Reglubundnar sýningar hefjast.
Fjalakötturinn, eða Bíó.

 

Í byrjun nóvember höfðu hins vegar orðið þáttaskil í kvikmyndasýningum hér á landi, því þá tók til starfa fyrsta kvikmyndahúsið. Hét það Fjalakötturinn, en var einnig þekkt meðal þjóðarinnar sem Reykjavíkur Biograftheater, eða einfaldlega Bíó.  Bíó var til húsa í Breiðfjörðsleikhúsi við Aðalstræti og sýndi kvikmyndir að staðaldri. Danskir aðilar voru þar í forsvari, en stofnandi bíósins og fyrsti eigandi þess var Fr. Warburg, stórkaupmaður í Kaupmannahöfn. Hann keypti nauðsynleg áhöld til kvikmyndasýninga, ásamt lítilli rafstöð sem knúin var olíuhreyfli. Fékk Warburg svo landa sinn, trésmiðinn Alfred Lind, til að annast framkvæmdir.
Gengið var inn í bíóið úr Bröttugötu í Grjótaþorpinu. Sætum í leikhúsinu var snúið við, þannig að upphækkuðu sætin komu yfir leiksenuna og sýningartjaldið var í hinum endanum. Þannig hafði verið útbúinn salur sem hentaði til kvikmyndasýninga.
Bíó vann sér fljótlega sess í hugum Reykvíkinga og nærsveitamanna. Fjölmargir listamenn áttu þar sinn samastað og einn þeirra, Eufemía Waage, leikkona, lýsti húsinu svo í endurminningum sínum:
 
Var húsið kallað „Fjalaköttur“, af því að það þótti svo mikið gálgatimbur. Fyrst var gengið upp háar tröppur inn í áhorfendasalinn, en fremstu bekkirnir voru með stoppuðum sessum og var það mikil bót frá því, sem áður hafði verið. Almennu sætin voru aðeins trébekkir með bökum. Barnasætin voru svo baklausir bekkir, því það var svo sem ekki verið að vanda krakkagreyjunum kveðjurnar. Aftast í salnum voru svalir, og mig minnir, að af þeim, frekar en úr áhorfendasalnum sjálfum, hafi verið gengið út á aðrar svalir, sem lágu innanvert á húsinu, inn í portið, sem húsið var byggt utan um. Yfir þessu porti var svo glerþak. Þarna áttu víst áhorfendur að spóka sig milli þátta. Niður af þessum svölum var gríðarlega hár stigi eða stigar niður í portið. Þetta þótti hálfglæfralegt byggingarlag og fékk húsið því þetta Fjalakattarnafn, sem loðir við það enn. Í daglegu tali var það þó bara kallað „kötturinn”.
 
Bíó var opnað með pomp og prakt hinn 2. nóvember 1906, eftir nokkra byrjunarörðugleika. Í salnum voru tæplega 300 sæti, flest á lausum bekkjum. Gengið var inn og út og sömu dyr og gat því á stundum orðið talsverður troðningur.
Húsnæðið var leigt til tíu ára og var mánaðarleiga ákveðin kr. 50. Þegar Lind hélt af landi brott ári síðar hækkaði leigan í 200 kr., og hélst þannig fram til ársins 1913, en þá urðu eigendaskipti á húsinu og hækkaði leigan í 400 kr. á mánuði.
Gera má því skóna hið hækkaða leiguverð endurspegli gott gengi kvikmyndahússins, en daglegar tekjur þess munu hafa verið 70 til 80 kr. fyrstu árin. Því sést að húsaleiga hefur ekki verið ýkja stór útgjaldaliður í rekstrinum. Hagnaðurinn var talsverður, enda hvíldu á rekstrinum litlar álögur, aðeins sýningargjald, sem svo var nefnt, en það nam 2 kr. á hverju sýningarkvöldi og gekk, samkvæmt lögum, í fátækrasjóð.