og skoðanabræður hans eru krossfarar nútímans og fara í skjóli ofstækisfullra trúarskoðana og eyða gífurlegum fjárhæðum í vopn. Þeir myndu ná mun lengra og meiri árangri í baráttu sinni gegn hryðjuverkum með því að byggja upp atvinnulífið og gera fátækum launamönnum kleift að berjast fyrir auknum réttindum. Staða bláfátæks fólks leiðir til vonleysis og reiði. Þar skapast frjósamur jarðvegur fyrir uppeldi hryðjuverkamanna. Þar er auðvelt að ná til ungs fólks sem býr í vonleysi láglaunasvæðanna og sannfæra það um nauðsyn óhugnanlegra hryðjuverka.   Kynlífsþrælkun, barnaþrælkun og atvinnukúgun starfsmannaleiga eru orðin áberandi mein á hinu vestræna samfélagi. Þar er það hin blinda auðhyggja sem nýtir sára fátækt til þess að ná arði. Ef hinn bláfátæki sættir sig ekki við það sem að honum er rétt, þá er honum umsvifalaust hent á dyr út í atvinnuleysið og örbyrgðina. Okkur ber skylda til þess að ráðast gegn þessu. Við erum að berjast fyrir sjálfsvirðingu og atvinnuöryggi þannig að starfsmaðurinn geti horfst í augu við vinnuveitanda sinn ekki á skó hans.   Eftir hverju er Guð að bíða? Af hverju grípur Guð ekki inn í?, segir hinn einfaldi. Guð reddar þessu ekki. Það erum við sem sköpuðum þetta ástand, ábyrgðin er hjá okkur. Guðmundur Gunnarsson  

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?