RSÍ býður félagsfólki sínu nýjan orlofskost á meginlandi Evrópu sumarið 2025. Um er að ræða rúmgott og sjamerandi mylluhús í Búrgundíhéraði í Frakklandi. Myllan í Commissey er í námunda við vínræktarhéraðið Chablis og í tæplega þriggja tíma akstursfjarlægð frá París (Charles de Gaulle flugvelli).
Húsið er þriggja hæða sveitahús sem byggt var árið 1838 en nokkrum árum fyrr var hinn 250 km langi Búrgúndískipaskurður tekinn í gagnið. Áin Armancon liggur skammt frá og við mylluna er uppistöðulón frá fyrri tíð. Myllan hefur s.l. áratugi verið í eigu Íslendinga og hefur henni verið vel við haldið. Húsið stendur í útjaðri smábæjarins Commissey og liggur landareignin að akurlendi. Stutt er í helstu þjónustu m.a. verslanir og veitingastaði í Commissey/Tanley sem eru í göngufæri auk þess sem ógrynni hjóla- og göngustíga liggur um héraðið. Húsið er reyklaust og gistipláss er fyrir 12 manns í húsinu.
- Leigutímabil: Frá 7. júní – 23. ágúst
- Skiptidagar eru á laugardögum.
- Opnað verður fyrir bókanir 19. febrúar kl. 09:00. Í gildi er reglan fyrst koma fyrst fá.
- Leiguverð: Vikuleiga kr. 191.200 auk €250 sem greitt er á staðnum við lok dvalar.
Myllan í Commissey
Íbúðarhúsið er 330 m2 á þremur hæðum. Á jarðhæð er 65 fermetra stofa sem er jafnframt borðstofa. Gluggar hennar opnast út að uppistöðulóninu og notalegur árniður berst inn í húsið. Einnig er borðstofa sem opnast út í morgunsólina. Á annarri hæð er 45 fermetra stofa með sjónvarpi, þaðan sem gengið er út á yfirbyggða verönd. Eldhúsið er á jarðhæð og þaðan er gengið út á útisvæði með stóru Weber grilli og mataraðstöðu. Fyrir framan húsið er gott útisvæði þar sem nýtur morgunsólar. Útveggir hússins eru mjög þykkir sem kemur í veg fyrir að húsið hitni of mikið á sumrin eða kólni of mikið á veturna.
Í húsinu eru sjö rúmgóð svefnherbergi. Þau eru öll búin hjónarúmum sem flest draga má í sundur (twin bed). Einnig er eitt lítið herbergi sem hentar vel einstaklingi. Það eru fjögur baðherbergi með sturtu auk eins salernis. Á annarri hæð eru auk stofunnar, stórt svefnherbergi með rúmgóðu baðherbergi inn af með sturtu. Auk þess er þar annað svefnherbergi og annað baðherbergi með sturtu. Á þriðju hæð eru 5 tveggja manna svefnherbergi, 1 af þeim er með salerni og sturtu inn af, einnig er á hæðinni salerni og einstaklingsherbergi. Þrátt fyrir þennan fjölda herbergja er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi gesta í húsinu hverju sinni séu 12 manns.
- Húsið
- Húsið
- Húsið séð frá skóginum
- Myllufarvegurinn
- Garður/Lóð
- Aðalinngangur
- Innkeyrsla
- Bílastæði
- Húsið, vatnsmegin
- Lónið við húsið
- Áin við húsið
- Aðalinngangur
- Verönd 1. hæð
- Setustofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Setustofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Setu/borðstofa 1. hæð
- Verönd á 1. hæð
- Verönd á 1. hæð
- Verönd á 1. hæð
- Verönd 1. hæð – morgunsól
- Verönd 1. hæð morgunsól
Upplýsingar um nágrennið
Meðfram Búrgúndí skipaskurðinum eru góðar göngu–, hlaupa- og hjólreiðaleiðir innan um fallega og blómlega akra. Hægt er að ganga, hlaupa eða hjóla svo tugum kílómetra skiptir. Afar vinsælt er að leigja bát á Búrgundí skurðinum sem liggur frá Ermasundi niður í Miðjarðarhaf.
Vínakrar eru allt í kring á svæðinu. Auðvelt er að fara í vínsmökkun og heimsóknir á áhugaverða staði. Í Chablis er hjólaleiga sem býður upp á ferðir á rafmagnshjólum um vínhéruðin með vínsmökkun og hádegisverði. Sömuleiðus er stutt í golfvöll, tennisvelli, körfuboltavöll og fótboltavöll (Tanlay)
Í Tanlay (1,5 km) í burtu er lítil matvöruverslun, matsölustaður og kaffihús, frábært bakarí, 9 holu golfvöllur og renaissance kastali sem er opinn svo eitthvað sé nefnt. Hægt er að ganga til Tanlay meðfram Búrgúndí skurðinum.
Í Tonnerre sem er 8 km frá Commissey er m.a stórar Auchan, Aldi og L´Eclercq matvörverslanir. Í Tonnerre eru einnig nokkrir veitingastaðir (pizza, asískur, kebab, franskur), hraðbankar, lestarstöð, bensínstöðvar og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn.
Chablis er í 14 km fjarlægð og þar eru margir mjög góðir veitingastaðir og vínkaupmenn sem bjóða upp á vínsmakkanir. Þar er einnig rafmagnshjólaleiga. Matarmarkaður er í Chablis á sunnudagsmorgnum.
Vézelay er með vinsælustu ferðastöðum í Frakklandi. Í Vézelay er fræg basilika frá 12. öld sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Þar er að finna lærlegg Maríu meyjar og þaðan hefjast pílagrímagöngur til Spánar. Vézelay stendur mjög hátt og þaðan er gott útsýni yfir sveitina. Margar skemmtilegar verslanir og kaffihús eru í bænum. Í góðu veðri er gaman að ganga að útsýnisskífunni uppi á hæðinni og horfa yfir Morvan þjóðgarðinn. Morvan þjóðgarðurinn er náttúruperla sem er í rúmlega klukkutíma fjarlægð. Í Morvan er mikið af söfnum og alls kyns afþreying, s.s hestaleiga.
Auxerre er í um 45 km fjarlægð. Auxerre liggur við á sem er gaman að sitja við og miðbærinn er mjög skemmtilegur. Í bænum eru margir mjög góðir veitingastaðir og verslanir. Margir fara og versla inn í byrjun vikunnar í Auxerre, t.d. í L´Eclercq. Troyes er lítil borg í 60 kílómetra fjarlægð. Þar er einn stærsti útsölumarkaður (outlet) Frakklands með merkjavöru. Hægt er að komast í kampavínssmakk enda er Troyes við landamæri Champagne héraðs. Miðbærinn er skemmtilegur að ganga í og auðvelt að fá sér gott að borða.
Rúmlega klukkustundar akstur er í skemmtigarðinn Nigloland og um tveggja tíma akstur er í Disneyland.
Aðrir áhugaverðir staðir
Fontenay. Klaustrið í Fontenay er á heimsminjaskrá UNESCO. Klaustrið er undurfagurt með bogahvelfingum og fallegum garði.
Caves de Bailly – Freyðinvínshellarnir í Bailly Hellarnir voru grafnir út og marmarinn notaður í byggingar í París. Boðið er upp á leiðsögn um hellana, vínsmökkun og hægt er að kaupa Crémant (Bourgogne freyðivín) á staðnum. Bailly freyðivínið er eitt það vinsælasta á Íslandi í dag en tegundirnar eru auðvitað mun fleiri en þær sem hægt er að kaupa á Íslandi. Beaune er óopinber höfuðborg Côte d’Or vínræktarsvæðisins í Bourgogne. Hér er fallegt safn, Hospice de Beaune (Hotel Dieu) þar sem maður upplifir gamla tíma, sögu og menningu. Hægt að fara í rauðvínsvínsmökkun víða og mögulega gista eina nótt.
Noyer-sur-Serein er mjög fallegur miðaldarbær með mikið af húsum frá 15., 16. og 17. öld. Talinn vera með fallegustu bæjum Frakklands. Miðstöð fyrir heimilislistiðnað.
Nuits-sur-Armancon er fallegur lítill miðaldarbær.
Flavigny-sur-Ozerain er friðsæll lítill bær sem er frægur fyrir framleiðslu á anissælgæti. Myndin Chocolat með Juliette Binoche var tekin þar.
Ancy-le-Franc skartar renaissance kastala.
Dijon er skemmtileg borg með góðu göngusvæði í miðbænum. Hjarta sinnepsframleiðslu í Frakklandi og sú borg Frakklands sem er með flesta veitingastaði með Michelin stjörnu.