Félag Sýningarstjóra við Kvikmyndahús.

 

 

NÝTT
Myndir úr 70 ára afmæli F. S. K.
Aðsent efni
Saga F.S.K.
A.T.H.
Gömlum myndum af bíóhúsum tækjabúnaði og starfsemi þeirra er hægt að senda á rpbryn@gmail.com
Gott er að hafa smá texta með myndum.


vefstjóri

 
 

 

"HINIR VILLTU " "THE WILD ONE "

 

Ágreiningi um hvað sé ofbeldi i kvikmyndum, skýtur af og til upp kollinum og finnst eflaust mörgum nóg um atganginn nú til dags. Af því tilefni skulum við líta á tvær útgáfur af einni og sömu myndinni, sem er frá árinu 1953 og skoðum mismuninn á efnislegri túlkun -rúmlega hálfri öld síðar.

 

OFBELDISMYNDIR FYRR OG NÚ

 

Þær voru margar myndirnar sem litu tjaldsins ljós, þegar ég var sýningarmaður í Stjörnubíó á árunum 1952 til 1967.
 

Þar á meðal var stórmyndin "The Wild One" með Marlon Brando sem þá var ungur og grannur æskunnar idol. Þessi kvikmynd þótti töff og kúl og hlaut jafnvel einhver Oscars-verðlaun. Hún fjallaði um mótorhjólagengi, einskonar "Hell´s Angels", sem létu mikið á sér bera á þessum árum – og gera enn. Myndin þótti raunsæ og hér kemur söguþráðurinn í hnotskurn:

Upphafið dæmigert. Mótorhjólagengi hertekur smábæ einhversstaðar í USA. Lögreglan samanstendur af hjartveikum gamlingja, sem hlaut jobbið vegna stuðnings við mág sinn í kosningu til bæjarstjóra. Allir eru strákarnir fríðir sýnum – og hvítir ! Það er ekki blettur né hrukka á leður-outfittinu og Harley Davidsonarnir glansa og gljá svo kreista má fílapensla úr fésinu með því að bera smettið upp að púströrinu ! Íbúarnir leggjast í hræðslu. Litla Kaffistofan verður þungamiðja atburðanna. Þegar strákarnir eru búnir að koma sér þar fyrir, skeður ekkert um stund. Brando er að vísu búinn að krækja í þorpsgáluna og ég segi það satt: "ofbeldið" fólst í því að skötuhjúin sötruðu gosdrykk gegnum rör og einn af félögunum tók kráareigandann á taugum með því að benda honum glottandi á, að sér fyndist veggfóðrið á barnum ljótt ! Það var verið að byggja upp spennuna ! Gengilbeinan var eins öndvegissúla í laginu og engin leit við henni. Samkvæmt spennu- formúlunni mega ekki líða meira en 20 mínútur í ró og næði. Þá verður eitthvað að gerast. Strákarnir fara á stjá til að stríða svolítið fólkinu í bænum og þá kemur auðvitað að snúningpúnkti myndarinnar. Gamall, hálf-blindur karl og kerlingin með, aka í fáti á einn gaurinn og hjólið hans. Smá dæld kemur á bensíntankinn, þegar Davidsoninn fellur á hliðina. Vinirnir banka eitthvað í bílinn í hefndarskyni og gömlu hjónakornin eru viti sinu fjær af ótta. Þá rennur upp örlagastundin hjá lögreglustjóranum. Hann dregur upp byssuhólk, handtekur Brando og stingur honum í jeilið og gálan fylgir með. Við þessari hetjudáð höfðu mótor-kapparnir ekki búist enda aðeins vopnaðir naglaklippunum sínum. Brando glottir framan í félaga sína og gefur í skyn að þessi skerðing á frelsi muni aðeins vara í "ákveðinn tíma".

Meðan þessi magnþrungna atburðarás á sér stað, hefur þorpsbúum borist hjálp. Lögregulið frá nágrannabæ er komið til skjalanna á laun. Bæjar-róninn er rekinn úr klefa sínum og mótorhjólagenginu stungið inn í heilu lagi. Ábúðarfullur lögregluforingi tekur Brando á eintal og er næstum búinn að drepa hann úr leiðindum, þegar hetjan gefst upp og lofar bót og betrun!!

Þá er öllum sleppt. Lokaskotið: Allir komnir á hjólin sín- í víðri mynd- og búast til brottfarar með Brando í forgrunni á hvíta tjaldinu. Þá geispar hann hinni gullvægu áminningu framan í stjarfa bíógesti: " Strákar ! Þið þarna úti. Þetta borgar sig ekki. Einhver gæti meiðst !"  Svo er prumpað af stað.

 

ENDIR - Ein stjarna !

 

Jæja ! Taugarnar að bresta? Þá skulum við líta á nýja útgáfu af sömu kvikmynd- nær núinu !

 

"THE WILD ONE" TAKE 2

Keimlík byrjun. Mótorhjóla-gengi þrusar með ógnarlátum inn í smábæ, einhversstaðar í USA. Fyrirferðin er ógurleg. Menn og skepnur tvístrast í allar áttir undan glanna-akstri og fúkyrðum.

Nú er útgangurinn á mannskapnum annar en í ´53 myndinni. Allir eru skítugir – undir allskyns áhrifum og mublurnar í kjaftinum eru eins og svartar gardínur í henglsum ! Svo hafa blökkumenn og aðrir kynþættir fengið sinn kvóta eins og vera ber og nú eru aldeilis skvísur meðferðis !!

Á stuttbuxum og ermalausum bolum. Tútturnar á stærð við júgrin á svissneskum mjólkurkúm !

Hárlufsur þyrlast í allar áttir og fljúgandi fuglar falla dauðir niður. Stybban er þvílík. ( Ég gæti ímyndað mér að henni megi líkja við lyktina í búningsherbergi leikmanna að loknum úrslitaleik í handbolta ! )  Staðnæmst við stöðumæla og þeir klipptir í sundur með töngum, til að öngla saman í vasa-peninga. Þá birtist lögreglustjórinn – the Sheriff ! Hann er nánast sama týpan og í Brando-myndinni, horaður og hjartveikur. Sýnir mikið áræði og skipar þeim burt hið snarasta ! Rosaleg hlátrasköll og miðputtar upp í loftið:  "Ekki vera reið, mamma" og fleiri skítakomment frá liðinu. Svo rífur foringinn hjarta-gangráðinn úr löggustjóranum, tekur rafhlöðuna og stingur henni upp í afturendann á honum. ( því miður var rafhlaðan ekki lekafrí svo vörður laganna deyr kvalarfullum sýru-dauðdaga 4,5 dögum seinna og er þar með úr sögunni )

Litla Kaffistofan er snyrtileg krá en verður það ekki lengi. Svo mikið er víst. !Menn og konur ryðjast inn. Það er ekki haft fyrir því að banka heldur fjúka hurðir flatar með karmi og öllu tilheyrandi. Gamlingi af Elliheimilinu, sem hafði kíkt í glas á barnum, situr á klóinu. Honum er snarlega sturtað niður – óskeindum !  Ekki er óskað eftir vínlista. Barþjóninum er troðið oní ískistuna og ruddarnir opna flöskur með því að bíta af stútinn ! Bjórdósir eru gataðar með nöglunum. Tvær afgreiðslustúlkur eru á svæðinu en nú snýst hlutverk þeirra við.

ÞÆR eru "afgreiddar" í hvelli ! Það er búið að reyta kráar-köttinn og hella hann fullan. Stór-vindli troðið upp í páfagaukinn. Brátt fer leikurinn að æsast að mun. Nokkur hraustmenni úr

Þjóðvarðliði bæjarins ná í vopn sín og verjur og leita inngöngu. Þar er ekki komið að tómum kofanum !  Vopnasafnið innifyrir eru ekki lengur naglaklippur, heldur hríðskotatól og kutar af öllum stærðum og gerðum. Byssukúlur hvína í allar áttir, ótal tegundir af blóðflokkum, tætlur af skorpulifur og heilasellum spýtast á veggi og gólf. Síðan eru myndskeiðin sýnd hægt í nærmynd svo gefist tóm til að grandskoða fljúgandi líkamsparta – og svo enn á ný í aðeins víðari mynd til að gefa heildarsýninni meira vægi !  Andstæðingar eru ristir á kvið en forstöðukona fátækrahjálpar bæjarins, safnar slátrinu saman í bala enda sjálf nokkuð örugg í sex pilsum og skotheldum upphlut!  Eyru eru skorin af mönnum og þeim dýft í "Hot"-Salsasósu og sporðrennt með merg og öllu !  Einhverveginn enda þessi ósköp. Lögreglulið frá TVEIMUR bæjarfélögum er nú líka komið á vettfang. Öllu genginu er hent út af kránni og upp á hjólin sín.

Þá birtast þessi undur og stórmerki eins og alltaf í ofbeldismyndum: Allir virðast heilir og nánast ósárir – ef til vill einn og einn með bómullarhnoðra í nösunum eða tómatsósu á enninu !

Er nokkuð að undra þótt ofbeldisfíklar haldi að það sé óhætt að berja, banka og sparka í næsta mann. Fórnarlömbin standa bara á fætur og smæla eins og hetjurnar í myndinni !

(Ég varð að segja eitthvað af viti í lokin )

 

ENDIR Fjórar stjörnur !

 

Með kveðju Agnar Einarsson.

 

 

   Rafiðnaðnarsamband Íslands    Stórhöfða 31   112 Reykjavík   sími 580 5200    fax 580 5220