Fréttir frá 2003

12 22. 2003

HVERNIG VAR LÍFAÐ ÁN RAFMAGNS? Jólakveðjur RSÍ

Skemmstur sólargangur í Reykjavík er um fjórar klukkustundir. Það má örugglega halda því fram, að baráttan við myrkrið hefur verið ofarlega í hugum Íslendinga alla tíð. Úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram. Skemmstur sólargangur í Reykjavík er um fjórar klukkustundir. Það má örugglega halda því fram, að baráttan við myrkrið hefur verið ofarlega í hugum Íslendinga alla tíð. Um langan aldur var skammdegismyrkrið einn af höfuðóvinum íslensku þjóðarinnar, sem menn urðu að berjast við með þeim föngum sem landið sjálft veitti.   Mör, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi, hákarlslýsi og lýsi úr fiskalifur. Kveikirnir voru gerðir úr fífu. Ljósaáhöldin voru kolur og lampar. Þetta ljósmeti var dýrt og óhentugt, svo það var sparað eftir föngum. Mun þá hafa verið venja að kveikja ekki ljós fyrr en seint í október, eða með vetrarkomu, þegar dagsbirta er ekki nema um þriðjung sólarhringsins. Ekki var þó kveikt um leið og fór að skyggja, heldur fengu menn sér þá rökkurblund og mun hafa verið venja að vakna svo klukkan 6. Þegar ljósið kom tóku menn til við vinnu og var venja að allir kepptust við fram að klukkan 22.   En úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum veg heim að bæjum. En þessi ljós voru svo dauf að þau megnuðu ekki að lýsa mönnum til vegar á fyrstu götum Reykjavíkur. Menn urðu að þreifa sig áfram.  Þannig var ástandið til ársins 1860 þegar steinolíulamparnir fóru þá að flytjast til landsins. Fyrst voru þeir notaðir í sölubúðum og íbúðarhúsum kaupmanna í Reykjavík. Upp úr árinu 1870 fóru þeir að tíðkast í torfbæjum. Bæjarstjórn Reykjavíkur fékk 2.000 kr. lán í hafnarsjóði til þess að kaupa götuljósker, sem komu hingað árið 1876. Fyrsta ljóskerinu var valinn staður á Lækjarbrúnni við Bankastræti. Það var kveikt á því 2. september sama ár. Eitthvað var gleði bæjarbúa blandin og töldu sumir að það væri hreint og klárt hneyksli að bæjarstjórn væri að taka lán úr hafnarsjóði til þess að lýsa fyllibyttum og þjófum til vegar um bæinn.   Þessi ljósker voru notuð til ársins 1910, en þá hófst rekstur gasstöðvar í Reykjavík. Þá var kveikt á 207 nýjum ljóskerum, eða um helmingi fleiri en áður voru. Með gasstöðinni hófst bylting í baráttu Íslendinga við myrkrið og margir létu setja gasljós í híbýli sín. En Ísland var mikil fátækt og hér ríkti örbyrgð og ekki var unnt að leggjast í margskonar stórframkvæmdir í einu. Bæjarfélagið hugsaði fyrr um hafnarframkvæmdir en um rafmagn til ljósa og götulýsingar. Neysluvatn sóttu menn í fötum og skjólum í brunna, þar sem einatt þraut í þurrkum og frosthörkum. Frárennsli voru opnar göturennur. Heilsufar var þannig að læknirinn Matthías Einarsson, rakti taugaveikifaraldur í bænum til neysluvatns úr einum brunnanna. Bæjarbúar lögðu meiri áherslu á neysluvatn en rafvæðingu.   Eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra. Mór hafði alltaf verið aðaleldsneytið, og mótekjan í Vatnsmýrinni og Kaplaskjóli hafði dugað til þessa, en varð lélegri með ári hverju. Bærinn óx í austurátt, og Austurbæingar sóttu sinn mó austur á bóginn, í Norðurmýri, Elsumýri og síðar í Kringlumýri, en austurbæjarmórinn þótti lakari.   FYRSTU VIRKJANIR Um miðja nítjándu öld voru Reykvíkingar um 1.200 talsins, en á fyrsta áratug tuttugustu aldarinnar fjölgaði bæjarbúum mikið og árið 1910 voru þeir orðnir 11.500. Mörg verkefni biðu bæjarstjórnarinnar, en vatnsveitan var talin brýnust. Árið 1906 keypti bærinn Elliðaárnar vegna vatnsveitunnar. Landsfeður höfðu ekki mikla trú á framtíð raforkunnar. Rafveitumál voru mikið rædd í Reykjavík um og eftir aldamótin, einkum var deilt um hvort betra væri að setja upp gasstöð til suðu eða rafstöð til ljósa. Umræðurnar enduðu með því að reist var gasstöð 1910. Var stöðin í fyrstu nýtt bæði til ljósa og suðu, einnig voru settir upp nokkrir gashreyflar.   Jóhannes J. Reykdal réðst í að koma fyrstu rafmagnsstöðinni á Íslandi fyrir í nánd við Hörðuvelli í Hafnarfirði. Þetta stórvirki vann hann einn og óstuddur og Hafnarfjörður varð fyrsti raflýsti bærinn á Íslandi. Fyrsti rafallinn var 9 kW 230 volta rakstraumsrafall frá Frognerkilens Fabrik í Ósló. Hann snérist 620 snún. á mín. og vó 1,5 tonn. 1906 virkjaði Jóhannes  enn við Hafnarfjarðarlæk og nú með 37 kW rafli. 1909 keypti Hafnarfjarðarbær þessa stöð. Um 16 húsveitur með 150 lampastæðum voru tengdar við hana. Hver pera var 16 kerta eða 25 wött. (úr sögu Félags íslenskra rafvirkja eftir Guðmund Gunnarsson)  Rafiðnaðarsamband Íslands sendir öllum landsmönnum jóla- og áramótakveðjur og þakkar gott samstarf á liðnum árum.

Þessi vefur notar vafrakökur til að tryggja eðlilega starfsemi vefsins og mæla heimsóknir á hann. Engar persónugreinanlegar upplýsingar eru vistaðar án samþykkis. Til að lesa nánar um hvernig við notum vafrakökur á þessum vef, Smelltu hér.

Samþykkir þú að vefurinn noti vafrakökur?