Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ mótmælir sölu mikilvægra innviða þjóðarinnar til einkaaðila. Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ hvetur stjórnvöld til þess að tryggja að samfélagslega mikilvægir innviðir verði allir í innlendri og samfélagslegri eigu. Grunnfjarskiptanet landsins á ekki að reka með hagnaðarsjónarmiði einkaaðila. Fyrir því eru fjölmörg rök sem snúa að öryggi og verðmæti þjónustu. Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ mótmælir því sölu á Mílu ehf. til erlendra fjárfestingarsjóða og hvetur íslensk stjórnvöld til þess að grípa inn í þessa fyrirhuguðu sölu og tryggja að þessir mikilvægu innviðir verði í innlendri samfélagslegri eign. Jafnframt teljum við að íslenska ríkinu beri að tryggja að aðrir sambærilegir innviðir, s.s. raforkudreifikerfi, haldist áfram í samfélagslegri eigu.